top of page
Search

Upphitun: Stoke City


Eftir frábæran sigur í Deildarbikarnum á miðvikudag ferðast lærisveinar Antonio Conte norður til Stoke-On-Trent og spila gegn spræku liði Stoke City.

Það var virkilega gaman að horfa á leikinn gegn Nottinham Forrest, Conte gaf nokkrum ungum leikmönnum sénsinn sem flest allir nýttu sér vel. Líklega þó enginn betur en Charly Musonda Jr. sem var búinn að bíða þolinmóður eftir sínu tækifæri í byrjunarliðinu. Hann skoraði fínasta mark sem eflaust verður minnst vel fyrir fögnuðinn, þar sem leikmaðurinn nánast felldi tár af gleði. Einnig var mjög gaman að sjá Batshuayi skora þrennu og spila almennt mjög góðan leik. Það er samt mikilvægt að láta þessi úrslit ekki blekkja sig, Nottingham Forrest er miðlungslið í Championship deildinni og þeir hvíldu nánast allt byrjunarliðið sitt í leiknum gegn Chelsea.

Stoke City

Það er gömul saga og ný að Stoke City er yfirleitt notað sem samnefnari um hinn klassíska enska fótbolta þar sem stórstjörnur stóru liðanna þurfa að mæta á köldum janúarkvöldum og reyna næla í þrjú stig, takist þeim það eru liðin yfirleitt í góðum málum. Þetta átti eflaust ágætlega við þegar Tony Pulis réði þar ríkjum. Það eru nokkur ár síðan að hann fór og núna er okkar gamli félagi Mark Hughes búinn að sigla Stoke skútunni í nokkur ár með ágætis árangri. „Sparky“ eins og Hughes var jafnan kallaður hefur tekið Stoke City inn í 21. öldina og er að reyna láta liðið spila betri fótbolta. Stoke er ekki lengur það lið sem fær á sig mjög fá mörk, skorar lítið og er alltaf með 10 menn fyrir aftan boltann í öllum leikjum. Sparky hefur fengið fínustu leikmenn til liðs við Stoke eins og Shaqiri og Jese og vill taka næsta skref með liðið. Þeir hafa ekki byrjað tímabilið neitt sérstaklega vel en hafa þó verið mjög sterkir í þessum tveimur heimaleikjum sem þeir hafa spilað gegn Arsenal og Man Utd. Þeir unnu frækinn sigur á Arsenal í 2. umferð og náðu svo góðu 2-2 jafntefli við Man Utd í 4. umferð.

Hvað byrjunarliðið þeirra varðar eru þeir í vandræðum með öftustu línuna sína. Sparky hefur verið að láta Stoke spila 3-4-3 á þessu tímabili þar sem okkar eini sanni Kurt Zouma hefur verið að standa vaktina en hann má að sjálfsögðu ekki spila gegn Chelsea. Við þetta bærist svo að Shawcross og Cameron eru meiddir og spila ekki á morgun. Til að bæta gráu ofan á svart er nýi miðvörurinn þeirra, Kevin Wimmer, einnig tæpur. Ef þetta reynist allt satt og rétt þarf Hughes eitthvað að hræra í vörninni hjá sér og jafnvel skipta um kerfi. Nokkur staðarblöð í Stoke hafa verið að spá því að Bruno Martins Indi og Eric Pieters muni mynda miðvarðaparið í fjögurra manna varnarlínu. Sömu heimildir herma að hin spræka framlína; Shaqiri, Jese og Choupo- Moting muni byrja leikinn en sá síðastnefndi skoraði einmitt tvö mörk gegn Man Utd.

Chelsea

Ef ég væri Antonio Conte myndi byrja leikinn gegn Stoke svona:


Þetta er í raun 3-5-2 kerfi þar sem Hazard spilar í fremstu víglínu með Morata. Hins vegar dregur Fabregas sig út til hægri þegar liðið er í varnarstöðu til að tryggja hið góða jafnvægi sem Conte hefur náð upp í vörninni með 3-4-3. Bakayoko lenti í bílslysi á fimmtudag en slapp með nokkrar skrámur, Conte staðfesti svo að hann væri leikfær gegn Stoke um helgina. Ég myndi svo velja Rudiger á kostnað Cahill, Rudy hefur heillað mig þegar hann hefur spilað og þá sérstaklega í uppspilinu, hann lagði líka upp markið á Kenedy í leiknum gegn Forrest.

David Luiz er auðvitað í leikbanni og því mun Christensen stjórna vörninni á morgun. Ég mun skrifa sér pistil um Christensen hér inn á síðuna á næstu dögum, ég persónulega held að við höfum algeran demant í höndunum í þessum strák.

Það mun þó ekki koma mér á óvart ef Conte ákveður að velja meira hefðbundna 3-4-3 með Willian á kostnað annað hvort Fabregas eða Bakayoko. Svo er spurning hvort Conte vilji láta Hazard byrja leikinn m.v. þá leiki sem eru framundan í næstu viku, Atl Madrid og Man City.

Chelsea liðið verður að vinna þennan leik til þess að halda í við toppliðin. Man City á leik gegn Crystal Palace um helgina, leik sem þeir vinna alveg örugglega. Við mætum svo City á heimavelli í næstu umferð, það er því gríðarlega mikilvægt að vera ekki búnir að missa þá of langt fram úr okkur fyrir þann leik. Leikurinn gegn Arsenal var upp og ofan hjá okkar mönnum þar sem hvorugu liðinu tókst að skapa sér neitt alltof mikið fyrir framan markið. Við þurfum því að koma sterkir til baka og hirða þessi 3 stig sem í boði eru.

KTBFFH


bottom of page