top of page
Search

Upphitun: Heimsókn til West Ham


Það má segja að Antonio Conte hafi teflt djarft í miðri viku gegn Atl. Madrid. Þar stillti hann upp nánast okkar sterkasta liði og spilaði öllum okkar lykilmönnum í von um að sigra leikinn og hirða efsta sætið í C riðli Meistaradeildar Evrópu. Þetta mistókst. Eftir á að hyggja hefði því Conte getað hvílt menn eins og Hazard, Morata og Fabregas og fengið í versta falli sömu niðurstöðu, 2. sætið í riðlinum. Þetta er auðvitað mikil einföldun, Chelsea voru alveg svakalegir klaufar gegn Atletico Madrid og hefðu átt að sigra leikinn með 3-4 mörkum. Þess í stað vorum við ekki nægilega klínískir fyrir framan mark andstæðinganna og því fór sem fór.

Heilt yfir var leikurinn gegn Atletico góður, sé horft til heildarspilamennsku liðsins. Því má ekki gleyma að andstæðingurinn var ógnarsterkur, jafnvel þó Atl Madrid hafi ekki verið upp á sitt besta í vetur. Þeir eru samt sem áður alvöru fótboltalið sem við yfirspiluðum á löngum köflum leiksins. Það er ágætis vitnisburður um getu okkar manna.

Leikurinn gegn West Ham

Ég ætla að spá liðinu gegn West Ham svona:


Það er vitað að David Luiz er frá vegna meiðsla og að Danny Drinkwater sé með flensu. Þessir tveir verða því utan hóps skv. nýjustu tíðindum. Sumir miðlar greina frá því að Morata gæti verið hvíldur í þessum leik og þá myndi Batshuayi taka stöðu hans sem fremsti maður.

Stóra spurningin er hvort Conte breyti aftur í 3-4-3 eða haldi áfram með 3-5-2. Persónulega held ég að fyrri kosturinn væri málið í þessum leik, Pedro virkaði sprækur er hann kom inn í leikinn sem varamaður gegn Atletico og er óþreyttur. Ef 3-5-2 verður fyrir valinu þá mun Bakayoko væntanlega byrja leikinn á kostnað Pedro.

Ég hef tekið eftir nokkuð hvassyrtri gagnrýni á Bakayoko undanfarið. Ég tek heilshugar undir að spilamennska hans hefur ekki verið eins og best verður á kosið upp á síðkastið en mér finnst þessir sleggjudómarnir örlítið of harðir. Bakayoko hefur, að mínu viti, sýnt að hann á heima í þessu liði og spilaði t.d. frábærlega gegn Man Utd á dögunum.

Bakayoko kemur líka með nokkra nýja hluti inn í leik Chelsea, hann getur borið boltann upp miðjuna og þannig losað hina svokölluðu fyrstu pressu, eitthvað sem bæði Kante og Fabregas eiga erfitt með að gera. Hann er líka mjög öflugur tæklari og staðsetur sig vel varnarlega. Hann er samt ennþá nokkuð hrár og þarf að vinna með fókusinn hjá sér, hann á það nefnilega til að sofna á verðinum og verður að bæta færanýtinguna sína. Ég hef trú á Bakayoko.

West Ham

Mótherjar okkar eru í tómum skítamálum í deildinni. Það var bjartsýni hjá mörgum West Ham mönnum fyrir leiktíðina. Liðið fékk til sín flotta leikmenn eins og Chicarito, Joe Hart, Arnautovic og Zabaleta - allt reynslumiklir spilarar með góða ferilskrá. Liðið hefur engan veginn fundið taktinn, og er sem stendur í 19. sæti með 4 töp í síðustu 5 leikjum. Það sem verra er, liðið ber þann vafasama heiður að vera búið að fá á sig flest mörk í deildinni, 32 talsins.

Eigendur félagsins, Gold og Sullivan brugðu á það ráð að reka Slaven Bilic við upphaf Nóvember mánaðar, í stað hans kom enginn annar en David Moyes. Sá kappi má muna fífil sinn fegurri, hefur farið úr því að vera handvalinn arftaki Sir Alex Ferguson yfir í að falla með Sunderland á síðustu leiktíð. Persónulega finnst mér þetta galin ráðning og kæmi mér ekki á óvart ef Moyes yrði ekki lengi í starfi hjá West Ham.

West Ham spilaði reyndar hörkuleik við Man City um liðna helgi þar sem þeir voru hreinlega óheppnir að fá ekki jafntefli úr leiknum. Sá leikur segir manni að Moyes sé fyrst og síðast að hugsa um að laga varnarleikinn enda annað varla hægt.

Spá

Það er þetta klassíska, ef Chelsea spilar eitthvað nálægt sinni eigin getu eigum við að rúlla þessum leik upp. Við sögðum hins vegar það sama gegn Crystal Palace þar sem við töpuðum fyrir þá langlélegasta liði deildarinnar. Swansea veitti okkar mönnum verðuga mótspyrnu og er ég skíthræddur um að svipaður leikur muni eiga sér stað í hádeginu á morgun. West Ham munu reyna vera álíka þrjókir og gegn Man City og það versta sem gerist er að hleypa þeim í forystu. Ef Hazard heldur áfram að sýna sínar bestu hliðar hef ég takmarkaðar áhyggjur af þessum leik, á sínum degi á hann að rífa þeta West Ham lið í tætlur, einn síns liðs. Vonum að svo verði.

Spái 1-2 sigri okkar manna í hörku leik þar sem við klúðrum fullt af dauðafærum (hljómar þetta kunnulega?)

KTBFFH


bottom of page