top of page
Search

Evrópudraumar í húfi - Chelsea vs Lille

Keppni: Meistaradeild Evrópu

Dag- og tímasetning: 10. desember kl 20:00

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur? Stöð 2 Sport 3, BT Sport 2

Upphitun eftir: Þór Jensen

Þá er komið að mikilvægasta leik Chelsea á tímabilinu til þessa og Frank Lampards sem knattspyrnustjóra Chelsea, síðasti leikurinn í riðlakeppni Meistaradeildarinnar gegn Lille á Brúnni bláu. Leikurinn er í raun algjör úrslitaleikur og mun skera úr um hvaða lið fara upp úr H riðli. Eins og staðan er í dag erum við jafnir að stigum við Valencia með 8 stig, Ajax er á toppi riðilsins með 10 stig en Lille situr á botninum með aðeins 1 stig og á því ekki möguleika á að komast áfram í útsláttakeppnina. Leikurinn þýðir því lítið fyrir Frakkana, sem sitja í 3. sæti frönsku úrvalsdeildarinnar og munu því mögulega (vonandi) hvíla einhverja lykilmenn í leiknum í London. Sigur tryggir okkur upp úr riðlinum en jafntefli gæti dugað ef Ajax fer með sigur úr bítum við Valencia í Amsterdam.


Chelsea

Gengi okkar manna hefur verið frekar sveiflukennt undanfarnar vikur. Eftir frábæra byrjun í deildinni og frammistöðu framar björtustu vonum okkar stuðningsmanna virðist mikil þreyta vera viðloðandi í hópnum sem skein bersýnilega í gegn í leiknum gegn Everton um helgina. Okkar menn voru þungir og orkulausir og áttu í stökustu vandræðum með að brjótast í gegnum þéttan varnarpakka Everton manna sem ollu okkar mönnum miklum vandræðum með hættulegum skyndisóknum sem sköpuðu þeim 2 mörk. Everton komu dýrvitlausir í þennan leik, eins og búast mátti við eftir uppsögn Marco Silva og ráðningu Everton goðsagnarinnar Duncan Ferguson. Þeir virtust einfaldlega vilja sigurinn meira en Chelsea í þessum leik, enda í fallsæti og pressan mikil. Þriðja mark þeirra bláklæddu frá Liverpool kom eftir skelfileg klaufamistök Kepa og lélegum varnarleik í kjölfarið sem gerði endanlega út um endurkomu Chelsea manna í stöðunni 2-1.


Ljósi punkturinn í þessum annars lélega leik var frammistaða Mateo Kovacic sem heldur áfram að stimpla sig inn sem einn mikilvægasti leikmaður liðsins og heilla hug og hjörtu stuðningsmanna með frábærum leik. Hann stjórnaði miðjunni eins og herforingi, fiskaði aukaspyrnur, tók menn á, tæklaði og á endanum skoraði sitt fyrsta mark í ensku Úrvalsdeildinni. Undirritaður hafði ekki miklar vonir eftir tímabilið í fyrra en kaupin á Kovacic hljóta að geta talist ein af kaupum tímabilsins.


Ljóst er að okkar menn verða girða sig í brók fyrir Evrópuleikinn gegn Lille og mæta með rétt hugarfar eftir slæmt tap. Við höfum sýnt það áður á þessu tímabili að við getum stigið upp eftir slæma leiki og sýnt okkar rétta andlit.

LOSC Lille


Eins og kom fram hér að ofan sitja Lille í 3. sæti Ligue 1 og hafa unnið þrjá deildarleiki í röð eftir tap gegn PSG. Þeir hafa tapað öllum leikjum riðlakeppnarinnar að undanskildu jafntefli gegn Valencia á heimavelli. Síðasti leikur þeirra endaði 0-2 gegn Ajax á heimavelli. Helstu styrkleikar Frakkanna eru þéttur varnarleikur, góðar skyndisóknir og líkamlega sterkir sóknarmenn sem eru góðir í loftinu. Þá á ég sérstaklega við tvítuga Nígeríumanninn Victor Osimhen sem hefur skorað 9 mörk og átt 3 stoðsendingar í 16 deildarleikjum. Hann olli okkar mönnum töluverðum vandræðum í fyrri leik liðanna í Lille og skoraði mark Lille í þeim leik.


Þó svo að hafi enga þýðingu fyrir þá frönsku vilja þeir líklega ekki yfirgefa þennan riðil sigurlaus og munu reyna hvað þeir geta til að gera okkar mönnum erfitt fyrir. Lille mun líklega reyna mikið á helstu veikleika Chelsea manna, fyrirgjafir og föst leikatriði. Ef Chelsea menn ná að verjast þeim vel og vera þéttir til baka eigum við að sigra þennan leik.


Byrjunarlið

Ég spái því að Lampard skelli Antoni Rüdiger í byrjunarliðið. Þjóðverjinn sterki er í hóp og Lampard neitaði því ekki þegar aðspurður á blaðamannafundi hvort hann myndi spila. Einnig er Tomori utan hóps með lítilsháttar meiðsli og mig langar að trúa því að Christiansen og Zouma dúóið sé fullreynt. Innkoma Rüdiger í liðið mun eflaust hafa gríðarlega góð áhrif á varnarleik okkar manna og hugarfar almennt, sá þýski er mikill leiðtogi og sterkur persónuleiki í klefa og á vellinum.


Spá

Ég spái Chelsea 2-0 sigri í líkamlega erfiðum leik. Abraham skorar það fyrra og við skorum loksins úr hornspyrnu þar sem Antoni Rüdiger stangar hann í netið í endurkomuleik sínum.


KTBFFH

bottom of page