top of page
Search

Leikmannagluggi og frammistöðumat


Í stað þess að taka hefðbundna upphitun fyrir leik Chelsea og Arsenal í deildarbikarnum í kvöld ætla ég rita nokkur orð um hvernig tímabilið hefur verið hingað til, hverjir hafa verið okkar bestu menn og hverjir hafa valdið vonbrigðum. Svo ætla ég að fara yfir félagaskiptagluggann, hvað okkar mönnum vantar og hverjir mega fara.

Mat á leik liðsins hingað til:

Ef við spólum til baka og rifjum upp leik Chelsea og Burnley í fyrstu umferð ensku Úrvalsdeildarinnar. Þeim leik tapaði Chelsea 2-3, missti tvo menn af velli og liðið virkaði agalaust. Vikuna áður höfðum við tapað gegn Arsenal í vítaspyrnukeppni um Samfélagsskjöldinn og Antonio Conte virkaði verulega pirraður á stöðu mála, sérstaklega hvað varðaði leikmannagluggann. Ég man að minn fyrsti pistill hér á þessa síðu bar nafnið „Óveðurský yfir Stamford Bridge?“. Það var ekki mikill „feel-good-factor“ yfir klúbbnum í heild sinni þrátt fyrir að Conte og hans menn höfðu landað sjálfum Englandsmeistaratitlinum nokkrum mánuðum áður. Þetta minnti alltof mikið á sumarið 2015 þegar Mourinho missti öll tök á hópnum eftir að hafa gert liðið að meisturum nokkrum mánuðum áður.

Þessar áhyggjur breyttust sem betur fer ekki í neinn raunveruleika. Chelsea rétti vel úr kútnum eftir Burnley leikinn og unnu flottan sigur á Spurs á útivelli og í framhaldinu fór liðið á flott skrið. Það er hins vegar furðuleg staðreynd að Chelsea virðist eiga í mesta basli með að vinna lið sem eru í og við botnsætin, þetta sanna töpin gegn Crystal Palace og West Ham. Þessi töp vega þungt því Chelsea er ekki með neinn frábæran árangur gegn hinum topp liðunum, þar töpuðum við sannfærandi gegn Man City á heimavelli og hefur ekki tekist að vinna Arsenal í hvorugum leiknum. Það sem af er vetri er Chelsea með tvo sigra úr sex leikjum gegn hinum toppliðunum þegar þetta er skrifað.

Chelsea hefur líka átt nokkra mjög góða leiki m.a. þar sem liðið vann Atl Madrid á útivelli og sigurinn gegn Man Utd á Stamford Bridge – í þessum leikjum virkaði liðið eins og það gæti unnið öll lið.

Heilt yfir er spilamennska liðsins fín, sérstaklega varnarlega þar sem liðið virkar mjög þétt. Okkar menn hafa verið í meiri vandræðum á hinum enda vallarins, að skora mörk. Upp á síðkastið höfum við séð Chelsea vera í vandræðum með að brjóta niður þéttar varnir og fara afleitlega með góð færi eins og við munum eftir gegn Arsenal. Vissulega söknum við Diego Costa sem einhvernveginn gat troðið boltanum í markið úr svokölluðu hálf-færi og þannig tryggt stigin þrjú. Alvaro Morata hefur að mínu viti staðið sig heilt yfir ágætlega en hefur ekki verið að nýta þessi „sigurmarks“tækifæri sín nægilega vel – það munar um minna.

Bestu menn það sem af er vetri

Ég ætla að velja fimm manna lista þar sem ég útskýri svo valið á hverjum og einum stuttlega. Valið er ekki í neinni sérstakri röð.

N‘Golo Kanté

Miðjan hjá Chelsea án Kante er einfaldlega einum klassa slakari en þegar liðið er með hann innanborðs. Hann er einn af þremur leikmönnum liðsins sem er algerlega ómissandi úr byrjunarliðinu. Það er líka gaman að sjá hvað Kante er búinn að bæta sig sóknarlega, bæði er fyrsta snertingin orðin betri sem og að hann er farinn að bera boltann meira upp völlinn. Stórkostlegur leikmaður.

