top of page
Search

Uppgjör tímabilið 2017/18


Maður er feginn að þetta tímabil sé búið. Svo einfalt er það. Væntingarnar voru miklar eftir óvæntan titil frá tímabilinu áður og líklega voru þær væntingar óraunhæfar þegar uppi var staðið. Núna er mikil óvissa í kringum klúbbinn en þegar þetta er ritað er líklegast að Ítalinn Maurizio Sarri taki við stjórnartaumunum af Antonio Conte.

Í þessu uppgjöri munum við gera upp tímabilið í heild, keppnirnar, leikmannakaupin, spilamennsku lykilmanna og frammistöðu þjálfara.

Frammistaða í keppnum

Enska Úrvalsdeildin

Chelsea endaði í 5. Sæti í ensku Úrvalsdeildinni og náði þannig ekki fyrsta og mikilvægasta markmiði sínu sem var að tryggja sér sæti í Meistaradeildinni með því að lenda í einu af fjórum efstu sætunum. Segja má að grundvallarmarkmiðið hafi því klikkað, svo einfalt er það. Af þessum 38 leikjum sem Chelsea spilaði í deildinni voru 21 sigurleikur, 7 jafntefli og 10 töp (!). Liðið var einfaldlega ekki sterkara en þetta. Til að standa sig vel í jafn krefjandi deild og enska Úrvalsdeildin er þarf stöðugleika, hann var ekki að finna hjá Chelsea í vetur. Antonio Conte orðaði það ágætlega þegar hann sagði töfluna ekki ljúga, Chelsea endaði verðskuldað í 5. sæti.

Meistaradeildin

Chelsea dróst með Roma, Atl. Madrid og Qarabag í Meistaradeild Evrópu. Fyrirfram hefði maður haldið að þetta hefði verið ágætast dráttur enn eitt af spútníkliðum Evrópu var Roma svo þessi riðill var mjög krefjandi. Roma leikirnir tveir gerðu það að verkum að Chelsea endaði í 2. sæti riðilsins og mætti því Barcelona í 16. liða úrslitum. Fyrri leikurinn var flottur hjá okkar mönnum en því miður kostuðu mistök Andreas Christsensen okkur sigurinn. 1-1 staða eftir fyrri leikinn var of stór biti fyrir heimsókn á Nou Camp og því duttum við út.

Bikarkeppnirnar

Chelsea vann FA bikarinn eins og við vitum vel. Liðið gerði samt heiðarlega tilraun til þess að detta út á móti Norwich snemma í keppninni. Sigurinn á Man Utd í úrslitaleiknum var mjög sætur jafnvel þó spilamennskan hafi ekki verið neitt frábær sóknarlega. Chelsea datt út á móti Arsenal í undanúrslitum deildarbikarsins og missti þar af úrslitaleik við Man City á Wembley.

Að detta út úr Meistaradeildinni í 16. liðar úrslitum og lenda í 5. Sæti deildarinnar eru einfadlega vonbrigði – jafnvel þó bikarsigurinn deyfi örlítið þann sársauka.

Leikmannakaup:

Ég ætla fjalla lítilega um hvern og einn leikmann og svo gefa þeim einkunn á skalanum 0-10:

Alvaro Morata

Dýrasti leikmaður í sögu Chelsea. Keyptur á 60 milljónir punda til þess að leysa Diego Costa af hólmi. Ég var einn af þeim sem hefði kosið Romelu Lukaku í stað Morata en verð svo að viðurkenna að Morata heillaði mig framan af því byrjun hans hjá Chelsea var mjög góð. Eftir því sem leið á urðu frammistöðurnar verri og kom svo síðar í ljós að bæði hafði hann verið að spila sig í gegnum meiðsli í baki og svo lést náinn vinur hans í bílslysi – eitthvað sem sat veurlega í honum.

Það sem er pirrandi við Morata er hversu ótrúlega hæfileikaríkur hann er og hversu lítið hann nær að nota þessa hæfileika. Hann hefur hæð, boltatækni, hreyfir sig gríðarlega vel án bolta, hefur hraða, er frábær skallamaður og getur skotið fyrir utan teig. Það er bara hausinn á honum sem virðist ekki vera rétt skrúfaður saman því hann eyðir alltof miklu tíma í væla í dómaranum og pirra sig á hlutum sem hann getur ekki haft áhrif á.

Morata skoraði 15 mörk í 48 leikjum í öllum keppnum. Hann brenndi af of mörgum dauðafærum og brást liðinu alltof oft þegar mest á reyndi. Einkunn: 5,0.


Timoue Bakayoko

Leikmaðurinn sem átti að fylla skarð Nemanja Matic. Líkt og Morata byrjaði hann ágætlega, spilaði td mjög vel í sigurleiknum gegn Spurs í ágúst og var að mínu mati einn besti leikmaður liðsins í sigurleiknum gegn Man Utd á Stamford Bridge í október. Eftir áramót er eins og eitthvað hafi gerst fyrir Bakayoko og leikurinn sem hann spilaði gegn Watford er sennilega versta frammistaða sem ég hef séð nokkurn leikmann Chelsea eiga í fótboltaleik. Það eru klárlega hæfileikar þarna en Bakayoko brotnaði einfaldlega undan álaginu á Englandi og stóð engan veginn undir neinum væntingum. Einkunn: 4,0.

