Ég er sá fyrsti til að viðurkenna það að þetta Lukaku mál fór alveg ofboðslega í taugarnar á mér. Í framhaldinu komu allskonar sögur á yfirborðið að Lukaku hafi alltaf viljað fara til Man Utd osfrv, ég trúi því ekki – Lukaku vildi bara komast burt frá Everton og til klúbbs sem spilar í meistaradeildinni. Ef Marina Granovskaia og hennar teymi hefðu keyrt á þetta mál af fullum krafti þá er ég nokkuð viss um að Chelsea hefði landað Lukaku. Í staðinn var ákveðið að fara í störukeppni við Everton um kaupverðið og í millitíðinni tróð Woodward sér inn í kaupin og kláraði þau fyrir Man Utd. Alla vega, Man Utd keypti (að mínu viti) eina leikmanninn á markaðnum sem er „proven“ skorari í ensku úrvalsdeildinni. Lukaku mun skora 25 mörk á tímabili, svo framarlega sem hann helst heill heilsu.
Nóg um Lukaku.
Ég vil þó taka það fram að minn draumur hefur alltaf verið að Diego Costa verði áfram okkar fremsti maður – líkurnar á slíku vopnahléi milli hans og Conte eru hverfandi. Costa fer til At. Madrid fyrir ca. 30 – 35 milljónir punda.
Það eru bara þrír leikmenn sem koma til greina úr þessu: Pierre-Emerick Aubameyang Andrea Belotti Alvaro Morata
Ég tók mér smá tíma og reyndi að skoða þessa leikmenn ágætlega, bæði tölfræðilega og svo hvernig mörk þeir skora. Ég skoðaði þá út frá kríteríu sem er svona: Mörk skoruð Mörk úr vítum Mörk skoruð inni í teig Mörk skoruð utan teigs Mörk skoruð með skalla Mörk skoruð á með fyrstu snertingu (pot mörk + skallar) Mörk skoruð eftir stungusendingu Mörk skoruð sem framherjinn býr til sjálfur
Þessum pistli fylgja þessar niðurstöður fyrir þessa þrjá framherja auk Diego Costa (sjá mynd).
Þetta er ekki fullkomið líkan, en gefur þó glögga mynd af því hvernig mörk þessir framherjar eru að skora, hverjir eru þeirra helstu styrkleikar og mögulegir veikleikar. Svo er stóra spurningin, hvað þarf framherji CFC að hafa?
Byrjum á Aubameyang (hér eftir Auba): Ef síðasta tímabil er skoðað hjá honum þá skoraði Auba 31 mark og var markahæstur í Bundesligunni. Af þessu 31 marki voru aðeins tvö úr vítum. Hann skoraði öll mörkin inni í teig. Hann er fínasti skallamaður því hann setur 6 skallamörk, 5 mörk komu eftir stungusendingar og svo önnur 5 eftir að hann hafði tekið menn sjálfur á eða skapað markið sjálfur með einum eða öðrum hætti. Lang flest mörkin voru þó þessi klassísku „potara“ mörk eða 19 talsins (að sköllum meðtöldum). Allir sem hafa horft á Dormund spila vita að þeir eru rosalega sókndjarft lið, bæði undir Klopp og Tuchel og Auba nýtur þess í botn. Hann er eldfljótur en líklega er hans besti kostur hvað hann tekur réttu hlaupin á réttum tíma og klárar færin sín vel. Það verður þó að segjast að Dortmund liðið vinnur mjög mikla vinnu fyrir hann, þ.e. mörg af þessum mörkum eru auðveld þar sem hann er réttur maður á réttum stað – gleymum því samt ekki að það er líka hæfileiki að vera á réttum stað og sennilega besti hæfileiki sem nokkur framherji getur haft. Það sem ég saknaði í leik Auba var að sjá hann „kljást“ við varnarmenn, hafa betur og svo pota boltanum í markið – hann er ekki beint þannig leikmaður, jafnvel þó hann sé nookkuð hávaxinn eða 1.88 cm. Fjölmiðar hafa greint frá því að Auba sé falur fyrir um 70 milljónir punda sem er auðvitað risapeningur fyrir leikmann sem er 28 ára og á 3-4 ár eftir á hæsta leveli. Það er einnig ókostur að hann fer í Afríkukeppnina annað hvert ár. Þetta er samt eini leikmaðurinn á þessum lista sem hefur sannað sig algerlega á hæsta leveli sem markaskorari.
