Chelsea enda þetta tímabil á frábærum nótum með 4-1 sigri í úrslitaleik Evrópudeildarinnar. Ég ætla að skrifa stutta leikskýrslu og gefa hverjum og einum leikmanni einkunn.
Leikurinn sjálfur
Eftir frekar bragðdaufan fyrri hálfleik þar sem Arsenal voru aðeins hættulegra liðið settu okkar menn í fluggírinn í síðari hálfleik. Mögulega voru þetta bestu 45 mín sem Chelsea spilaði á tímabilinu og komu þær á hárrétum tíma. Chelsea auk tempóið í spilamennsku sinni og tókst þannig að færa liðið framar og ýta varnarlínu Arsenal niður af sínum eigin vítateig. Úr slíkri stöðu skoraði Giroud fyrsta mark leiksins á 49. mín eftir frábæra fyrirgjöf frá Emerson. Ellefu mínútum síðar bætti Pedro við öðru markinu eftir góðan samleik Kovacic og Hazard.
Sjálfstraust okkar manna jókst þarna með hverri mínútunni og um leið sá maður vonleysið í augnaráði leikmanna Arsenal. Okkar menn héldu áfram að hamra járnið því aðeins fimm mínútum eftir annað markið fékk Chelsea réttilega dæmda vítaspyrnu eftir að Maitland-Niles braut á Giroud. Kóngurinn Eden Hazard steig á punktinn og kláraði vítið og um leið leikinn, staðan 3-0 og aðeins 65. mín búnar að leiknum.
Arsenal klóruðu aðeins í bakkann er Iwobi skoraði glæsilegt mark á 69. mín. En það voru okkar menn sem áttu síðasta orðið er Giroud og Hazard splundruðu vonlausri vörn Arsenal á 72. mín sem endaði með að sá síðarnefndi kláraði færið framhjá Petr Cech.
Einkunnir leikmanna:
Kepa 6,5 - Virkaði pínu stressaður í fyrri hálfleik og var að kýla burtu fyrirgjafir sem hann á að grípa. Gat lítið gert við marki Iwobi en varði einu sinni vel frá Aubameyang. Azpilicueta 7,5 - Fyrirliðinn okkar varðist gríðarlega vel í leiknum en bauð ekki upp á mikið sóknarlega (ólíkt Emerson). Emerson 8,0 - Frábær leikur hjá ítalska Brassanum. Lagði upp fyrsta mark leiksins og var sífellt ógnandi með hlaupum upp vinstri kantinn. Er orðinn mikilvægur hlekkur í liði Chelsea.
David Luiz 7,5 - Góður leikur hjá Luiz sem hélt einbeitingu allan tímann gegn sókn sem inniheldur mikil gæði.
Christensen 8,5 - Einn besti leikur danska Prinsins í treyju Chelsea. Hann er líklega ennþá með Lacazette í vasanum. Var líka mjög öruggur á boltanum og sýndi svolítið skap í þessum leik, sem er frábært.
Jorginho 7,5 - Steig upp og náði tökum á miðjunni í síðari hálfleik. Er hægt og bítandi búinn að vinna stuðningsmenn liðsins aftur á sitt band.
Kovacic 8,5 - Besti leikur Kovacic fyrir Chelsea. Var algerlega frábær í leiknum og þá sérstaklega í síðari hálfleik. Það segir kannski sitt að hann átti fleiri heppnaðar sendingar en Jorginho og átti stóran þátt í tveimur mörkum Chelsea.
Kanté 8 - Kanté er auðvitað magnaður leikmaður. Var augljóslega meiddur og maður sá að hann var ansi lengi að komast í takt við leikinn. En Kanté er stríðsmaður sem fórnar sér fyrir liðið, var mjög góður heilt yfir í allri sinni pressu og ákefð.
Pedro 8 - Pedro er leikmaður úrslitaleikja. Þetta er sjötti úrslitaleikurinn sem hann skorar í á ferlinum. Var mjög iðinn og alltaf að leita að færinu sem hann fékk loksins og kláraði.
Giroud 9 - Geggjaður leikur hjá "Ollie", hann er okkar MVP í þessari keppni. Endar sem markahæsti maður keppninnar. Var frábær í leiknum, skoraði og lagði upp mark auk þess sem hann fiskaði víti - það er ekki hægt að biðja um meira.
Hazard 10 - Snillingurinn Eden Hazard staðfesti það endanlega eftir leikinn að líklega væri hann að kveðja. Hann kvaddi okkur á besta mögulega máta með því að eiga stórkostlega frammistöðu í úrslitaleik. Hazard skoraði tvö mörk og lagði upp eitt og var sífellt ógnandi í seinni hálfleiknum.
Varamennirnir Willian, Barkley og Zappacosta komu allir inn í leikinn þegar lítið var eftir og úrslitin í raun ráðin.
Ég mun svo birta uppgjörspistil um tímabil Chelsea árið 2018/19 á næstu dögum - þangað til skulum við njóta þessa að hafa unnið titil!
Comments