Núna er jólavertíðin komin á fulla ferð í enska boltanum, næsti leikur Chelsea er gegn liði Southampton sem máttu þola slæmt tap í miðri viku gegn Leicester City. Okkar menn gerðu hins vegar frábæra ferð til Huddersfield og unnu sannfærandi 1-3 sigur á erfiðum heimavelli.
Leikurinn gegn Huddersfield var að mínu viti einn sá besti á þessu tímabili, sérstaklega hvað sóknarleikinn varðar. Chelsea voru mjög hreyfanlegir, spiluðu boltanum hratt á milli sín og ógnuðu sífellt úr mörgum ólíkum stöðum - eitthvað sem hefur skort upp á síðkastið. Þetta var hið fullkomna svar eftir hörmungarnar gegn West Ham. Tölfræðin lýgur ekki og var þetta sá leikur sem Chelsea hefur átt flestar sendingar innan liðsins eða 803 talsins, langflestar á vallarhelmingi andstæðingsins.
Conte ákvað að stilla Hazard upp sem fremsta manni með Willian og Pedro sér við hlið. Það er nokkuð merkileg tölfræði að Chelsea hefur unnið alla þá fjóra leiki sem þeir hafa spilað með þessa þrjá menn í fremstu víglínu.
Bakayoko ákvað svo að láta til sín taka og sýndi sínar réttu hliðar í þessum leik. Ég hef aðeins verið að verja Bakayoko í þessum skrifum mínum og var þessi frammistaða því kærkomin - vonandi fjölgar aðeins farþegunum á Bakayoko vagninum, sá vagn var við það að breytast í reiðhjól =)
Southampton:
Suðurstrandarliðið er búið að vera nokkuð undir væntingum það sem af er vetri. Þeir létu reynsluboltann Claude Puel fara eftir síðasta vetur og réðu inn hinn argentínska Mauricio Pellegrino, gamlan leikmann Liverpool og Valencia. Margir horfðu spennandi á Pelligrino fyrir tímabilið, með honum átti að endurvekja þann sóknarfótbolta sem samlandi hans Pocchettino lét liðið spila nokkrum árum áður. Liðið sýndi líka aukinn metnað í að halda sínum sterkustu leikmönnum í síðasta leikmannaglugga og harðneituðu til að mynda að selja Virgil van Dijk til Liverpool. Gengið hefur hins vegar verið upp og ofan. Liðið er í 11. sæti deildarinnar en það er einungis 4 stigum fyrir ofan fallsæti og hafa bara skorað 17 mörk í 17 leikjum, og það þrátt fyrir að vera mjög frambærilega fótboltamenn fram á við eins og Gabbiadini, Austin, Tadic og Redmond. Þeir hafa ýmist verið að glíma við meiðsli eða hreinlega leika undir getu.
Southampton fékk harða gagnrýni frá sínum eigin stuðningsmönnum eftir síðasta leik sem þeir töpuðu illa gegn Leicester 4-1 á heimavelli. Staðan í hálfleik var 3-0. Þeir munu því líkilega mæta dýrvitlausir í þennan leik og munu líklega verja markið sitt betur.
Chelsea Antonio Conte staðfesti á blaðamannafundi sínum fyrir leikinn að Alvaro Morata væri heill heilsu og kæmi til greina í byrjunarliðið gegn Southampton. Það býr til ákveðinn höfuðverk fyrir Conte því liðið var að leika mjög vel gegn Huddersfield. Einnig svínvirkaði 3-4-3 kerfið í þeim leik en Conte hafði verið að nota 3-5-2 mun meira undanfarna tvo mánuði. Það er mitt mat að Chelsea á að spila 3-4-3 gegn liðum sem liggja aftarlega og veita okkur ekki of mikla mótspyrnu á miðjunni. Southampton er ekki beint lið sem vill liggja alveg aftast eins og West Ham, Swansea og Huddersfield en þeir munu líklega koma mjög varfærnislega inn í leikinn eftir tapið gegn Leicester. Ég vil sjá Conte halda tryggð við 3-4-3 og keyra að fullum krafti á Southampton.
Ég spái því liði Chelsea svona:
Það er ansi hart að taka Pedro úr liðinu en mér finnst ólíklegt að Conte láti ekki Morata byrja ef hann er klár í slaginn. Willian átti stórleik gegn Huddersfield og heldur því vonandi sæti sínu. Mögulega gæti Conte byrjað með 3-5-2 og þá værum við að sjá Fabregas og Kanté á miðjunni með annað hvort Bakayoko eða Drinkwater. Svo er möguleiki á að Zappacosta komi inn á kostnað Moses eða Alonso. "Captain Cahill" kemur svo líklega aftur inn í liðið fyrir Rudiger.
Við þurfum að sjá sama kraft, sömu ákefð og sama hreyfanleika og í síðasta leik. Það er lykilatriði að byrja leikina almennilega og skora fyrst. Chelsea hafa verið alltof duglegir við að koma sér í slæmar stöður á fyrstu 20 mínútum leikja. Ég er nokkuð bjartsýnn - spái 2-1 sigri.
KTBFFH KTBFFH