Reglur til handa þeim sem vilja taka þátt í umræðum á cfc.is
Neðangreindar reglur voru fengnar að láni hjá kop.is.
1: Bann við þátttöku í umræðum
Síendurtekin brot á öllum þeim reglum sem talin eru til hér fyrir neðan skila sér í banni frá þátttöku í umræðum á cfc.is. Þetta er ekki umsemjanlegt. Brjóti menn reglurnar einu sinni fá þeir viðvörun. Hlýði menn þeirri viðvörun ekki og haldi áfram að brjóta reglurnar verða þeir bannaðir. Á þetta sérstaklega við um ummæli sem birt eru undir dulnefni.
​
2: Persónuníð og skítkast
Allt persónuníð er með öllu bönnað. Persónuníð þýðir að í stað þess að gagnrýna skoðun einhvers er viðkomandi einstaklingur gagnrýndur. Það er, umræðan er persónugerð á neikvæðan máta. Hér skiptumst við á skoðunum, ekki móðgunum.
​
3: Troll og pirringur
Öll ummæli sem innihalda troll eða eru vísvitandi gerð til þess að pirra lesendur cfc.is verða fjarlægð. Við líðum engin troll á þessari síðu. Þetta á sérstaklega við um aðdáendur annarra liða.
​
4: Aldurstakmörk
Á síðunni eru engin aldurstakmörk. Það er erfitt að meta hvenær menn eru of ungir eða nógu gamlir til að skrifa ummæli á svona síðu. En til þeirra sem yngri eru viljum við ítreka að þeir vandi ummæli sín og reyni sitt besta til að leggja sitt af mörkum í umræðunni. Ef þú ert tólf ára og skrifar vel, vertu velkominn í umræðuna. Ef þú ert fimmtán ára og nennir ekki að skrifa neitt af viti, láttu þér nægja að lesa ummæli þeirra sem nenna og geta.
​
5: Vandið ykkur
Þetta síðasta atriði er ekki regla heldur frekar ábending. Að baki þessari síðu standa margir sem leggja á sig mikla vinnu til að halda henni úti og framleiða gæðaefni. Í ummælaþráðunum eru einnig margir lesendur sem leggja sig fram um að skrifa innihaldsrík og skemmtileg innlegg í umræðurnar hverju sinni. Ef menn hafa ekkert meira til málanna að leggja en „þessi leikmaður er ömurlegur“, eða „þessi dómari er bara fífl“, eða „glataður leikur“, er kannski betra fyrir viðkomandi að sleppa því að skrifa ummæli og láta sér nægja að lesa síðuna.