Romelu Lukaku er orðinn leikmaður Chelsea Football Club. Hann kemur til félagsins frá Inter Milan og mun, samkvæmt fréttum Sky Sports, kosta 97,5 milljónir punda. Það gerir hann að dýrasta leikmanni Chelsea frá upphafi og þeim næst dýrasta sem keyptur hefur verið innan Bretlandseyja. Í þessum pistli ætlum við að stikla á stóru varðandi Lukaku, allt frá því að hann var unglingur og til dagsins í dag.
Upphafið
Romelu Menama Lukaku Bolingoli er fæddur 13. maí 1993 í belgísku borginni Antwerp. Hann byrjaði ungur að æfa fótbolta með hverfisliðinu sínu Rupel Boom og kom snemma í ljós að Lukaku var efnilegur fótboltamaður. Lukaku var nánast höfðinu hærri en flestir jafnaldrar sínir og spilaði því mikið upp fyrir sig frá unga aldri.
Þegar Lukaku var 11 ára gekk hann til liðs við belgíska Úrvalsdeildarliðið Lierse, liðs sem var með öfluga unglingakademíu og voru njósnarar Lierse búnir að hafa augastað á Lukaku í rúmt ár áður en hann kom til liðsins. Hjá Lierse fékk Lukaku betri þjálfun og má með sanni segja að hann hafi verið sannkölluð barnastjarna í belgískum fótbolta. Á tæpum þremur árum hjá Lierse skoraði Lukaku 121 mark í 68 leikjum (!!!). Þessi tölfræði er auðvitað galin og undirstrikar þá hæfileika og líkamlegu yfirburði sem Lukaku hafði á þessum árum sbr meðfylgjandi mynd.
Árið 2006 gekk Lukaku svo til liðs við Anderlect, en þá var Lierse fallið um deild og miklir fjárhagslegir örðugleikar að kvelja liðið. Anderlect er eitt af risa liðinum í Belgíu og var á sínum tíma eitt stærsta lið Evrópu. Lukaku var því kominn til aðal liðsins í Belgíu. Þarna er hann 13 ára gamall og hélt bókstaklega áfram að hrella jafnaldra sína í fótbolta. Á þremur árum í akademíu Anderlecht skoraði Lukaku 131 mark í 93 leikjum.
Á þessum tíma voru mörg stórlið Evrópu farinn að fylgjast með Lukaku sem ákvað þó að halda tryggð við Anderlecht og gerði sinn fyrsta atvinnumanna samning við félagið á 16 ára afmælisdeginum sínum, eða um leið og hann mátti gera slíkan samning. Strax sama ár varð Lukaku fastamaður í liði Anderlecht og gerði sér lítið fyrir og endaði sem markakóngur í belgísku Úrvalsdeildinni með 16 mörk tímabilið 2009/10. Það sem meira var er að Anderlecht vann belgísku Úrvalsdeildina. Það segir enn og aftur um gæði Lukaku að hann var þarna aðeins 16-17 ára gamall og strax orðinn einn af bestu leikmönnum í belgísku deildinni.
Lukaku hélt áfram að raða inn mörkunum í Belgíu en kappinn var með stærri markmið. Hann ætlaði sér í stærra lið sumarið 2011 og öll stórlið Evrópu settu út klærnar...hvaða risalið myndi sigra kapphlaupið um Lukaku?
Chelsea kemur kallandi
Eins og margir stuðningsmenn Chelsea vita að þá var Romelu Lukaku grjótharður stuðningsmaður Chelsea í æsku og átrúnaðargoðið hans var engin annar en Didier Drogba. Í raun voru Chelsea búnir að fylgjast með Drogba frá því að hann var 13 ára gamall og vissu mikið um hann. Þegar kom að því að klófesta hann að þá beitti klúbburinn öllum ráðum til að fá Lukaku, m.a. símtölum frá Drogba og John Terry.
Að lokum valdi Lukaku að koma til Chelsea, sumarið 2011. Andre Villas Boas var þá nýtekin við sem stjóri liðsins og gaf Lukaku nokkur tækifæri framan af tímabili, m.a. í opnunarleik liðsins gegn Norwich. En gengi Chelsea var ekki gott og Lukaku tókst ekki að heilla í þeim fáu leikjum sem hann fékk mínútur. Hann spilaði lítið og var í raun kominn í varaliðið þegar Roberto Di Matteo tók við af Villas Boas. Di Matteo setti allt sitt traust á Drogba og honum til halds og trausts var Fernando Torres. Lukaku var því úti í kuldanum þegar liðið vann Meistaradeildina og FA bikarinn undir stjórn Di Matteo, hann var í raun ekki aðalliðshópnum þó hann vissulega æfði með honum. Lukaku tók þátt í 12 leikjum þetta tímabilið, langflestir þeirra voru sem varamaður, og tókst honum ekki að skora eitt einasta mark. Það var því ákveðið að Lukaku færi á lán á næsta tímabili.