Danny Drinkwater

Danny Drykkjarvatn var keyptur sem fjórði miðjumaður í tveggja manna miðju Conte. Hann er því keyptur á bekkinn og til að reyna setja pressu á þá Bakayoko, Kanté og Fabregas. Þessi kaup eru því miður algerlega misheppnuð. Ég vil þó segja að ég hafi örlitla samúð forráðamönnum liðsins, Chelsea vildi ekki selja Nate Chalobah sem vildi því miður fara út af litlum spiltíma árið áður. Danny Drinkwater er einfaldlega ekki með þau gæði sem leikmenn þurfa að hafa til þess að spila fyrir Chelsea. Einkunn: 4,0.

Antonio Rudiger

Rudiger voru fyrstu stóru kaup Chelsea í sumarglugganum. Chelsea var oftast orðað við fyrrum samherja hans hjá Roma, Kostas Manolas en að lokum var Rudiger kynntur sem leikmaður Chelsea í byrjun júlí. Rudy byrjaði hægt hjá Chelsea enn vann sig hægt og rólega inn í liðið. Undir lok tímabilsins var hann orðinn fastamaður í liðinu. Hann kórónaði svo flott tímabil með því að vera valinn maður leiksins í úrslitaleik FA bikarsins þar sem hann lék frábærlega. Hefur allt sem miðvörður þarf að hafa, les leikinn vel, er stór, sterkur og fljótur. Einkunn: 8,0.

Davide Zappacosta

Þetta er kappinn sem örfáir aðdáendur Chelsea þekktu einhver skil á er hann keyptur. Zappacosta kom til liðsins til að veita Moses einhverja heilbrigða samkeppni. Fyrsti kostur Chelsea var Oxlade-Chamberlain sem valdi frekar að fara til Liverpool og verða miðjumaður hjá Klopp og co. Zappacosta veitti Moses samkeppni og stóð heilt yfir þokkalega. Hann er samt ekki betri leikmaður en Moses verður áhugavert að sjá hvað verður um hann á næsta tímabili þar sem Chelsea mun líklega ekki spila með vængbakverði áfram. Einkunn: 6,0

Willy Caballero

Willy stóð fyrir sínu sem varamaður fyrir Courtois, spilaði bæði í deildarbikarnum og bikarnum og stóð sig með prýði. Meira getur maður óskað eftir að hálfu varamarkmanns. Einkunn: 7

Oliver Giroud

Þvílíkur happafengur! Kom eins og kallaður inn í liðið og er akkurat leikmaðurinn sem Conte vill hafa til að leiða línuna, leikmaður sem getur haldið boltanum vel uppi og valdið usla í teignum. Kom frá erkifjendum okkar í Arsenal þar sem hann var orðinn bekkjarmatur sem er alltaf örlítið skrítið þar sem við kaupum ekki oft leikmenn frá Arsenal. Giroud stóð sig þegar liðið var yfirleitt að spila illa, leikirnir gegn Southampton (bikar og deild) standa upp úr. Einkunn: 8,0.

Emerson:

Hefur aðeins spilað örfáa leiki og því erfitt að meta hann. Var að stíga upp úr erfiðum meiðslum er hann var keyptur sem klárlega hafði áhrif. Spilaði þrjá leiki er Alonso fór í leikbann og stóð fyrir sínu. Þarf að sjá meira af honum til þess að gefa einkunn.

Ross Barkely

Sama og með Emerson, kom meiddur og ekki hægt að gefa einkunn fyrir örfáa leiki. Hann hefur hæfileika, það efast enginn um það bara spruning hvort hann nái að halda sér heilum og setja pressu á byrjunarliðssæti hjá Chelsea.

Eins og þessi yfirferð gefur til kynna stóðu mörg leikmannakaupin ekki undir væntingum, þá sérstaklega þau mikilvægustu í Bakayoko og Morata – liðið var því veikara fyrir en árið áður. Svo einfalt er það.

Leikmaður tímabilsins

Því miður eru alltof fáir til kallaðir í þennan hóp en þó nokkrir. Þeir sem sýndu hvað mestan stöðugleika í vetur voru þeir N‘Golo Kanté og Cesar Azpilicueta. Eden Hazard og Willian áttu sína spretti en voru ekki nægilega stöðugir heilt yfir. Einnig var gaman að sjá Andreas Christansen brjótast inn í liðið lungað úr tímabilinu, jafnvel þó leikur hans hafi dalað mikið þegar leið á tímabilið.

Ég vel N‘Golo Kanté leikmann ársins. Hann er mikilvægasti leikmaður liðsins sem skilar alltaf sínu, svo einfalt er það.


