top of page
Search

Seinni leikurinn gegn Dynamo KievChelsea mætir Dynamo Kiev í seinni leik 16. liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Leikurinn fer fram á hinum sögufræga NSC Olimpiyskiy Stadium í Kiev. Leikurinn hefst kl 17:55.

Chelsea

Okkar menn leiða í þessu einvígi 3-0 eftir góðan sigur á Stamford Bridge fyrir viku síðan. Eftir vonbrigða leikinn gegn Wolves um liðna helgi má vænta þess að Sarri róteri vel í liðinu eins og hann hefur jafnan gert í þessum Evrópudeildarleikjum. Hópurinn sem Sarri fór með til Úkraínu er nánast okkar sterkasta lið að undanskildum Higuain sem er að jafna sig á flensu.


Ég ætla að gera ráð fyrir því að Christensen, Alonso, Barkley, Hudson-Odoi, Giroud og Willian komi allir inn í liðið á kostnað Rudiger, Emerson, Kanté, Pedro, Hazard og Higuain. Nú kunna eflaust margir að reka upp stór augu þar sem ég tilnefni ekki Loftus-Cheek í byrjunarliðið en ég vil ekki að hann spili þennan leik, ég vil sjá hann byrja gegn Everton um helgina og því alger óþarfi að keyra hann út í þessum leik.

Vonandi fær Hudson-Odoi að spila frá byrjun því hann á það svo sannarlega skilið eftir góða innkomu í fyrri leik þessara liða. Ef leikurinn gengur vel myndi ég svo vilja Ampadu fá góðar mínútur líka, helst í miðverði sem er hans náttúrulega staða.

Dynamo Kiev

Eins og við sáum í fyrri leiknum eru Dynamo Kiev vel spilandi fótboltalið sem virkilega reyna að spila fótbolta. Sarri hrósaði þeim í hástert og sagði liðið virkilega vel samsett af leikmönnum sem vilja spila leikinn á réttum forsendum. Ég held að Dynamo menn komi til með að reyna keyra á okkur, þeir eru á sínum heimavelli þar sem þeir tapa sjaldan og hafa engu að tapa. Ef þeim myndi takast að troða inn einu marki snemma myndu áhorfendurnir fá trú á verkefninu og Chelesa mögulega stressast upp. Það er alla vega mín trú, ég held að Dynamo Kiev muni reyna að sækja vel á okkur frá fyrstu mínútu.

Spá

Þessi leikur á auðvitað að vera formsatriði fyrir okkar menn og ekkert múður með það. Hins vegar er þetta fótbolti og eins og við vitum getur allt gerst. Ég ætla samt að gera kröfu á það að Chelsea vinni þennan leik jafnvel þó við hvílum okkar bestu menn. Talandi um að hvíla menn, það er auðvitað mikilvægt að það gerist því við eigum erfiðan leik gegn Everton strax á sunnudag og yfirleitt hefur Chelsea gengið illa í kjölfar útileikja í Evrópudeildinni á þessu tímabili.

Ég á ekki von á auðveldum leik. Sarri kvartaði yfir að völlurinn væri í slæmu ásigkomulagi og og slíkt hentar okkar mönnum afar illa því við viljum jú láta boltann ganga mikið á milli manna. Ég ætla að spá baráttusigri, 1-0, þar sem Giroud heldur áfram góðri spilamennsku sinni í Evrópudeildinni.

KTBFFH


bottom of page