WBA
Chelsea vildu lána Lukaku innan Úrvalsdeildarinnar til að gefa honum alvöru reynslu tímabilið 2012/13. Þarna var Lukaku 19 ára gamall og okkar gamli leikmaður, Steve Clarke, tekinn við stjórnartaumunum hjá WBA. Clarke lagði mikla áherslu á að fá Lukaku sem svaraði heldur betur kallinu.
Lukaku lék í það heila 38 leiki í öllum keppnum og skoraði í þeim 17 mörk og bætti við heilum 7 stoðsendingum. Minnistæðasti leikur Lukaku var án vafa þegar hann skoraði þrennu í lokaleik tímabilsins gegn Man Utd sem jafnframt var síðasti leikur Sir Alex Ferguson sem knattspyrnustjóra Rauðu Djöflana. WBA lentu 3-0 undir og Lukaku kom inná sem varamaður í hálfleik og náðu WBA að jafna metin. Þarna var öllum ljóst að Lukaku væri alvöru leikmaður en var hann orðinn nægilega góður fyrir Chelsea?
Lán og sala til Everton
Tímabilið 2014/14 var okkar eini sanni Jose Mourinho tekinn aftur við sem stjóri Chelsea. Móri kallinn er þekktur fyrir að vera tregur til að nota unga leikmenn og vill frekar byggja liðið í kringum reynslumeiri spilara. Það var hins vegar mikill spenna fyrir Lukaku eftir góðar frammistöður með WBA og spilaði hann mikið á undirbúningstímabilinu og gerði ágætlega.
Það var hins vegar augljóst að Mourinho vildi ekki byggja sóknarleik Chelsea í kringum framherjann unga. Flestir áttu von á að Lukaku yrði hreinlega í byrjunarliðinu í upphafi leiktíðar, annað kom á daginn. Eftir að Lukaku klúðraði svo víti í vítaspyrnukeppninni um Super Cup bikarinn var flestum ljóst að Mourinho taldi Lukaku ekki tilbúinn í slaginn.
Mourinho sótti gamlan og lúin Samuel Eto'o til að berjast við Fernando Torres um framherjastöðuna og Lukaku fór á lán til Everton.
Hjá Everton hélt Lukaku uppteknum hætti. Hann lék 35 leiki í deildinni og skoraði í þeim 15 mörk og lagði upp önnur átta. Til samanburðar skoruðu Torres og Eto'o samtals 14 mörk í deildinni fyrir Chelsea.
Tímabilið eftir var Mourinho samur við sig og heimtaði heimsklassa framherja. Hann taldi hinn 21 árs gamla Lukaku ennþá ekki tilbúin til þess að leiða línuna og fór og sótti Diego Costa til Atl. Madrid. Lukaku fann fyrir því að njóta ekki traust og vildi fara frá félaginu. Everton komu hlaupandi með 30 milljón punda tilboð sem Chelsea samþykktu.
Sala til Manchester United
Romelu Lukaku festi sig í sessi sem einn af bestu framherjum Úrvalsdeildarinnar hjá miðlungsliði Everton. Tímabilið 2016/17 var hans besta með Everton og jafnframt það síðasta. Þá skoraði Lukaku 25 mörk í deildinni í 37 leikjum. Það var ljóst að hann væri á förum og var sterklega orðaður við endurkomu á Stamford Bridge þar sem Antonio Conte vildi losa sig við Diego Costa og fá Lukaku í staðinn.
Þegar Chelsea héldu að allt væri klappað og klárt náðu Man Utd að koma sér inn í samningaviðræðurnar með því að lofa Mino Raiola gulli og grænum skógum. Chelsea vildu ekki greiða þessi háu umboðslaun til Raiola og því tókst Man Utd hálfpartinn að ræna Lukaku af Chelsea.
Lukaku kostaði Man Utd heilar 90 milljónir punda + 20 milljónir punda sem fóru til Raiola. Hann varð því einn dýrasti leikmaður heims. Söguna hjá Man Utd þekkja flestir. Hann stóð sig vel á sínu fyrsta tímabili þegar Mourinho var með liðið. Skoraði 27 mörk í 51 leik í öllum keppnum og lék nokkuð vel.
Seinna tímabilið fór hins vegar að halla undan fæti. Mourinho fékk sparkið og við tók Ole Gunnar Solskjær. Norðmaðurinn vildi byggja framlínu liðsins meira í kringum Rashford og Martial, þannig í fyrsta skipti á ferlinum var Lukaku orðinn bekkjarmatur. Eitthvað sem hann átti mjög erfitt með að sætta sig við. Það kom því fáum á óvart að hann færði sig um set og fór til Inter Milan þar sem engin annar en Antonio Conte var að byggja upp nýtt lið.
