top of page
Search

Úrslitaleikur á Wembley - Chelsea vs Liverpool

Keppni: EFL Cup

Dag- og tímasetning: 27. febrúar

Leikvangur: Wembley

Hvar er leikurinn sýndur?: Stöð 2 Sport, Sky sports, Ölver

Upphitun eftir: Snorra ClintonInnskot ritstjóra:

Það voru stórar fregnir sem bárust núna um kvöldmatarleytið þegar í ljós kom að Roman Abramovich hefði sagt sig frá öllum afskiptum af Chelsea Football Club og um leið falið "trustees of Chelsea’s charitable Foundation" stjórn klúbbsins. Í þeirri stjórn sitja m.a. Emma Hayes og Bruce Buck. Það er ekki alveg ljóst hvað þetta nákvæmlega þýðir svo við höfum ekki fleiri orð um þetta mál í bili.


Komið nú öll sæl og blessuð…….

Ég vil byrja á að minna á einn sneisafullan þátt af Blákastinu sem nú dottinn inn á allar "veiturnar" og einnig er hægt að hlusta á hann hérna neðst í spilaranum.


En það er komið að því, enn einn úrslitaleikurinn sem Dr. T kemur klúbbnum okkar í. Þetta er ekkert eðlilega góður árangur hjá okkar manni sem búinn að vera á bakvið stýrið í rétt rúmt ár með Chelsea og verður þetta úrslitaleikur nr. 5 í röðinni, þ.e.a.s. ef mér skjátlast ekki. Eins og allir Chelsea menn vita þá hefur Bragðarefurinn skilað 4 dollum í hús á þessum stutta tíma og þar af þeirri stærstu…..Meistaradeildinni.


Nú er það úrslitaleikurinn í EFL Cup eða framrúðubikar Englands eins og ég kýs að kalla hann. Alls hefur Chelsea spilað til úrslita um "Framrúðuna" 8 sinnum og sigrað keppnina fimm sinnum, fyrst 1965 og síðast 2015. Til gamans má nú geta að Manchester City hafa verið áskrifendur af þessum bikar síðustu ár en þeir hafa spilað úrslitaleikinn sex sinnum á síðustu átta árum og ALLTAF unnið hann. Minnisstæðasti leikurinn er eflaust frá árinu 2019 þegar okkar allra besti Kepa neitaði að fara af velli. Sarri BRJÁLAÐUR á hliðarlínunni og Kepa klóraði sér bara í hausnum kjánalegur á svip eins og hann vær að reyna muna hvert hann setti bíllyklana.


Í þetta sinn mætum við ógnarsterku Liverpool liði. SHIT HVAÐ ÉG HATA LIVERPOOL! Afsakið, ég bara varð að koma þessu frá mér. Því miður hafa þessir málhöltu leiðindarpésar unnið keppnina oftast allra liða og fara því inn í leikinn leiðinlegri fyrir vikið, þeas ef það er hægt. Venjulega reyni ég að spara neikvæðnina en því miður vitum við öll að Poolarar eru hundleiðinlegur þjóðflokkur sem versnar margfalt þegar það er uppi á þeim typpið. Það mætti segja að þeir séu jafn leiðinlegir og Spurs eru lélegir!!


Það er eitt sem er vert að nefna þessu samhengi varðandi sigurhefðir og annað rúnk, svona ef ske kynni að þið ástkæru stuðningsmenn þurfið að láta bjóða ykkur að horfa á leikinn með eða nálægt Poolurum. Ef það fer að rísa á þeim tillinn þá má einfaldlega benda á það að Liverpool hefur aðeins 7 sinnum spilað á Wembley en Chelsea 17 sinnum. Til að salta í sárið má einnig nefna að Sunderland hefur spilað oftar á Wembley síðustu 3 ár en Liverpool.


Chelsea

Það er sjaldan lognmolla hjá Chelsea, enn eru fréttir að berast tengdar klúbbnum sem geta verið truflandi hávaði. Byrjum á pissudúkkunni, nú hafa enn og aftur fréttir farið í umferð þar sem talað er um að hann vilji ekkert meir en að yfirgefa klúbbinn og fara aftur til Inter. Þráin á að vera það mikil að talað er um að hann sé tilbúinn að taka á sig launalækkun til að tryggja endurkomuna. Oftast leyfi ég nú mönnum að njóta vafans þegar svona umtal kemst á yfirborðið, í þetta skiptið get ég það ekki. Viðvera hans hjá Chelsea er að skapa svo mikla truflun inn í klúbbinn að það er bara tímaspursmál hvenær þetta fer að hafa verulega neikvæð áhrif á klefann, ef það hefur ekki þegar gert það. Ef þetta er sannleikur þá hefur hann endanlega málað sig út í horn gagnvart stuðningsmönnum, TT og liðsfélögum. En ég nenni ekki að eyða deginum í að ræða þann mann frekar. Ef hann ætlar sér að vera hér og standa sig þá þarf hann heldur betur að fara girða sig í brók.


