top of page
Search

Upphitun: Watford mætir á Stamford Bridge


Eftir tvö töp í röð í deildinni kemur Watford í heimsókn á Stamford Bridge. Þegar maður leit yfir leikjadagatalið í sumar átti maður ekki von á að þessi leikur myndi vera jafn mikilvægur og raun ber vitni - Chelsea verður að vinna þennan leik, svo einfalt er það.

Staðan á liðinu er ekki góð. Liðið hefur verið ósannfærandi í undanförnum leikjum. Mjög slæmt tap gegn Crystal Palace og svo jafntefli gegn Roma tala sínu máli, sér í lagi vegna þess að leikurinn gegn Roma var á löngum köflum mjög slakur og lyginni líkast að okkur hafi tekist að skora þrjú mörk í þeim leik.

Í þessum síðustu tveimur leikjum hefur liðið leikið án N'Golo Kanté og munar um minna. Í raun virðist leikur liðsins ekki höndla fjarveru Kanté. Bakayoko og Fabregas létu botnlið Crystal Palace hlaupa yfir sig sem varð til þess að Conte skipti yfir í 3-5-2 gegn Roma og hafði þá David Luiz á miðjunni. Roma leikurinn var ekki góður að hálfu Chelsea, jafnvel þó okkar menn hafi komist í 2-0, Roma var með öll völd á miðsvæðinu stóran hluta leiksins og lítil samhæfing í leik Chelsea.

Ég talaði um það í síðustu færslu hversu krefjandi 3-4-3 leikkerfið væri á þessa tvo leikmenn sem spila á miðri miðjunni og hversu vel N'Golo Kanté spilar þessa stöðu. Ég hef raunverulegar áhyggjur að Chelsea geti hreinlega ekki spilað þetta kerfi án Kanté því hlaupagetan hans og yfirferð er í raun ævintýraleg og ekki hægt að ætlast til þess að aðrir leikmenn fylli þetta skarð svo auðveldlega.

Kanté er þó ekki einu maðurinn sem er meiddur. Victor Moses er fjarri góðu gamni og Danny Drinkwater er ekki enn búinn að jafna sig sínum meiðslum, hann er þó byrjaður að æfa með aðalliðinu. Alvaro Morata spilaði 90 mín gegn Roma og virkaði þungur í þeim leik, enda nýkomin úr meiðslum. Ég ætla að spá byrjunarliði Chelsea svona í leiknum:


Stærsta spurningarmerkið er hvort Conte muni velja Pedro eða Willian á hægri vænginn. Persónulega vona ég Pedro fái frekar kallið. Ef Conte ákveður að halda tryggð við 3-5-2 mun Luiz fara inn á miðjuna á kostnað Willian / Pedro og Christensen inn í miðja vörnina. Svo er spurning hvort Rudiger spili á kostnað Cahill sem varð fyrir höggi á kjálka í leiknum gegn Roma.

Watford

Mótherjinn okkar að þessu sinni er spútníklið deildarinnar, Watford. Að mínu viti gerðu Watford ein bestu kaup sumarsins þegar þeir réðu Marco Silva sem þjálfara liðsins. Þeim kappa tókst að blása alvöru lífi í hörmulegt lið Hull City og bjargaði þeim næstum því frá falli. Það sem meira var, Hull spilaði fínasta fótbolta oft á tíðum undir hans stjórn.

Watford er í raun mjög óvenjulegt lið, sérstaklega á enskan mælikvarða. Liðið er í eigu hinnar ítölsku Pozzo fjölskyldu og eiga þeir einnig lið Udinese á Ítalíu. Gino Pozzo, eigandi liðsins, rekur liðið eins og ítalskt lið, þ.e. það eru mjög tíð þjálfaraskipti og töluverð leikmannavelta - eins og tíðkast á Ítalíu.

Ýmsir fjölmiðlar virðast vera sammála um að þetta verði byrjunarlið Watford á morgun:


Ég vil vekja sérstaka athygli á Richarlson, Brassanum í liði Watford. Sá kappi hefur komið sterkur inn í deildina og er með 3 mörk og 3 stoðsendingar í fyrstu 8 leikjunum.

Tölfræðin á bakvið lið Watford er nokkuð sérstök. Liðið er í 4.sæti með 15 stig, tveimur meira en Chelsea. Engu að síður er liðið með jafna markatölu, þ.e. 13 mörk skoruð og 13 mörk fengin á sig, þess ber þó að geta að Watford tapaði 6-0 gegn Man City fyrr í haust, sem útskýrir þennan mikla fjölda marka sem þeir hafa fengið á sig.

Undir öllum eðlilegum kringumstæðum á Chelsea að vinna þennan leik. Hins vegar er öll pressan komin á okkar menn og liðið engan veginn að spila vel án N'Golo Kanté á miðjunni. Einnig finnst mér eins og aðrir þjálfarar séu búnir að finna mikinn veikleika á okkar liði á þessari leiktíð og það er að setja hápressu á varnar-og miðjumennina. Chelsea tekst orðið mjög sjaldan að "brjóta" þessu fyrstu pressu á bak aftur og þar með missum við allan takt í sóknarleiknum. Þetta var sérstaklega áberandi í leikjunum gegn Roma og Man City. Uppspil liðsins verður að lagast og auglýsi ég sérstaklega eftir Cesc Fabregas í þeim efnum, hann á mikið inni.

Conte þarf að mótivera liðið á réttan hátt, fara aftur í grunnþættina sem liggja fyrst og síðast í því að halda markinu hreinu. Við erum með gríðarlega hæfileikaríka leikmenn fram á við í þeim Morata og Hazard sem eiga alltaf geta skorað í leik sem þessum. Nákvæmlega þannig vinna var upphafið að 13 leikja sigurhrynu sem kom okkur í ansi vænlega stöðu á síðasta tímabili. Antonio Conte þarf að finna þann kraft og þá ákefð aftur sem allra fyrst.

KTBFFH


bottom of page