Nýr Lukaku hjá Inter
Hjá Inter Milan þróaði Lukaku leik sinn. Antonio Conte er gríðarlega fær þjálfari og hann vildi sjá Lukaku bæta við vopnum í vopnabúrið sitt. Hann lét hann æfa það trekk í trekk að vera svokallaður "uppspilspunktur" þar sem hann tekur á móti boltanum með varnarmann í bakinu og skila honum frá sér. Þetta sást strax og var Lukaku orðinn mun heilsteyptari framherji fyrir vikið.
Fyrra tímabilið hjá Inter stimplaði Lukaku sig rækilega inn í ítalska boltann. Hann gerði 34 mörk úr 51 leik og bætti þar að auki við sex stoðsendingum. Inter náðu hins vegar ekki að skjóta Juve mönnum ref fyrir rass og misstu af titlinum.
Á síðasta tímabili gekk hins vegar allt upp í Seriu A. Lukaku var besti leikmaður deildarinnar, hann skoraði 24 mörk í 36 leikjum í deildinni og bætti þar að auki við 10 stoðsendingum. Frábært framlag sem gerði það að verkum að Inter vann loksins Seriu A og batt þar með enda á níu ára einokun Juventus á ítölskum fótbolta.
Inter fór hins vegar eitthvað fram úr sér og þegar ljóst var að liðið var í miklum fjárhagserfiðleikum stökk Antonio Conte frá borði og framtíð Lukaku var allt í einu orðin óljós.
Romelo "LuBacku"
Í mest allt sumar hefur Chelsea verið orðað við kaup á framherja. Það er frekar skiljanlegt þar sem liðið nýtti færin sín afar illa í fyrra. Lengst af héldu flestir stuðningsmenn liðsins að aðalskotmarkið væri Erling Braut Haaland. En annað hefur komið á daginn.
Það hefur verið staðfest að fyrsti fundur Chelsea með umboðsmanni Lukaku var daginn eftir sigurinn í Meistaradeildinni, fór sá fundur fram í Portugal þar sem leikurinn var leikinn.
Í fyrstu var Lukaku tregur til að íhuga þessi vistaskipti. Jafnvel þó Inter væru í vandræðum og Conte, þjálfari sem hann elskaði að spila fyrir, væri farinn frá liðinu. Lukaku líkaði lífið vel á Ítalíu og fann fyrir mikilli virðingu.
En það er eitt sem fólk gleymir oft, og það er að Lukaku var alltaf harður stuðningsmaður Chelsea sem átti þann æskudraum að feta í fótspor Didier Drogba hjá Chelsea. Eftir að hann talaði við Thomas Tuchel sannfærðist hann um að vilja taka skrefið til Chelsea.
Fjárhagsvandræði Inter gerðu það að verkum að ef þeir myndi fá mjög gott tilboð, þá myndu þeir neyðast til að selja sinn besta mann.
Hverju mun Lukaku breyta hjá Chelsea?
Chelsea eru komnir með alvöru odd á spjótið sitt. Leikmann sem var með xG upp á 25 mörk í fyrra en skoraði 30 mörk, í öllum keppnum. Ef Lukaku mun yfirskora xG tölfræðina sína hjá Chelsea um 5 mörk þá er liðið komið með leikmann sem getur barist um markakóngstitilinn. leikmann sem við tölum um í sömu andrá og Harry Kane.
Það er líka vert að minnast á að Lukaku kemur til Chelsea á hátindi ferilsins. Hann er að fara eiga sín bestu ár framundan og vill eyða þeim hjá Chelsea. Hann gengur ekki með það í maganum að fara til einhvers annars liðs - hann vill verða goðsögn hjá Chelsea.
Margir leikmenn munu líka græða mikið á komu Lukaku. Hann tekur mikið til sín og þannig getur losnað um leikmenn eins og Timo Werner, sem spilar jafnan best þegar annar framherji er með honum frammi. Ég held einnig að Kai Havertz og Hakim Ziyech eigi eftir að fíla það í tæltlur að spila með alvöru "target" framherja sem þeir munu eiga auðvelt með að mata og spila í kringum.
Pistlahöfundur er amk virkilega spenntur fyrir komu Lukaku og telur þetta hárrétt skref hjá félaginu. Það er mín von að Lukaku geti komið með svipuð gæði og Diego Costa kom með inn í liðið árið 2014.
Romelu Lukaku, núna átt þú sviðið á Stamford Bridge!
KTBFFH
- Jóhann Már
Comments