top of page
Search

Heimsókn á Emirates leikvanginnÁ morgun fer Chelsea í stutta ferð yfir til norður lundúna á Emirates völlinn að leika gegn Arsenal í 23. umferð ensku Úrvalsdeildarinnar. Leikurinn hefst kl 17:30 og er sýndur á Stöð 2 Sport.

Leikmannaglugginn

Ég var að vonast til þess að gera skrifað um komu Gonzalo Higuain til Chelsea og að hann væri til taks í leiknum á morgun en svo er ekki. Það er framherjakapall í gangi milli nokkurra félaga en í stuttu máli vill AC Milan ganga frá kaupunum á Krzysztof Piatek áður en þeir samþykkja að láta Higuain til Chelsea. Þegar Chelsea fær svo loksins sinn mann mun Chelsea leyfa Morata að fara til Atl Madrid. Þannig þetta hangir allt á því að AC Milan og Genoa klári sín mál hratt og vel. Vonum það besta.

Chelsea er líka áfram orðað sterklega við miðjumanninn Leandro Paredes hjá Zenit en nýjustur fregnir herma að PSG er komið inn í myndina og vilja reyna tryggja sér þjónustu kappans - sjáum hvernig það fer.

Arsenal

Eftir góðan fyrsta þriðjung af tímabilinu hefur hallað all hressilega undan fæti hjá Unai Emery. Arsenal eru sem fyrr frábærir í sókn, slakir í vörn og einn af lykilmönnum þeirra er að renna út á samningi og neitar að skrifa undir nýjan - það má því með sanni segja að andar Wenger svífi enn yfir vötnum hjá Arsenal. Við þetta bætist svo hið kalda stríð sem Emery á við launahæsta leikmann liðsins, Mesut Özil. Özil er sem stendur í frystikistunni og er Emery sagður óánægður með framlag kappans til að reyna aðlaga sig að nýjum leikstíl Arsenal.

Arsenal tapaði síðasta leik nokkuð óvænt gegn West Ham og hafa núna aðeins unnið 2 leiki af síðustu 5 í deildinni. Þeir sitja í 5. sæti með jafn mörg stig og Man Utd og eru 6 stigum á eftir okkar mönnum - þeir verða því helst að vinna leikinn á morgun til að saxa niður forskot okkar manna.

Þó að Arsenal hafi ekki verið að spila sinn besta bolta upp á síðkastið hafa þeir aðeins tapað einum leik á Emirates og það var gegn Man City í fyrstu umferðinni. Þeir hafa líka á að skipa gríðarlega góðri sóknarlínu sem getur skorað mörk að vild þegar leikmenn eins og Aubameyang, Lacazette og Iwobi eru á sínum besta degi. Menn verða því að nálgast þennan leik á réttan hátt og sýna Arsenal þá virðingu sem þeira eiga skilið. Að því sögðu er vörnin þeirra einfaldlega slök og leikmaður eins og Hazard á að geta tætt hana í sig þegar réttu færin gefast.

Chelsea

Þar sem Higuain verður ekki mættur til leiks eru allar líkur á að Sarri muni notast við Hazard, Willian og Pedro sem sína fremstu menn.


Það virkaði ágætlega gegn Newcastle en í þeim leik skoruðu einmitt Pedro og Willian mörk Chelsea. Sarri sagði að bæði Giroud og Morata væru klárir í leikinn en gaf í skyn að þessir óvissutímar með Morata væru honum erfiðir. Margir vilja sjá Hudson-Odoi byrja leikinn en ég er ekki svo viss, ég held að sarri notist við reynsluna.

Kovacic verður svo áfram þriðji maðurinn á miðjunni með þeim Kanté og Jorginho og vörnin er ætíð sú sama. Sarri er íhaldssamur.

Spá

Bæði lið vilja pressa, bæði lið vilja halda í boltann og bæði eru langt því að vera fullkomin. Mig dreymir um að sjá okkar menn gjörsamlega labba yfir Arsenal líkt og Liverpool gerði um daginn með stórkostlegri hápressu og miklum látum en ég held að sú verði ekki raunin. Ég ætla spá skemmtilegum fótboltaleik sem því miður endar 1-1 eftir að Chelsea mun brenna af nokkrum færum.

Vonast innilega að Sarri og co. troði sokk upp í mig eftir þessa spá - sjáum hvað setur.

KTBFFH


bottom of page