Cesar Azpilicueta

„Dave“ eins og John Terry kallaði hann alltaf er okkar stöðugasti leikmaður. Spilar eiginlega aldrei illa og hefur núna bætt stoðsendingum við leik sinn. Hann er fullkominn leikmaður sem miðvörður í þessa þriggja miðvarða línu og er líkega besti varnarmaður heims í 1 vs 1 stöðu. Framtíðar fyrirliði Chelsea.

Andreas Christensen

Danski prinsinn eins og hann er kallaður á Stamford Bridge hefur heldur betur stimplað sig inn. Það fer ekki mikið fyrir honum á vellinum og hann sést sjaldan henda sér í tæklingar fram og til baka. Ástæðan er einföld, hann þarf þess ekki. Hann les leikinn það vel að hann hefur boltann alltaf fyrir framan sig lendir örsjaldan í því að elta sóknarmanninn. Það má segja að Christensen sé arfleið Emenalo hjá Chelsea, því hann fór í gegnum lánakerfið okkar og er núna orðinn fastamaður í vörn liðsins og skrifaði nýverið undir tæplega fimm ára samning við liðið.

Thibaut Courtois

Eitt af því mikilvægasta hjá Chelsea þessa dagana er fá Courtois og Hazard til þess að krota undir nýja samninga. Að mínu viti hefur Thibaut verið okkar jafnbesti maður í vetur. Í fljótu bragði man ég ekki eftir afdrífaríkum mistökum frá honum. Hann hefur bætt sig mikið í að spila boltanum stutt og er að einn af þremur bestu markvörðum heims. Við erum mjög vel settir með Thibaut í markinu.

Marcos Alonso

Það var mikið rætt um það á Twitter eftir Arsenal leikinn í síðustu viku að setja Alonso hreinlega í framherjann, því hann væri besti „slúttarinn“ í liðinu. Auðvitað var þetta meiri í gríni sagt en alvöru en það er hins vegar heilmikið til í þessu, Alonso er frábær í því að klára færin sín. Alosno er kominn með 6 mörk í deildinni, það er jafnmikið og Hazard og næstum jafn mikið og Pedro og Willian hafa skorað til samans. Alonso er ekki fullkominn varnarlega en hann hefur eitraðan vinstri fót og stendur alltaf fyrir sínu. Hann er líka nánast einn í sinni stöðu og fær því mjög litla hvíld.

Þeir sem eiga meira inni / hafa valdið vonbrigðum

Hér er ég að meta þá leikmenn sem að mínu viti eiga að skila meira til liðsins miðað við getu. Það þýðir ekki endilega að þeir hafi verið lélegir, heldur meira að þeir geti gert betur.

Eden Hazard

Eflaust margir mjög ósammála mér. Ég rökstyð þetta þó þannig að Hazard er það góður leikmaður að hann á að vera yfirburðamaður í þessar deild. Hann hefur ekki verið eins afgerandi og hann var í fyrra og það sést best á tölfræðinni hans. Hazard hefur bara skorað 6 mörk í 18 leikjum í deildinn og gefið 4 stoðsendingar. Heilt yfir hefur hann skorað 9 mörk í 26 leikjum í öllum keppnum. Hazard á að skora meira, sérstaklega eftir að hann spilar meira sem fljótandi framherji í 3-5-2 kerfinu. Hann hefur að einhverju leiti verið óheppinn, kom meiddur inn í mótið osfrv. Ég vil líta á það sem styrkleika að Chelsea eigi bestu leiki Eden Hazard inni fyrir síðari part tímabilsins.

David Luiz

Luiz var alger lykilmaður hjá okkar mönnum á síðasta tímabili en hefur verið svipur hjá sjón á þessu tímabili. Hefur í raun misst stöðu sína í liðinu til Christensen og þarf heldur betur að hafa fyrir því að ná henni aftur. Það var er líka hávær orðrómur um að honum og Conte hafi lent illa saman og að þeir ræðist varla við þessa dagana. Hann var alla vega í byrjunarliðinu gegn Norwich í síðasta leik og virkaði mjög ryðgaður. Luiz er engu að síður mikilvægur í klefanum og er kárlega einn af okkar bestu varnarmönnum þegar hann er með hausinn rétt skrúfaðan á.

