Chelsea gera sér ferð á suðurströnd Englands núna á miðvikudagskvöld til að spila gegn Bournemouth. Leikurinn hefst stundvíslega kl 19:45.
Leikmannamál
Þar sem janúarglugginn er ennþá opin þá skulum við kíkja aðeins á það helsta sem er að frétta af Chelsea. Stóra Hudson-Odoi málið virðist vera til lykta leitt, í bili að minnsta kosti. Beiðni "CHO" um sölu frá Chelsea var einfaldlega hafnað og mun hann vera leikmaður Chelsea fram á sumar hið minnsta. Vonandi fær hann fullt af spiltíma, sér ljósið og krotar undir nýjan langtíma samning við Chelsea.
Victor Moses er farinn frá Chelsea, Fenerbache tóku hann á lánssamningi. Sömu sögu er að segja um Alvaro Morata sem er farinn á 18 mánaða lánssamning til Atletico Madrid. Gary Cahill og Danny Drinkwater eru enn að leita sér að félögum en það virðist hins vegar ganga hálf brösulega. Það er orðið ansi ólíklegt að Chelsea bæti við sig miðjumanni þar sem hinn argentíski Leandro Paredes er genginn til liðs við PSG í Frakklandi. Sarri vill fá einn miðjumann í viðbót en líklega mun hann þurfa að þjálfa Kovacic og Ampadu í að vera "regista" í fjarveru Jorginho.
Bournemouth
Eddie Howe heldur áfram að vinna litla kraftaverið sitt í Bournemouth. Liðið siglir lygnan sjó í 12. sæti með 31 stig en eru aðeins fjórum stigum frá 7.sætinu. Howe hefur sett saman virkilega öflugt lið sem er með skemmtilega og hæfileikaríka leikmenn innanborðs eins og Callum Wilson, Ryan Fraser, Josh King, Natan Ake og hinn efnilega David Brooks. Allt leikmenn sem eru góðir úrvalsdeildar spilarar.
Bournemouth vann góðan sigur á West Ham í síðustu umferð en höfðu fram að þeim leik tapað 3 af síðustu fjórum leikjum. Þeirra hættulegasti maður er framherjinn Callum Wilson, hann hefur spilað frábærlega, er með 10 mörk í 21 leik og var meira að segja orðaður við Chelsea í þessum janúarglugga. Bournemouth voru samt ekkert á þeim buxunum að selja sinn besta mann og hentu 70 milljón punda verðmiða á kappann.
Chelsea
Núna hefur Sarri fengið flest alla sína leikmenn til baka úr meiðslum, það verður því áhugavert að sjá hverjir byrja inn á í leiknum í kvöld. Ég held að Sarri velji Emerson á kostnað Alonso og að Jorginho, Kanté og Kovacic verði á miðjunni - ég vonast samt eftir að sjá Loftus-Cheek á miðjunni en efast samt um það.
Higuain mun pott þétt leiða línuna í fyrsta skipti í ensku Úrvalsdeildinni og Hazard fer á sinn stað á vinstri vænginn. Spurningin er bara hver verður með þeim félgöum. Ég ætla að tippa á að það verði Willian og að Pedro og Hudson-Odoi verði báðir á bekknum. Ef ég fengi að ráða myndi ég spila "H-H-H" framlínunni (Hudson-Odoi - Higuain - Hazard) en maður fær ekki allt í þessum heimi, því miður.
Spá
Bournemouth eru þekktir fyrir a taka sénsa og sækja á sínum Dean Court heimavelli. Eins og fyrr segir hafa þeir flotta leikmenn innanborðs og verður þetta því erfiður leikur. Það er samt léttara andrúmsloft yfir okkar mönnum núna, sérstaklega eftir góða sigra í síðustu tveimur leikjum.
Spái 1-2 sigri okkar manna þar sem Higauin opnar markareikning sinn fyrir Chelsea Football Club.
KTBFFH