top of page
Search

Þáttur af Blákastinu og upphitun gegn Spurs

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: 4. febrúar 2021 kl. 20:00

Leikvangur: Tottenham Hotspur Stadium

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport

Upphitun eftir Stefán Martein


Neðst í færslunni er hægt að hlusta á nýjasta þáttinn af Blákastinu sem var í sérstakri upphitunarútgáfu að þessu sinni. Við fengum til okkar stuðningsmenn Spurs, þá Þorgeir Jónsson og Rúnar Ingvarsson, til að hita upp fyrir leikinn gegn Tottenham. Þátturinn var tekinn upp beint eftir tap Spurs gegn Brighton svo þeir félagar voru ansi blóðheitir yfir sínum mönnum - endilega hlustið á þáttinn sem einnig er aðgengilegur í öllum helstu hlaðvarpsveitum.


Chelsea

Ein vika og 2 leikir hafa liðið síðan Frank Lampard fékk reisupassan frá okkar ástkæra félagi og við tóku breyttir tímar. Thomas Tuchel mætti og hefur síðan sótt 4 stig í þessum 2 leikjum sínum. Við erum farnir að múra til baka og í þessum 2 leikjum gegn Wolves og nú síðast Burnley höfum við varla gefið á okkur færi ásamt því sem við höfum tekið algjöra stjórn á leikjunum 2 en þrátt fyrir það átt í vandræðum með að skora. Markalaust gegn Wolves þar sem við bönkuðum á dyrnar en höfðum ekki erindi sem erfði og svo núna síðast var það bakvarðarveitin okkar sem kom okkur yfir hjallann góða þar sem Cesár Azpilicueta skoraði fyrsta mark liðsins undir stjórn Thomas Tuchel og svo kom seinna markið alla leið úr frystikistunni þegar Marcos Alonso átti frábæra afgreiðslu sem lokaði leiknum gegn Burnley.

Það er þó komið að fyrstu alvöru prófraun fyrir Thomas Tuchel en með fullri virðingu fyrir Wolves sem virka í lægð og svo Burnley sem ættu alltaf að vera skyldusigur. Núna er komið að “topp 6” liði Tottenham að bjóða okkur í heimsókn. Tottenham hefur tapað síðustu 2 leikjum í röð, og það nokkuð sannfærandi. Harry Kane og Sergio Reguilón verða væntanlega fjarri góðu gamni og því líklega sjaldan betri tími til þess einmitt að mæta Tottenham heldur en nú.


Við þekkjum þó José Mourinho betur en flestir og vitum að það er alls ekki algengt að hann tapi mörgum leikjum í röð og má gera fastlega ráð fyrir að ef hann verður án fleiri lykilmanna mun hann reyna að múra fyrir markið og treysta á Son í skyndisóknunum. Bæði lið þurfa á þremur stigum að halda úr þessum leik í harðri baráttu um sæti í Meistaradeild Evrópu.


Ég á ekki von á neinu öðru en að Edouard Mendy haldi stöðu sinni milli stangana og við sjáum svipað upplegg og í síðustu tveimur leikjum þar sem við verðum með þriggja miðvarða kerfi. Þar á ég ekki von á neinni breytingu frá síðustu leikjum en Cesár Azpilicueta, Thiago Silva og Antonio Rudiger verða hafsentaþrenningin okkar. Vængbakverðirnir verða líklega Callum Hudson-Odoi og Ben Chilwell. Á miðri miðju gætum við séð N’golo Kanté snúa aftur og þá reikna ég með að Kovacic verði honum við hlið þar sem hann ber boltann betur upp en Jorginho. Fremstu þrír í flæðinu verða svo Mount, Werner og Ziyech.

Ég er samt jafn líklegur á að hitta á rétt byrjunarlið og að fá 13 rétta á 1x2 svo ég verð vonandi með helminginn réttan.Tottenham

Eins og fyrr segir koma Spurs særðir inn í þennan leik með tvo tapleiki í röð á bakinu. Þeir eru að sogast hægt og rólega úr allri baráttu og róðurinn verður enn þyngri tapi þeir gegn okkur. José Mourinho, okkar allra besti, virtist vera að byggja upp einhverja veislu í norður London um svipað leiti og allt lék í lyndi hjá okkar mönnum en á meðan við féllum frekar hratt niður úr allri titilbaráttu hafa Tottenham verið að taka sinn tíma og hægt og rólega verið að dragast aftur úr.

Liðin eru sem stendur jöfn stigum með 33 hvort en Tottenham á leik til góða. Ef við vinnum hinsvegar Tottenham gæti þessi leikur sem þeir eiga inni ekki skipt höfuð máli því við siglum fram úr þeim sama hvað því þar kemur markatalan inn í og munar einu marki á liðunum, Chelsea með +12 og Tottenham +13.


Tottenham kemur inn í þetta einvígi með vængbrotið lið en gera má ráð fyrir að lykilmenn eins og Harry Kane, Sergio Regulion og Tanguy N’Dombele verði fjarri góðu gamni og því skörð í liði Tottenham. José Mourinho gæti því reynt að leggja rútunni og reynt að verja stigið og treysta á skyndisóknir sinna manna beri árangur.


Spá

Ef allt er eðlilegt eigum við að vinna vængbrotið lið Tottenham og tala nú ekki um Tottenham án Harry Kane. Ég ætla því að spá því að við tökum þennan leik 3-0 þar sem Hakim Ziyech trekkir Turbo Timo í gang með því að stinga honum einn vs einn á Toby Alderweireld sem á ekki breik í hraðann á Werner sem kemur okkur yfir snemma.


Við þetta brýst Werner úr skel sinni og bætir við öðru marki áður en hann leggur upp það þriðja á Hudson-Odoi.

Chelsea vélin er að byrja malla gott fólk, fulla ferð!


KTBFFH!

- Stefán Marteinn


Comments


bottom of page