Timoue Bakayoko

Miklar vonir voru bundnar við Bakayoko er hann kom til liðsins í sumar. Hann átti að leysa Matic af hólmi og var almennt mikil bjartsýni með að hann gæti gert það. Fyrir mér byrjaði Bakayoko ágætlega og hefur klárlega átt sína spretti. Hins vegar hafa frammistöður hans verið mjög daprar upp á síðkastið og sjálfstraustið virðist í molum. Ég er hins vegar sannfærður um að Bakayoko muni reynast okkur ágætlega, mögulega fer þetta tímabil í aðlagast breyttri deild og nýjum kúltúr og að við munum sjá hans bestu hliðar á næstu leiktíð. Það er hins vegar ekki nóg hjá klúbbi eins og Chelsea, því er hann á þessum lista.

Victor Moses

Moses var Þyrnirósarsaga síðasta tímabils. Leikmaður sem margir voru búnir að afskrifa, fékk traustið hjá Conte og spilaði lykilhlutverk í velgengni liðsins. Mögulega eru einhverjir ósammála mér en ég tel að Moses eiga meira inni og ekki náð að byggja ofan á frábært tímabil í fyrra. Hann er reglulega að lenda í vandræðum varnarlega og er ekki að skila nægilega miklu hinum megin á vellinum heldur, hversu marga tapaða bolta átti hann í leikjunum gegn Everton og Arsenal núna um daginn? Hann er eftir sem áður betri leikmaður en Zappacosta að mínu viti, hann þarf að stíga upp.

Janúarglugginn

Chelsea er þegar búið að kaupa einn leikmann í janúar, Ross Barkley og voru það fínustu kaup upp á breiddina. Það er hins vegar staðreynd að Chelsea er búið að vera of upptekið að því að kaupa leikmenn sem almennt munu verða varamenn eða alla vega ekki bæta byrjunarlið liðsins. Drinkwater, Zappacosta og Rudiger hafa ekki náð að setja neina alvöru pressu á þá sem fyrir voru í þeirra stöðum. Bakayoko og Morata voru keyptir inn sem byrjunarliðsmenn til að leysa af hólmi Matic og Diego Costa – hefur þeim tekist að fylla það skarð? Í tilfelli Bakayoko er svarið einfaldlega nei. Ef Diego Costa væri enn liðsmaður Chelsea væru hann og Morata í mjög harðri baráttu um byrjunarliðssætið og mögulega heði Conte fundið leið til að láta þá spila saman frammi. Þess í stað er Chelsea með Batshuayi sem varaframherja, leikmaður sem Conte augljóslega treystir ekki.

Að mínu viti þarf Chelsea að fá annan framherja og vængbakvörð inn í liðið, skoðum hvað er í boði:

Vinstri vængbakvörður: Hér er sagan endalausu um Alex Sandro nefnd til sögunnar. Það bárust jákvæðar fréttir af þessu máli í desember þegar sagt var frá því að leikmaðurinn sjálfur vildi fara til Chelsea. Það sem virðist hins vegar stoppa málið er sú upphæð sem Juventus biður um fyrir leikmanninn. Leikmaður að nafni Alex Telles hefur líka verið nefndur, sá er Brassi sem spilar fyrir Porto.

Framherji: Einhverra hluta vegna er hávær orðrómur um að Conte vilji lána Batshuayi burt frá félaginu og fá inn Andy Carroll í staðinn (!). Ég segi bara guð hjálpi okkur öllum ef slíkt gerist. Christan Benteke hefur líka verið nefndur til sögunnar auk Jamie Vardy. Allt eru þetta leikmenn sem myndu ekki ná að slá Alvaro Morata við, hvers vegna ekki að reyna við leikmann eins og Belotti? Hann gæti veitt Morata alvöru samkeppni og jafnvel myndað eitrað framherjapar með honum.

