Chelsea mætir Burnley á morgun sunnudag kl. 13.30. Leikurinn er ekki sýndur á Stöð 2 og heldur ekki á Sky þannig að menn verða að horfa á hann á Bein Sport 2 eða NBC Sport. Eftir léttan sigur okkar manna í Evrópudeildinni á fimmtudag þar sem mjög breytt lið okkar sá um að klára dæmið ætti ekki að vera nein Evrópudeildar þynnka til staðar á morgun eins og oft hefur verið. Einungis fjórir reglulegir byrnjunarliðsmenn spiluðu þann leik, Kepa, Kovacic, Willian og Giroud.
Burnley var einnig þátttakandi í Evrópdeildinni en féll út í undankeppninni gegn gríska liðinu Olympiakos. Þessi undankeppni tók talsverðan toll af liðinu í byrjun Úrvalsdeildarinnar og gekk fátt upp hjá þeim til að byrja með. Þeir hafa hins vegar verið að ná vopnum sýnum að undanförnu og eru sem stendur í 14. sæti með 8 stig. Þeir fengu slæman 5-0 skell gegn Man. City í síðasta leik en voru samt lengi vel inni í leiknum, annað markið kom ekki fyrr en á 54. mín. og síðan komu 2 mörk í lokin. Liðið er hins vegar allt annað á Turf Moor og er ljóst að við þurfum að búast við erfiðum leik. Burnley getur væntanlega teflt fram sínu sterkasta liði fyrir utan Aaron Lennon sem er meiddur og einn þeirra mikilvægasti maður Robbie Brady er klár í slaginn eftir meiðslu og svo þarf að sjálfsögðu ekki að minnast á besta mann Burnley það sem af er tímabilinu, Jóa Berg, en við skulum vona að hann hafi sig hægan á morgun. Hjá okkar mönnum eru allir kárir nema Ethan Ampadu og síðan er Hazard tæpur í bakinu og verður staðan á honum tekinn fyrir leik, mögulega verður hann á bekknum og látinn koma inn á ef þörf er á. Mesta spennan er væntanlega hvað Sarri gerir með þriðja manninn á miðjunni við hliðina á Kante og Jorginho. Loftus-Cheek stimplaði sig rækilega inn gegn BATE á fimmtudag með þrennu og afbragðsleik að auki. Einnig er spurning hvort Morata fær annan séns en Giroud spilaði allan leikinn. Ég ætla að spá liðinu svona:
Verði þetta raunin erum við með Hazard, Loftus-Cheek, Kovacic, Giroud og fleiri klára á bekknum ef þörf krefur sem er býsna gott.
Burnley eru feykilega vel skipulagðir og því lengur sem þeir halda okkur í "núllinu" því meiri trú fá þeir á sjálfum sér. Það er verulega áhugavert að skoða alla tölfræðiþætti í kringum Burnley liðið, þeir halda boltanum hvað minnst innan liðsins af öllum liðum í deildinni sem gerir það að verkum þeir tölfræðiþættir eins og hreinsanir, tæklingar og skot fengin á sig eru með því mesta sem gerist í deildinni. Þannig nálgast þeir leikinn og í raun má segja að Burnley líður vel undir pressu.
Ætla að spá okkur 0-2 sigri í en það verður í hörkuleik. Pedro og Hazard skora mörkin.
Áfram Chelsea