top of page
Search

Upphitun: Atletico Madrid á Brúnni


Lokaleikur okkar manna í riðlakeppni meistardeildarinnar fer fram á Brúnni í kvöld þegar Atletico Madrid kemur í heimsókn.

Chelsea er þegar búið að tryggja sig inn í 16 liða úrslitin fyrir þennan leik en það er nokkuð ljóst að ef við ætlum okkur að sigra riðilinn kemur sennilega ekkert annað en sigur til greina.

Ef sigur vinnst ekki fer Roma sennilega upp fyrir okkur, fer þá í 11 stig en þeir leika á sama tíma við Qarabag sem reyndust nú Madridarmönnum býsna erfiðir með því að ná jafntefli í báðum leikjunum.

Madridarmenn eru búnir að tryggja sér 3. sætið en með sigri gætu þeir náð 2. sætinu af Roma ef þeir vinna ekki sinn leik í Róm í kvöld. Það er því að miklu að keppa fyrir bæði lið. Ef annað sætið verður hlutskipti okkar liggur fyrir að við getum einungis mætt Barcelona, PSG eða Besiktas í 16 liða úrslitunum en ef við vinnum riðilinn getum við mætt alls sjö liðum, miserfiðum samt.

Ég spái byrjunarliði okkar manna svona:


Eftir góðan leik gegn Newastle á laugadag eru samt líkur á að Conte geri einhverjar breytingar á liðinu. Ekki er ólíklegt að Cahill, Willian, Bakayoko og Pedro komi inn, en við eigum síðan erfiðan útileik gegn West Ham í hádeginu á laugardag sem verður að vinnast. David Luiz og Kenedy eru ennþá meiddir svo ólíklegt er að Alonso fái langþráða hvíld. Líklega kemur Zappacosta inn fyrir Moses sem þar sem hann má ekki við miklu álagi um þessar mundir, nýstiginn upp úr meiðslum. Það var býsna athyglisverð breyting sem Conte gerði í leiknum gegn Newcastl er hann tók Christensen, sem þá var að leika skínandi leik, út af og setti Cahill í hjartað á vörninni. Var Conte að gefa Cahill smá nasaþef af þessari stöðu til að nota hann þar í kvöld? Ég ætla samt að veðja á að Daninn byrji leikinn.

Stóra spurningin er svo hvort Conte muni hvíla Hazard. Ég ætla að halda því fram að svo verði, og að hann og Morata muni skipta þessum leik eitthvað á milli sín. Það er líka möguleiki að Barshuayi verði með frá byrjun en hann er kominn aftur eftir meiðsli.

Lið Atletico Madrid er geysi sterkt þó það hafi farið fremur hægt af stað í haust á nýjum heimavelli sínum. Liðið er sem stendur í 3.sæti spænsku La Liga deildarinnar með 30 stig eftir 14 leik, 6 stigum á eftir Barcelona og 2 stigum á undan Real Madrid. Varnarleikurinn er sem fyrr þeirra aðalsmerki, markatalan er 23-7. Samtals hefur liðið leikið 19 leiki í deild og meistardeild unnið, unnið 9 gert 9 jafntefli og einungis tapað einum leik, einmit meistardeildarleiknum gegn Chelsea í Madrid.

Liðið er því taplaust á útivelli í öllum keppnum. Þeir unnu lið Real Sociedad 2-1 um helgina með mörkum frá okkar gamla félaga, Filipe Luis og Frakkanum Antoine Griezmann.

Það er ljóst að hér verður um erfiðan leik að ræða gegn einu best skipulagða liði í Evrópu og ekki líkur á mörgum mörkum. Chelsea verður í raun að sýna sömu grimmd og þeir sýndu í fyrri leiknum, þar gáfum við Atletico engan tíma á boltann og virkilega sýndum úr hverju okkar menn eru gerðir.

Tek bjartsýna spá: 2-1 sigur.


bottom of page