Annar leikmaður sem Chelsea ætti svo að skoða væri Riyad Mahrez. Hann er einn af bestu leikmönnum deildarinnar að mínu viti og myndi mögulega blómstra í ennþá betra liði. Lið sem væri með hann og Hazard innanborðs gæti skaðað allar varnir. Hann er líka falur fyrir rétt verð og er upgrade á bæði Pedro og Willian.

Er Chelsea hætt að vera alvöru afl á leikmannamarkaðinum?

Hér áður fyrr, fljótlega erftir að Roman Abramovich keypti Chelsea, var liðið það allra sterkasta á leikmannamarkaðinum. Ef eitthvað stórt nafn hugsaði sér til hreyfings var Chelsea umsvifalaust nefnt til sögunar sem mögulegur áfangastaður. Á þessum árum keyptum við leikmenn á borð Shevchenko, Crespo, Essien, Hazard, Ballack og Torres. Í mörgum af þessum kaupum höfðum við betur gegn liðum eins og Man Utd, Bayern og jafnvel Real Madrid og Barcelona.

Juventus vill fá 60 milljónir punda fyrir Alex Sandro og er Chelsea ekki reiðubúið til að borga svo mikið. Sömu sögu er að segja að Virgil van Dijk, Conte staðfesti á blaðamannafundi að Chelsea hafði áhuga á honum en voru ekki tilbúnir að borga uppsett verð, verðið sem Liverpool að lokum greiddi fyrir leikmanninn. Miðað við það verð sem er í gangi á leikmönnum núna þá er Alex Sandro 60 milljón punda virði, það er einfaldlega markaðlögmál. Ef Chelsea ætlar ekki að spila með og kaupa elítu leikmenn á yfirsprungnu verði er ég hræddur um klúbburinn muni dragast aftur úr liðum eins og Man City, Man Utd, Barcelona, PSG og Real Madrid.

Margir spyrja sig hvers vegna þetta hafi gerst. Klúbburinn sjálfur talar um mikilvægi FFP (Financial Fair Play) sem segir til um að liðin megi ekki eyða fjármunum umfram þeirra tekna sem þeir afla og reksturinn verði að vera sjálfbær. Bæði Man City og PSG hafa komist framhjá þessum reglum með klækjabrögðum og Chelsea gæti það líka ef þeir vildu. Man City hefur svo líka bara tekið þessum afleiðingum og greitt sektir til FIFA vegna þessa. Þetta hefur orðið til þess að Chelsea selur alltaf leikmann áður en það kaupir (einn inn, einn út regla). Þetta er gríðarlega áhættusamt til lengri tíma litið því eins og við sjáum með Bakayoko kaupunum að þá er hann einnfaldlega ekki eins góður og Matic, alla vega ekki ennþá. Þá veikist hópurinn sjálfkrafa, við sáum þetta líka þegar Chelsea seldi Andre Schurrle og keypti Juan Cuadrado í staðinn.

Fyrir þá sem vilja fræðast meira um þessi mál bendi ég á grein sem Joe Tweeds skrifaði á heimasíðu sína um þessi mál – skyldulesning að mínu mati: http://plainsofalmeria.co.uk/2018/01/08/the-roman-era-2-0-concept-football/

Draumurinn væri að Chelsea myndi loka þessum janúarglugga með því að kaupa Alex Sandro, Riyad Mahrez og Andrea Belotti, þá fyrst gæti maður gert þá kröfu að liðið ætti að vinna lið eins og Man City, Barcelona og FC Bayern. Höfum líka í huga að þetta eru allt leikmenn sem hægt er að kaupa og það strax. Blákaldur raunveruleikinn mun hins vegar vera sá að við gætum setið uppi með Andy Carroll og bakvörð frá Porto sem er algerlega óskrifað blað í efstu þrepum knattspyrnuheimsins.

Ég spái okkar mönnum sigri gegn Arsenal í kvöld, vonandi skorar Hazard og treður sokk upp í mig það sem eftir lifir af tímabilinu fyrir að setja hann í vonbrigðaflokkinn. =)

KTBFFH


bottom of page