top of page
Search

Bikarúrslitaleikur: Chelsea vs Man Utd


Jæja, þá er komið að því.

Síðasti leikur Chelsea á tímabilinu 2017/18 er núna á laugardaginn 19. maí. Leikurinn er ekki að verri endanum, FA úrslitaleikur gegn Man Utd. Leikurinn er að sjálfsögðu leikinn á Wembley og hefst hann kl 16:15.

Síðasti leikur

Þessi upphitun á að vera skemmtileg svo það er best að hafa sem fæst orð um þennan leik. Chelsea er búið að spila alltof marga slaka leiki á þessu tímabili, þessi leikur gegn Newcastle slær þó líklega öllum við. Chelsea tókst að láta miðlungslið Newcastle líta út eins og meistaraefni. Ekki einn einasti leikmaður átti sæmilega góðan leik, allir leikmenn liðsins voru arfaslakir - engin barátta, engin vilji og engin dugnaður. Þeir leikmenn sem fengu sjaldgæf tækifæri í þessum leik (Emerson, Barkley ofl) gerðu sjálfum sér engan greiða er varðar sæti í byrjunarliði fyrir úrslitaleikinn. Þessi leikur var einfaldlega hreinasta hörmung.

Sagan

Bæði Chelsea og Manchester United hafa mikla sögu í FA bikarkeppninni. Man Utd hefur unnið hana næst oftast allra liða eða 12 sinnum og geta jafnað Arsenal á morgun sem trónir á toppnum með 13 bikartitla. Chelsea hefur unnið þessa dollu 7 sinnum geta jafnað Tottenham í þriðja sætinu sem hefur unnið keppnina 8 sinnum.

Chelsea og Man Utd hafa mæst tvisvar sinnum í úrslitaleik keppninnar. Fyrra skiptið var árið 1994, þá sigruðu Man Utd örugglega 4-0 en þá var Glenn Hoddle stjóri Chelsea. Chelsea vann aftur á móti dramatískan 1-0 sigur á Man Utd árið 2007, er Didier Drogba skoraði sigurmarkið í uppbótartíma - þarna var Jose Mourinho einmitt þjálfari Chelsea.

Andstæðingurinn

Það er skrítið andrúmsloft í kringum Manchester United um þessar mundir. Gary Neville orðaði það ágætlega að þetta tímabil gæti endað sem versta tímabil í sögu klúbbsins ef Liverpool vinnur Meistaradeildina og Chelsea sigrar í bikarnum. Því fyrir hafa Manchester City sigrað deildina á metstigafjölda og því allir erkifjendur Man Utd gera góð mót. Neville sagði að hann þyrfti að aftengja internetið hjá sér í heilt ár ef þetta yrði niðurstaðan.

Að öllu gamni slepptu að þá hefur Mourinho klárlega gert liðið betra og endaði Man Utd verðskuldað í 2. sæti ensku Úrvalsdeildarinnar. Hins vegar hefur spilamennska liðsins þótt afar döpur á tímabili og leikmenn eins og Pogba, Alexis, Martial ekki þótt standa undir væntingum þrátt fyrir mikla hæfileika. Það segir kannski ýmsilegt að besti leikmaður liðsins, enn eitt árið, er markvörðurinn David De Gea. Vonbrigðin að detta út úr Meistaradeildinni gegn ekki sterkara liði en Sevilla sitja líka í stuðningmönnum liðsins sem margir hverjir kalla eftir meiri gæðum í sóknarleik liðsins.

Mourinho, sem við stuðningsmenn Chelsea þekkjum auðvitað fram og aftur, virkar ekki alltof sáttur með lífið í Manchester - hann hefur gefið furðuleg viðtöl, gagnrýnt leikmenn og talað um "football heritage" í frægðu viðtali þar sem hann var að bera saman leikmannahópa Man Utd og Man City.

Enskir fjölmiðar eru uppfullir af fréttum þess efnis að Romelu Lukaku verði metinn á leikdegi en hann hefur verið meiddur undanfarnar vikur, flestir gera þó fastlega ráð fyrir að hann byrji leikinn. Liðið gæti því mögulega litið svona út:


Móri hefur nánast alltaf látið Ander "hinn hundleiðinlega" Herrera spila sem yfirfrakka á Hazard og megum við búast við svipaðri leikaðferð á morgun. Matic mun gera það sem hann gerir best, verja svæðið fyrir framan vörnina og Pogba á að teikna upp spilið þeirra. Flestir gera svo ráð fyrir að Lingard byrji leikinn en hann hefur lagt það í vana sinn að skora reglulega á Wembley og gegn Chelsea.

