top of page
Search

Lundúnaslagur á Brúnni


Chelsea mætir nágrönnum sínum í Crystal Palace í síðdegisleik á morgun laugardag kl. 17.30.

Síðasti leikur:

Ég skrifaði í síðasta pistli að nóttin væri alltaf dimmust rétt fyrir dögun, ef Chelsea vinnur leikinn gegn Crystal Palace voru það svo sannarlega orð að sönnu. Leikurinn gegn Man City var ekki sæmandi ríkandi meisturum og ekki sæmandi liði Chelsea.

Uppleggið í leiknum var eflaust svipað og gegn Barca, þ.e. að setja af stað svæðispressu á ákveðna leikmenn Man City þegar þeir voru með boltann aftarlega á sínum vallarhelmingi (alveg eins og gegn Barca). Þetta plan fór eins harkalega í vaskinn og hugsast getur þegar fréttir bárust af N'Golo Kanté og hans veikindum. Með Drinkwater og Fabregas höfðum við engan veginn harða, kraft né orku til þess að setja Man City undir einhverja alvöru pressu. Þarna kristallast í raun þessi þunnskipaði hópur Chelsea - okkur bráðvantar annan miðjumann.

Pep Guardiola er sniðugur. Hann sá upplegg Chelsea og tók þá ákvörðun um að taka akkurat enga sénsa og vera þolinmóður. Að lokum datt markið inn og þeir eyddu heilum hálfleik í að gefa stuttar sendingar milli Gundogan og miðvarðanna.

Það að Conte sé ekki reiðubúinn í að taka meiri áhættu, sér í lagi með bæði Morata og Giroud á bekknum, er stórkostleg vonbrigði. Höfum í hugað Man City hefur bara tapað einum leik í deildinni. Sá leikur var gegn Liverpool þar sem Klopp réðst að fullum þunga á Pep og uppskar 4-3 sigur. Hvers vegna ekki að reyna það alla vega sama "back-up plan"?

Að lokum, menn eru að jafnan að tala um að Hazard hafi verið að spila sem "Fölsk-Nía" í þessum leik. Það er fjarri lagi. "False-nine" felst í því að framherjinn detti niður á miðjuna og spili í raun sem miðjumaður og opni þannig fyrir svæði þar sem vængmenn og aðrir miðjumenn geta hlaupið í og nétt sér. Hazard gerði nákvæmlega ekkert af þessu. Hazard var látinn spila eins og Didier Drogba, þ.e. látinn berjast um skallabolta við Otamendi og Laporte - galin leikaðferð.

Eins mikla virðingu og ég ber fyrir Conte að þá gjörsamlega skítféll hann á þessu prófi gegn City.

Andstæðingurinn:

Við eigum að sjálfsögðu harma að hefna gegn Palace sem vann okkur í fyrri leiknum í oktober þar sem Roy Hodgson var nýtekinn við liðinu og Palace menn hvorki unnið leik né skorað mark. Þar var Wilfried Zaha að spila sinn fyrsta leik eftir langvarandi meiðsli og skoraði að sjálfsögðu sigurmarkið í 2-1 sigri. Markið kom á 45. mínútu og þrátt fyrir þunga sókn í seinni hálfleik tókst okkur ekki að jafna. Zaha er hins vegar tæpur fyrir leikinn á morgun eftir að hafa misst af síðustu leikjum vegna meiðsla. Að auki er fjöldi leikmanna Palace á meiðslalistanum, eins og Dann, Puncheon, Wickham og báðir Sako-arnir, auk þess sem Cabaye og Ward eru tæpir ásamt áðurnefndum Zaha. Þá er okkar maður Loftus Cheek bæði meiddur og ólöglegur.

Palace hefur tapað þremur síðustu leikjum sínum en spiluðu mjög vel í tveim þeim síðustu þrátt fyrir naum töp gegn Tottenham 0-1 og Man. Utd. 2-3 þar sem okkar gamli Matic skoraði sigurmarkið í uppbótartíma.

Palace menn eru því sýnd veiði en ekki gefin og hafa meira að segja unnið 3 af síðustu 5 leikjum gegn okkar mönnum. Crystal Palace eru hálfgert kryptónít í augum okkar.

Chelsea:

En að okkar mönnum. David Luiz, Ross Barkley og Ethan Ampadu eru meiddir og spila ekki. Kante og Bakayoko æfðu hins vegar í vikunni og verða víst í hóp, Kante eftir veikindi og sá síðarnefndi eftir einhvers konar dularfull "meiðsli".

Það er erfitt að lesa í það hvað Conte gerir varðandi liðsuppstillingu eftir frammistöðuna gegn City. Margur þjálfarinn myndi nú hrissta eitthvað upp í liðinu og breyta til, sérstaklega þar sem leikur gegn Barcelona bíður okkar á miðvikudag. Það er hins vegar ljóst að liðið má hreinlega ekki tapa fleiri stigum á tímabilinu ef við æltum að ná þessu fjórða sæti, en við erum nú þegar 5 stigum á eftir Tottenham. Því er ekki ólíklegt að liðið verði svipað og verið hefur, en ég tel líklegt að Cahill og annað hvort Morata eða Giroud komi inn í liðið og vonandi Kante.


Þetta er leikur sem verður að vinnast en verður ekki auðveldur enda er fátt auðvelt hjá okkar mönnum þessa dagana. Sannfærandi sigur myndi hins vegar auka sjálfstraust liðsins eitthvað fyrir miðvikudag, ekki veitir af.

Ef Chelsea ætlar sér að komast í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili þurfum við mögulega að vinna alla þá leiki sem eftir eru í deildinni, fyrsti úrslitaleikurinn byrjar því á morgun - Upp með sokkana.

KTBFFH


bottom of page