top of page
Search

Hvernig á Chelsea að halda í Eden Hazard?


Engin leikmaður er stærri en klúbburinn - þetta er frægur frasi sem eflaust er mikið til í. Hins vegar er það þannig að vægi leikmanna er gríðarlega mismunandi og í Chelsea Football Club er Eden Hazard sá allra mikilvægasti. Hann er nú þrálátlega orðaður frá félaginu eftir að Real Madrid seldu Cristiano Ronaldo til Juventus.


Hazard hefur verið orðaður við Real Madrid í mörg ár, það er ekkert leyndarmál að kappinn lítur mjög upp til spænka konungsliðsins og hefur reglulega gefið í skyn að hann vilji einn daginn spila fyrir liðið. Það er engu að síður bara fyrst núna sem aðstæður eru að skapast hjá Real Madrid til að kaupa aðra stjórstjörnu (galactico), eftir brottför CR7 til Juventus. Mér finnst þó vert að taka það fram að þó Hazard hafi reglulega verið að gæla við Real Madrid, þá hefur hann alltaf komið fram af mikilli virðingu gagnvart Chelsea og aldrei reynt að þvinga fram nein félagaskipti. Hann hefur alltaf talað um að hann sé mjög hamingjusamur hjá Chelsea - það er bara miklu minna fjallað um þau ummæli þar sem þau eru ekki eins spennadi fyrir blaðamennina.

Chelsea stendur núna frammi fyrir því að reyna sannfæra Hazard um að skrifa undir nýjan samning, ef það mistekst er líklegast réttast að selja kappann. Hazard á 2 ár eftir af samningnum sínum og ég persónulega vill ekki sjá hann eiga aðeins ár eftir að samningi næsta sumar og fara þá á lægra verði en ella. Arsenal og Alexis Sanchez vitleysan ættu að vera víti til varnaðar.

Mun Real Madrid koma með tilboð?

Þetta er stóra spurningin. Slúðrið segir að Hazard sé plan B eða jafnvel plan C! Real Madrid virðist hafa mestan áhuga á að kaupa Neymar og eru alls konar samsæriskenningar að fljúgja um internetið að planið hjá Neymar hafi alltaf verið að enda í Real Madrid með stuttu stoppi í París. Ef Neymar reynist ómögulegur þá segir slúðrið að Kylian Mbappé sé næsta nafn á blaði og þar á eftir komi Hazard. Það verður gríðarlega erfitt (og dýrt) fyrir Madridinga að reyna að kaupa annað hvort Mbappé eða Neymar. Gleymum ekki að PSG þarf alls ekkert að selja einn né neinn og geta verið mjög harðir í horn að taka - þeir eru ekki hrifnir að því að selja sína bestu menn.

Þannig gæti Hazard verið bæði ódýrari og einfaldari kostur en aðrir leikmenn á óskalista Real Madrid. Það þarf samt alls ekki að vera eitthvað sem við eigum að óttast. Egóið í Real Madrid er svo stórt að stuðningsmenn liðsins vilja oft fá það stærsta og mesta - mögulega myndu margir stuðningsmenn liðsins ekki finnast Hazard vera nægilega stór kaup til þess að leysa Ronaldo af hólmi. Ég held að Florentino Perez muni reyna allt sem hann getur til þess að kaupa Neymar eða Mbappé áður en hann snýr sér að okkar manni.

Hvað getur Chelsea gert til að halda Hazard?

Hazard sagði frá því í lok síðasta tímabils að hann myndi bíða með að skrifa undir nýjan samning til að sjá hvað myndi gerast hjá Chelsea. Þá var hann klárlega að vísa til þjálfaraóvissunar en líka að tala um styrkingu á liðinu. Maður fékk það á tilfinninguna að Hazard hefði ekkert verið alltof hamingjusamur undir handleiðslu Conte. Conte tók hann reglulega af velli í lok leikja og spilaði Hazard oft sem fremsta manni - staða sem hann vill helst ekki spila. Það hefði því klárlega unnið gegn Chelsea að halda Hazard ef Conte hefði haldið áfram sem þjálfari liðsins.

Hazard vill sjá að Chelsea ætli sér að berjast um titilinn og komast strax aftur í Meistaradeildina. Chelsea þarf að fjárfesta í liðinu og Hazard vill sjá alvöru leikmenn koma, leikmenn sem eru hugsaðir beint í byrjunarliðið og bæta gæðin í liðinu. Takist Chelsea að gera þetta eru mun meiri líkur á að Hazard framlengi. Ráðningin á Sarri og kaupin á Jorginho eru klárlega skref í rétta átt en ég held að það þurfi meira til. Við þurfum að kaupa meiri gæði, sérstaklega ef Willian ákveður að fara.

Breyttur leikmannagluggi gæti hjálpað Chelsea

Eins og flestir vita lokar leikmannaglugginn fyrr en áður, þann 9. ágúst. Chelsea þarf því að hafa hraðar hendur, bæði til að leysa þetta Hazard mál og til að styrkja liðið. En höfum í huga að spænski glugginn lokar seinna svo Chelsea þarf að gera Real Madrid grein fyrir því að ef Hazard á að fara þá þýðir ekki að gera það undir lok enska leikmannagluggans. Vonandi munu Madrídar menn eyða fullt af púðri í að sannfæra PSG um að selja sér annað hvort Neymar eða Mbappé og brenna hreinlega inni með að reyna að fá Hazard.

Fari svo að Real Madrid opni á viðræður við Chelsea þá vil ég sjá Chelsea vera alveg leiðinlega þrjóska og biðja um svipaða upphæð og Neymar fór á síðasta sumar og jafnvel reyna að fá leikmenn í skiptum, Asensio, Bale eða jafnvel Isco. Ég geri mér fulla grein fyrir því að það er mikil bjartsýni að áætla að slík skipti kæmu til greina en ef Chelsea missir Hazard að þá verður liðið að styrkja sig á móti og það strax.

Hvaða leikmenn gætu komið í staðinn fyrir Hazard?

Vonandi þarf Chelsea ekki að standa frammi fyrir þessu vandamáli en ég hendi þó nokkrum nöfnum hér fram, þau eru ekki í neinni sérstakri röð.

  • Julian Draxler - hörkuleikmaður sem spilar lítið hjá PSG

  • Marco Asensio - verður svakalega erfitt að sannfæra Real Madrid um láta hann fara.

  • Antoine Martial - vill fara frá Man Utd, á mikið inni eftir mikla bekkjarsetu hjá Móra.

  • Malcom - ungur og efnilegur hjá Bordeaux, kostar víst mjög mikinn pening miðað við hvað hann er óskrifað blað.

  • Leon Bailey - mikið orðaður við Chelsea en Leverkusen vill fá 80 milljónir punda fyrir þennan efnilega leikmann.

  • Christan Pulisic - bandaríska undrabarnið hjá Dortmund.

  • Hirving Lozano - sló í gegn hjá HM, spilar hjá PSV í frekar veikri hollenskri deild. Líklega ódýrasti kosturinn í þessari upptalningu.

Það liggur fyrir að allir þessir leikmenn eru lakari kostur en Hazard, það er bara þannig. Hins vegar hafa leikmenn eins og Bailey, Malcom og jafnvel Martial gæði til að verða súperstjörnur, líkt og Hazard var þegar við keyptum hann.

KTBFFH


bottom of page