Andrea Belotti: Það voru eflaust ekki margir sem vissu hver Andrea Belotti var fyrir ári síðan. Þessi kappi sprakk svo út á síðasta tímabili með því að skora 26 mörk í Seriu A. Belotti er 24 ára á árinu og á sín bestu ár framundan. Ef rýnt er í hans tölfræði sést nákvæmlega hvernig spilari þetta er. Hann er nagli, örlítið samanrekinn og mikið hörkutól. 25 af 26 mörkum hans koma inn í teig og það sem merkilegra er að 21 marka hans kemur úr fyrstu snertingu. Hann er þessi klassíski „fox in the box“. Belotti er líka mikill skallamaður og skoraði 10 mörk með skalla og það er þrátt fyrir að vera ekki hærri en 1.81 cm. Það er í raun magnað að skoða þessi mörk hans á síðasta tímabili því maður sér hann nánast aldrei „drippla“ boltanum sjálfur – nánst öll mörkin eru annað hvort skallamörk, klafs inni í teig eða þar sem hann potar boltanum inn fyrir línuna – að einhvejru leiti minnir hann mig á Christian Vieri. Í Belotti væri Chelsea að fá leikmann sem myndi berjast, láta finna fyrir sér inni í teignum en væri eflaust ekki eins teknískur og Auba eða Morata. Hann er samt mjög góður í að halda boltanum uppi á topp sem er mikilvægt fyrir leikstíl CFC. Með þessu er ég alls ekki að segja að Belotti geti ekki rekið boltann eða tekið menn á, ég er bara að benda á þá augljósu staðreynd að hann skorar ekki þannig mörk. Mögulega spilar leikstíll Torino liðsins þarna inn í en það er auðvitað ekki meira en miðlungslið á Ítalíu. Ef Chelsea æltar að kaupa Belotti þá verður það alveg rosalega dýrt, forseti Torino segir að hann hann kosti 100 milljónir evra en það er sú upphæð sem er bundin í klásúlu í samningi kappans. Persónulega finnst mér alltof áhættusamt að kaupa leikmann á þannig pening sem hefur bara spilað eitt frábært tímabil, hefur enga reynslu af ensku úrvalsdeildinni og hefur ekki víðtækara vopnabúr en raun ber vitni – ég myndi vilja sjá meira svona „complete“ leikmann en Belotti, sérstaklega fyrir þessa fjármuni.
Alvaro Morata: Morata spilaði auðvitað mjög lítið á síðasta tímabili. Til þess að jafna þennan samanburð þá tek ég alla hans leiki inn í myndina, ólíkt Belotti og Auba þar sem ég tek bara deildarkeppnina. Morata skoraði 20 mörk í öllum keppnum á síðasta tímabili í 43 leikjum. Í yfir helmingi þessara leikja kom Morata inn á sem varamaður svo þessi tölfræði er auðvitað skökk þegar kemur að honum. 18 af þessum 20 mörkum komu innan vítateigs andstæðingsins og 12 af þessum 18 mörkum skoraði hann með fyrstu snertingu eða skalla (þar af 7 skallamörk). Hann skapaði svo 4 mörk sjálfur og skoraði önnur 4 mörk eftir stungusendingu. Ég verð að segja að þessi mörk sem Morata skoraði heilluðu mig mikið. Hann virðist vera heilsteyptur framherji, er með mjög góða hæð (1.89 cm), góðan hraða og virðist geta slúttað þessum færum sínum mjög vel. Það voru 2 mörk sem heilluðu mig mjög mikið, þar sem hann tekur varnarmann á á litlu svæði og klínir boltanum upp í hornið – Þessi gaur kann að skora mörk. Hins vegar eru spurningarmerki! Hvers vegna tók Zidane hann ekki fram yfir Benzema sem átti ekki meira en miðlungstímabil? Á tveimur tímabilum hjá Juventus skoraði hann ekki nema 27 mörk í 93 leikjum (allar keppnir). Það verður líka ekki auðvelt að kaupa Morata, Florentin Perez, forseti Real Madrid ætlar ekki að láta hann fara ódýrt og hefur upphæðin 80 milljónir punda verið nefnd þar til sögunnar. Stóra spurningin er sú hvort Morata geti axlað þá ábyrgð að vera oddurinn á spjótinu í sóknarleik liðs sem ætlar sér að keppa um allar dollur sem í boði eru? Hann hefur aldrei verið það áður, hann var í algeru aukahlurverki hjá Real Madrid og hjá Juve voru Tevez og síðan Dybala aðal markaskorararnir. Að því sögðu hefur alltaf verið mjög gott að kaupa leikmenn sem hafa eitthvað að sanna (þetta sagði enginn annar en Jose Mourinho) – kannski myndi Morata springa endanlega út við það að fá traustið og vera aðalmaðurinn, hann hefur alla vega hæfielikana og líkamlegu burðina til að spila í EPL.
Niðrustaða: Eftir að hafa skoðað þetta út frá þessum forsendum sem ég gef mér og ef ég ætti að velja á milli þessara framherja þá væri niðurstaðan Aubameyang. Hann er sá aðili sem hefur sannað sig hvað mest og væri fyrir mér minnsta áhættan. Morata finnst mér einnig afskaplega spennandi leikmaður en mesta áhættan væri Belotti. Belotti hefur bara upplifað það að vera stór fiskur í lítilli tjörn í Torino, aldrei spilað leik í evrópukeppni og bara átt eitt virkilega gott tímabil. Aubameyang hefur skorað gegn liðum eins og Real Madrid og Bayern Munchen og verið markakóngur í einni af sterkustu deildum Evrópu. Það væru rosalega góð kaup að klófesta Auba.
Að lokum, eftir að hafa skoðað þetta gaumgæfilega þá hefur það ekkert nema styrkt mig í þeirri trú að það besta í stöðunni væri að halda Diego Costa hjá félaginu sem okkar aðalmarkaskorara. Diego er með magnaða tölfræði á þremur tímabilum í EPL – 52 mörk í 89 leikjum. Eins er áhugavert að bera hans tölfræði saman við hina leikmennina, myndi einhver af þessum ofangreindu leikmönnum geta skorað mörk eins og Diego skoraði á móti Man City á útivelli eða sigurmarkið á móti West Brom á Stamford Bridge? Ég er ekki viss. Diego er magnaður framherji en langt því frá fullkominn – hans verður sárt saknað.
KTBFFH
Jóhann Már Helgason