Vonbrigði tímabilsins

Hér koma alltof margir til greina. Við höfum farið yfir það hversu mikil vonbrigði Alvaro Morata og Bakayoko voru – þeir koma sterklega greina. Einnig hvarf David Luiz hreinlega af yfirborði jarðar eftir hinn hörmulega Watford leik og hefur verið sagður meiddur í marga mánuði en allir vita að hann er í skammarkróknum eftir að hafa rifist við Conte. Pedro stóð engan veginn undir væntingum sem og Victor Moses sem virðist hafa gleymt því algerlega hvernig á að fara framhjá bakvörðum.

Ég vel Bakayoko sem vonbrigði ársins. Leikmaður sem er keyptur til þess að vera algert skrímsli fyrir okkur inn á miðjunni en endaði svo með spila eins og lítill hræddur kettlingur hlýtur bara að fá þessa nafnbót. Það leiðinlega við þetta allt saman er Bakayoko sýndi það reglulega að hann hefur fullt af hæfileikum.

Besti leikur tímabilsins

Fyrir mér er þetta auðveld spurning, leikurinn á útivelli gegn Atl Madrid í Meistaradeildinni var frábærlega leikinn af okkar mönnum. Þar unnum við lið sem næstum því aldrei tapar, hvað þá á sínum eigin heimavelli. Chelsea stjórnaði þeim leik vel, gáfu fá færi á sér og voru beittir sóknarlega. Ef Chelsea hefði spilað svona leiki allt tímabilið hefðum við verið ósigrandi. Frábær frammistaða í alla staði frá aftasta manni til þess fremsta.

Versti leikur tímabilsins

Þar sem Chelsea tókst að tapa hátt í 15 leikjum á þessu tímabili er úr nóg af slökum leikjum að velja. Það fyrsta sem kom upp í hugann var 0-3 gjaldþrotið gegn Bournemouth á Stamford Bridge og svo lokaleikurinn í deildinni gegn Newcastle. Ég ætla hins vegar að velja útileikinn gegn Manchester City sem versta leik tímabilsins. Conte fór inn í þann leik með því hugarfari að reyna ekki að vinna leikinn, Hazard átti að spila eitthvað Didier Drogba hlutverk og leikmenn bersýnilega hræddir inni á vellinum. Ég mun aldrei gleyma mómentinu þegar Fabregas stendur kyrr og horfir á Fabian Delph með boltann sem einnig stendur kyrr og það eru ekki nema nokkrar mínútur eftir að leiknum og við 1-0 undir. Skammarleg frammistaða.

Antonio Conte

Mér finnst Antonio Conte frábær stjóri. Það efast ekki nokkur maður um þekkingu hans á leiknum, líklega er Conte einn af 5 bestu þjálfurum í heiminum. En því miður er þetta hjónaband milli Chelsea og Conte orðið svo slæmt að ekki er hægt að bjarga því. Margir eru að velta fyrir sér hvor eigi sökina, að mínu viti er sannleikurinn einhverstaðar í miðjunni. Yfirstjórn Chelsea hefði svo sannarlega getað stutt betur við bakið á Conte hvað varðar leikmannakaup á meðan Conte hefði getað höndlað meðhöndlun á leikmönnum mun betur. Diego Costa dæmið skaðaði Conte t.d. mikið hjá Chelsea. Costa var mjög vinsæll í klefanum og hvers manns hugljúfi utan vallar. Vissulega vildi Costa fara og Conte hefði bara átt að hafa hægt um sig gagnvart framherjanum og leyfa þessum málum að fara í eðlilegan farveg.


Einnig hefur Conte tekist að fá bæði Willian og David Luiz upp á móti sér – allt þetta skaðar andrúmsloftið sem smitast inn á völlinn. Gary Cahill sagði sjálfur í kjölfar bikarleiksins að leikmönnum liðsins vanti sárlega skýrleika (e. clarity) því þessar eilífu sögusagnir um Conte höfðu skaðað liðið.

Önnur mistök sem Conte gerir er að gagnrýna yfirstjórn Chelsea í fjölmiðlum. Það er í góðu lagi að vera ósammála en hvers vegna er maðurinn að draga þetta trekk í trekk fram á blaðamannafundum? Hvaða gagn á það að gera? Knattspyrnulið eru eins og klukkuverk, ef minnsta tannhjólið í öllu verkinu er bilað þá virkar ekki klukkan. Samband Conte og yfirstjórnar Chelsea hafa skaðað klúbbinn á þessu tímabili og þess vegna þarf Conte að fara.

Það voru alltof mörg vonbrigði á þessu tímabili sem hafa verið rakin hér að ofan. Vonum bara að næsta tímbil verði okkur skemmtilegra. Um leið og þjálfaramálin fara að skýrast fjöllum við um þær breytingar sem þurfa að eiga sér stað innan Chelsea Football Club fyrir næsta tímabil.

KTBFFH


bottom of page