Keppni: Premier League
Dag- og tímasetning: Þriðjudaginn 15. desember kl. 18:00
Leikvangur: Molineux Stadium
Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport, Viaplay o.fl.
Upphitun eftir: Þór Jensen
Eftir sárt tap gegn þéttum Everton mönnum þurfum við Chelsea menn að rífa okkur upp úr volæðinu og komast aftur á beinu brautina, og það strax. Það skiptir miklu máli að fara inn í jólatörnina á góðu skriði og reyna að finna aftur „momentumið” sem við vorum á fyrir tapið í Liverpool.
Wolves
Úlfarnir hafa tapað í síðustu tveimur leikjum sínum, 4-0 gegn Liverpool og 0-1 gegn Aston Villa og þeir sakna greinilega sárlega síns besta leikmanns, markaskorarans Raul Jiménez. Þeir hafa hins vegar rakettur í sóknarlínu sinni á borð við Adama Traoré, Podence og Pedro Neto, svo okkar menn þurfa að vera á tánum. Góðu fréttirnar eru þær að heilinn í liðinu, Joao Moutinho er í banni vegna brottvísunnar í síðasta leik. Það er aldrei auðvelt að spila á móti Wolves og þrátt fyrir töpin í síðustu tveimur leikjum eru þeir með 17 stig, aðeins fimm stigum á eftir Chelsea.
Chelsea
Okkar mönnum vegnaði vel á báðum leikjunum gegn Wolves á síðustu leiktíð og unnum 2-5 úti og 2-0 heima, en í báðum leikjum speglaði Lampard 3-4-3 kerfi Úlfanna með góðum árangri. Lampard greindi frá því á blaðamannafundi að Pulisic verði í hóp en óvíst um hvort hann byrji. Ziyech og Odoi eru enn meiddir. Í ljósi meiðsla kantmanna okkar vill ég sjá Lampard spila 3-4-3 með Chilwell og sjóðheitan Reece James í vængbakvörðum. Hins vegar svaraði Lampard „Not in the short-term, no. We are playing well” þegar hann var spurður hvort að hann hafði hugsað um að skipta um leikkerfi vegna meiðsla kantmanna. Mögulega vill hann ekki gefa Nuno Espirito Santo neinar vísbendingar um upplegg sitt í leiknum, en við sjáum til.
Ég held að eftir arfaslaka frammistöðu Kai Havertz gegn Everton sé réttast í stöðunni að bekkja hann í þessum leik. Lampard verður að vera sannur sjálfum sér með því að bekkja menn sem ekki standa sig, eins og hann hefur verið óhræddur við sem stjóri Chelsea. Vanalega er ég ekki hrifinn af Mason Mount á kantinum en í 3-4-3 leikkerfi hentar hann vel í „holunni” fyrir aftan sóknarmann. Þá vill ég sjá Tammy koma aftur inn í hópinn eftir tíðindalítinn leik hjá Giroud gegn Everton og spila Werner við hlið hans eða uppi á topp með Tammy. Augljósa miðjan er svo skipuð af Kanté og Kovacic og Azpiliqueta kemur inn sem þriðji hafsent. Svona vill ég sjá liðsuppstillinguna á móti Úlfunum.
Með sigri í leiknum skríðum við upp í toppbaráttuna aftur, en með tapi gætum við dregist niður í Evrópu-baráttuna, allavega tímabundið. Þetta er því gríðarlega mikilvægur leikur á mikilvægum tíma, og sigur gæti gert helling fyrir sjálfstraustið í næstu leikjum. Prógrammið er þétt og erfitt, en við höfum breiðan hóp og fullt af góðum leikmönnum. Ég trúi því að Chelsea muni sigra "Portúgalana" með þremur mörkum gegn engu með mörkum frá Chilwell, Zouma og Werner.
KTBFFH
- Þór Jensen
Comments