Þetta er hörkulið sem leikmenn innanborðs sem geta breytt leikjum upp á sitt einsdæmi. Þeirra sterkasti leikmaður í þessum leik er samt klárlega Jose Mourinho, hann kann þessa leiki upp á hár. Tölfræðin hans í úrslitaleikjum er lygileg - hann hefur spilað 14 úrslitaleiki og unnið 12. Einn leikur tapaðist með Porto og hinn með Real Madrid. Móri mun vera í sínum stórleikjaham sem þýðir að vörnin mun liggja aftarlega, bakverðirnir munu ekki fara hátt upp völlinn og Matic mun ekki hætta sér inn á síðasta þriðjung Chelsea nema í föstum leikatriðum - Móri notar bæði belti og axlabönd í svona leikjum og það svínvirkar.

Chelsea

Ég ætla að spá byrjunarliði Chelsea svona:


Þetta er frekar hefðbundið lið m.v. síðustu vikur og ekkert sem kemur á óvart. Það eru alveg líkur á því að Chelsea spili 3-5-2 og þá myndi Bakayoko koma inn í liðið á kostnað Willian. Chelsea spilaði einmitt 3-5-2 í sigurleiknum gegn Man Utd á Stamford Bridge í október - í þeim leik voru Baka og Kante bestu menn liðsins og liðið spilaði mjög þéttan og flottan fótbolta. Ég held samt að Conte haldi í 3-4-3 kerfið og reyni að nota hraða Willian og Hazard til að sækja hratt á varnarlínu Man Utd.

Það er smá umræða um hvort Conte muni halda Willy Caballero í markinu, en hann hefur spilað alla bikarleikina til þessa, mér finnst það galin pæling og vona að Conte taki þessa ákvörðun með heilanum - ekki hjartanu. Svo geri ég fastlega ráð fyrir að Giroud byrji á kostnað Morata, Frakkinn stæðilegi hefur verið mjög heitur í þessari keppni í gegnum tíðina og spilað mjög vel fyrir Chelsea frá því hann kom í janúar.

Hvað þarf Chelsea að gera til að vinna leikinn?

Til að byrja með þurfa okkar menn að mæta til leiks með smá baráttu, hana var ekki að finna gegn Newcastle. En taktískt séð verður þessi leikur væntanlega mikil stöðubarátta. Eins og ég sagði hér að ofan geri ég ráð fyrir að Móri nálgist leikinn af varkárni, það mun Conte líka gera.

Okkar menn eru brothættir og því er mikilvægt að byrja leikinn með þéttri spilamennsku og byggja upp sjálfstraust eftir því sem líður á leikinn. Þó Man Utd sé mjög gott lið eru þeir langt frá því að vera eitthvað ósigrandi, ég vil sjá Chelsea spila stutt úr vörninni og vinna boltann í uppspili í lappirnar á Giroud. Það eru fáir betri í deildinni með boltann í löppunum og mann í bakinu, þannig getur Giroud komið Hazard, Willian og Fabregas á boltann framarlega á vellinum. Einnig er mikilvægt að báðir vængbakverðir okkar ýti fram völlinn þegar við sækjum og reynum þannig að tvöfalda á vængjunum með Hazard og Willian. Chelsea getur vel spilað þannig leik upp á tíu og skaðað allar bestu varnir heimsins. Chelsea verður að þora að spila sig í gegnum fyrstu pressu Man Utd og þora að halda vel í boltann þegar færi gefst.

Varnarlega tel ég bestu nálgunina að liggja aðeins til baka og beita pressu á boltann við miðlínu - sóknarleikur Móra er oft mjög stirrður þegar hann þarf að vinna sig í gegnum mikinn pakka og eigum við ekki að vera feimnir við að reyna lokka þá eins framarlega og við getum. Þannig skoraði Chelsea einmitt markið í tapleiknum á Old Trafford í febrúar, Chelsea vann boltann framarlega á sínum vallarhelmingi sem endaði með marki eftir skyndisókn.

Spá

Ég er ekkert voðalega bjartsýnn. Það er neikvæðni sem umlykur Cheslea liðið, flestir leikmenn liðsins virðast vera búnir að átta sig á því að Antonio Conte verður líklega ekki stjóri liðsins á næsta tímabili og því ákveðið andleysi í hópnum. Hinum megin er Man Utd auðvitað að keppast við að "bjarga" tímabilinu með titli og geta þannig horft á þetta tímabil sem fínustu þróun. Mourinho kann að vinna þessa leiki og er ég ansi hræddur um að okkar menn muni ekki höndla pressuna þegar á reynir - þannig hefur það alla vega verið á þessu tímabili.

Það getur samt allt gerst í þessum úrslitaleikjum!

KTBFFH


bottom of page