Okkar menn eru vonandi með sjálfstraustið í botni eftir tvo 4-0 sigra í röð. Næsta verkefni er ærið, einn erfiðasti útivöllur deildarinnar - Liverpool á Anfield Road.
Antonio Conte reyndi að hvíla nokkra leikmenn í leiknum gegn Qarabag á miðvikudag. Bakayoko, Christensen, Cahill og Morata fóru allir úr byrjunarliðinu og leikmenn eins og Pedro, Luiz og Willian fengu kallið. Persónulega hefði ég viljað sjá Drinkwater byrja þennan leik á kostnað Fabregas en Conte var á öðru máli.
Leikurinn gegn Qarabag fór eins og bestu verður á kosið, þ.e. Chelsea tókst að komast í gegnum hann án þess að brenna of mikilli orku - við getum eflaust þakkað dómaranum fyrir þetta vafasama rauða spjald sem Qarabag fengu í upphafi leiks, því það var strangur dómur.
Niðurstaðan eftir þennan leik er að Chelsea eru komnir áfram í 16-liða úrslita Meistaradeildarinnar en það skýrist ekki fyrr en í lokaumferðinni hvort við náum toppsætinu eða ekki - líklega mun ekkert annað en sigur í lokaleiknum gegn Atl. Madrid duga til að tryggja 1. sætið.
Þeir gerast vart mikilvægari en leikurinn gegn Liverpool um helgina. Ef Chelsea fer með sigur af hólmi þá má segja að liðið sé komið á "run" líkt og við fórum á í fyrra. Þetta yrði þá fimmti sigurleikurinn í röð og leikjaplanið framundan nokkuð hagstætt. Ef þessi leikur tapast erum við hins vegar aftur komnir á sama stað og Liverpool, Spurs og Arsenal. Þessi leikur verður því að vinnast til að viðhalda pressunni á Man Utd og City, við viljum horfa upp töfluna, ekki niður.
Liverpool
Undanfarin 10-12 ár hafa Liverpool verið einn af okkar erkifjendum. Hápunkturinn á þeim slag var eflaust þegar Móri og Benítez elduðu saman grátt silfur eins og flestir muna. Liverpool hefur hins vegar ekki verið í neinni alvöru titlabaráttu undanfarin ár þó flestir séu sammála um að liðið sé í framför undir stjórn Jurgen Klopp.
Leikstíll Liverpool einkennist af hinni margrómuðu "gegenpressing" taktík sem Klopp vill láta lið sín spila. Í mjög stuttu máli snýst sá leikstíll út á að pressa andstæðinginn úr öllum áttum fyrstu 5-6 sekúndurnar eftir að boltinn tapast og reyna þannig að vinna boltann eins hratt og ofarlega á vellinum og hugsast getur. Hjá Dortmund tókst Klopp að búa til meistaralið hjá með þessum leikstíl auk þess sem liðið fór alla leið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar árið 2013.
Það hefur ekki gengið alveg eins vel hjá Liverpool og skrifast það fyrst og fremst á varnarleik liðsins. Gegenpressing felst í því að varnarlínan spilar mjög hátt uppi á vellinum og er því liðið mjög viðkvæmt fyrir skyndisóknum. Þar að auki eru flestir sammála um að leikmenn eins og Klavan, Lovren, Moreno og jafnvel Matip séu ekki í nægilega háum gæðaflokki - þeim vantar leiðtoga í vörnina. Klopp reyndi látlaust að kaupa Vigil van Dijk sl. sumar en félagið þurfti að lokum að biðjast afsökunar á því að hafa rætt við hann ólöglega.
Liverpool er í 5. sæti fyrir þennan leik og með sigri jafna þeir okkar menn að stigum. Það er því til mikils að vinna fyrir þá. Klopp hefur mjög gott sigurhlutfall úr leikjum gegn öðrum toppliðum svo það verður við ramman reip að draga.
Eins slök og vörn Liverpool getur verið er sóknarleikur þeirra frábær. Hún er knúin áfram af kvartetnum Mane, Salah, Firmino og Coutinho - ekki amalegt það. Þeir verða allir heilir og klárir í slaginn gegn Chelsea svo það er eins gott að okkar varnarskipulag verði upp á tíu í þessum leik.
Þeirra besti maður á þessu tímabili er okkar gamli vinur, Mo Salah. Það hefur komið mér gríðarlega á óvart hversu öflugur Salah hefur verið og hversu miklum framförum hann tók hjá Roma því hann var ansi langt frá þeirri getu sem hann er að sýna núna er hann var á mála hjá Chelsea fyrir nokkrum árum. Að vísu fékk hann mjög fá tækifæri hjá Móra á sínum tíma. Salah mun eflaust ekki leiðast að skora á móti okkar mönnum. Síðasti leikur Liverpool gegn Sevilla í Meistaradeildinni lýsir liðinu hvað best. Komast í 3-0 forystu í fyrri hálfleiki en glata svo niður forskotinu í síðari hálfleiknum. M.ö.o. eini stöðugleikinn í þessu Liverpool liði er óstöðugleikinn milli varnar og sóknar.
Chelsea
Ég ætla að spá byrjunarliði Chelsea svona:
Conte er ekki þekktur fyrir að breyta miklu þegar liðið er að spila vel, að þeim sökum held ég að við munum sjá sama lið og sigraði bæði Man Utd og West Brom. Einverjir miðlar vilja meina að Moses gæti byrjað þennan leik en ég stórlega efast um það. Christensen mun halda áfram að stýra vörninni enda spilað nær óaðfinnanlega undanfarnar vikur. Mögulega gæti Conte tekið upp á því að spila með Dave í hægri væng-bakverði og notað þá Rudiger eða Luiz í vörnina en ég vona að það gerist ekki - Azpilicueta þarf að líma sig á Mo Salah.
Lykillinn að sigri í þessum leik er að þora að mæta á Anfield og sækja til sigurs. Liverpool er þannig að lið að þeim líður ekkert alltof vel í vörn og vilja sækja sem mest. Það mun mæða mikið á þeim Fabregas, Kante og Bakayoko að þora að spila boltanum í gegnum pressuna þeirra og þannig "brjóta" þessa fyrstu pressu á boltann, þegar það gerist eru Liverpool oft á tíðum mjög opnir. Í þannig leikstöðu þrífast leikmenn eins og Morata og Hazard. Við þurfum að ná upp þessum leikstöðum. Chelsea gerði þau mistök gegn Man City að falla alltof aftarlega og bjóða þannig hættunni heim - slíkt má ekki gerast í þessum leik.
Þetta verður flottur leikur milli tveggja góðra liða, vonandi tekst Conte teikna upp gott plan sem skilar okkur sigri.
KTBFFH