Förum aðeins yfir önnur mál hjá okkar ástkæra klúbb. Tuchel varpaði þeirri gleðibombu á blaðamannafund í gær að ALLIR leikmenn liðsins (fyrir utan Chilwell) væru heilir og æfðu af fullum krafti. Þetta þýðir að lykilmenn eins og Kovcic, Ziyech og JAMES eru allir klárir í leikinn. Refurinn talaði einnig um að James væri búinn að vera geggjaður á æfingum og það gæti farið svo að hann flippi aðeins og negli honum í XI, hver veit. Þetta eru gríðarlega jákvæðar fréttir þar sem James hefur verið sárt saknað og þeir frændur Kova og Hakim hafa verið á flugi undanfarið, þá sérstaklega sá göldrótti en hann hefur átt þann ósið að meiðast þegar hann hefur tekið nokkra frábæra leiki í röð. Vonum að hann sé búinn að stúta þeirri bölvun þar sem hann er okkar ALLRA hættulegasti leikmaður.


Byrjunarlið

Spænski kötturinn hann Kepa verður í búrinu, hann er búinn að vera frábær í þeim leikjum sem hann hefur fengið að spila og á skilið að koma dollunni heim.


Í vörnina fáum við Faðir Vor, Rudiger og Christiansen. Í vængbakvörðum sjáum við Loréal módelið vinstra megin og KING James snýr aftur hægra megin.


Á miðjuna fáum við okkar allra besta Kante og Jorginho. Fremstu þrír eru svo Gullkálfurinn, Havertz og Ziyech. Aftur á móti gæt ég einnig trúað því að Pulisc spili í stað Ziyech til að koma í veg fyrir frekari meðsli.Liverpool

Þeir málhöltu frá Bítlaborginni eru búnir að vera á miklu skriði, eins leiðinlegt og það nú er. Ef ég man rétt eru þeir aðeins 6 stigum frá City (með leik til góða) í titilbaráttunni og eiga því miður góðan séns á að klára deildina í ár. Ég bið lesendur afsökunar ef efnistökin í þessum lið eru að skornum skammti, ég er bara því miður með bráðaofnæmi á liverpool skrifum, hvað þá ef ég þarf að drita niður eitthvað um gott gengi liðsins og annað eins prump.


Við vitum öll að þetta verður erfður leikur og lærissneiðar hans Klopp gríðarlega agaðir og skipulagðir í sínum leik. Þeir sýndu það í síðustu viðureign að þeir þurfa ekki nema millimeter til að refsa, því þarf varnarleikur okkar að vera upp á 10 ef við ætlum að skila dollunni heim.Spá

Góður maður sagði eitt sinn „Oft er þörf en nú er nauðsyn“. Við verðum einfaldlega að vinna þennan leik. Guð forði því að Liverpool landi þessu og um leið verði sigursælasta liðið í þessari keppni. Vinni Liverpool hafa þeir landað dollunni 9 sinnum, oftast allra liða.

Þeir hafa kannski Klopp, Salah og Mane EN við búum yfir styrkleikum sem þeir hafa ekki.

  • Tuchel er „dollu-hóra“ og með yfirburðar tölfræði í úrslitaleikjum

  • Chelsea er sigursælasta enska liðið síðustu 22 ár með 17 stóra titla frá aldarmótum.

  • Við erum með okkar persónulega dólg á Wembley hann Guðmund Jóhannsson sem ætlar að stýra stemmningunni frá A-Ö og sjá til þess að dollan endi í réttum höndum.

Þetta verður þungur leikur fyrir okkur en þegar dómarinn flautar eftir 90 mín munum við lyfta dollunni sem sigurvegarar. Lokatölur 2-1 fyrir Chelsea. Mörkin munu koma frá Rudi, sem loksins neglir honum inn með föstu löngu skoti svo mun Mount sigla þessu heim. Er svo ekki ágætlega öruggt gisk að segja að illa greiddi Egyptinn troði einu inn eftir að hafa farið illa með Alonso.


KTBFFH

- Snorri Clinton


PS. minni aftur á Blákast þáttinn hér að neðan.


Comments


bottom of page