top of page
Search

Heimsókn til Bournemouth


Ég minni á aðalfund Chelsea klúbbsins á Íslandi sem verður haldinn í Hvammi á Grand Hótel Reykjavík laugardaginn 28. október kl. 14:30. Auk lögboðinnar dagskrár aðalfundar verður m.a. dregið í happdrættum Chelsea klúbbsins. Leikur Chelsea og Bournemouth er svo sýndur í kjölfarið. Líf og fjör.

Chelsea hafa verið að rétta úr kútnum í undanförnum tveimur leikjum, leikurinn gegn Watford var þó langt því frá sannfærandi, varnarleikur liðsins var á köflum skelfilegur. Þökk sé Batshuahyi tókst okkar mönnum að sigra leikinn 4-2 og minnka þá pressu sem hafði byrjað að myndast í kringum liðið og Antonio Conte. Azpilicueta hafði orð á því í vikunni að Chelsea væri í augnablikinu búið að missa þennan svokallaða “fear-factor”, þ.e. að lið óttist Chelsea ekki í augnablikinu. Það er efluast mikið til í þessu því Watford voru á köflum að yfirspila Chelsea og það á Stamford Bridge. Það sem gerði útslagið fyrir Chelsea í Watford leiknum var þegar Conte breytti úr 3-4-3 leikkerfinu yfir í 4-4-2. Batshuahyi spilaði þá í fremstu víglínu með Hazard og Pedro og Willian voru á vængjunum. Watford var greinilega ekki undirbúið undir þessa breytingu og riðlaðist varnarskipulag þeirra í kjölfarið. Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé eitthvað sem Conte ætti að skoða frekar, að vera sveigjanlegri með leikkerfi og bregðast hraðar við þegar illa gengur. Ég held að Chelsea muni alltaf eiga í erfiðleikum að spila 3-4-3 gegn sterkum liðum þegar N’Golo Kanté nýtur ekki við. Hann er hjartað í liðinu þegar kemur að þessu leikkerfi og enginn leikmaður í hópnum kemst nálægt því að geta gefið liðinu sömu orku, yfirferð og stöðugleika eins og hann gerir. Þessu til stuðnings er einfaldast að benda á að Fabregas og Bakayoko hafa einfaldlega tapað þeim miðjubaráttum sem þeir hafa háð saman, hvort sem það er gegn Crystal Palace eða Watford.

Leikurinn gegn Everton í miðri viku var svo klassískur deildarbikarsleikur þar sem Chelsea gaf þeim leikmönnum sem hafa minna spilað tækifæri. Kenedy, Musonda og co. fengu loksins leik og er það mikilvægt. Það var afskaplega gaman að sjá Danny Drinkwater loksins spila fótbolta – held að muni nýtast okkur betur en margan grunar. Að lokum var svo frábært að sjá hinn 17 ára gamla Ampadu (sem er nauðalíkur David Luiz) spila eins og herforingi á miðjunni í 90 mínútur. Það að geta spilað svona leik á þetta háu stigi aðeins 17 ára gamall er vitnisburður um hversu efnilegur þessi piltur er. Hlakka til að fylgjast með honum á næstunni.

Lið Bournemouth

Liðið á suðurströndinni er búið að ströggla töluvert það sem af er tímabili. Liðið er í 19. sæti og hafa aðeins unnið tvo leiki af níu. Liðið vann þó sínn síðasta leik og það á erfiðum útivelli gegn Stoke. Hinn ungi stjóri Eddie Howe mun þurfa að taka á honum stóra sínum á þessu tímabili, hann þarf að finna þann stöðugleika sem Bournemouth voru með á síðasta tímabili, ef það gerist ætti liðið að ná að forðast fallsætin sem er markmiðið þeirra.

Chelsea og Bournemouth hafa átt í þó nokkrum viðskiptum undanfarið og keytpu þeir bæði Natan Ake og Asmir Begivic af okkar mönnum síðasta sumar. Eddie Howe vill láta sitt lið spila alvöru fótbolta þar sem liðið leggur sig fram við halda boltanum innan liðsins og að spila nokkuð flæðandi sóknarleik. Það má þó búast við þeim nokkuð varnarsinnuðum gegn okkur á laugardag. Varðandi taktík að þá hafa þeir verið að prófa sig áfram í þriggja manna vörn en hafa undanfarið spilað klassískt 4-4-1-1 leikkerfi. Þeir eru búnir að missa nokkra lykilmenn í meiðsli og þegar þetta er skirfað ber miðlum ekki saman um hvort leikmenn eins og Joshua King, Jermain Defoe og Ryan Fraser verði heilir heilsu. Fari svo að þessir menn verði frá vegna meiðsla er þetta hér líklegt byrjunarlið:


Chelsea

Ég ætla að spá liði Chelsea svona:


Fyrir mér er helsta spurningin hvort Zappacosta fái traustið eða hvort Azpilicueta verði áfram vængbakvörður eins og gegn Watford. Ef Zappacosta verður í liðinu verður það á kostnað Rudiger þar sem „Dave“ myndi þá færast niður í vörnina.

Ég vil sjá nokkra leikmenn Chelsea stíga upp í þessum leik. Helst ber þar að nefna leikmenn eins og Fabregas og Hazard. Þetta eru þeir leikmenn sem hafa mestu sköpunargáfuna í liðinu okkar og þegar þeir spila vel þá er mjög erfitt að verjast Chelsea. Hazard hefur tekið sinn tíma í að koma aftur og er greinilegt að leikformið er ekki komið alveg til baka, ég vil sjá kappann taka þennan leik svolítið yfir og senda skilaboð inn í næstu leiki. Einnig þarf vörnin að fara girða sig í brók. Það sem skapaði hina miklu 13 leikja sigurgöngu á síðasta tímabili var að liðið byrjaði að halda markinu hreinu, leikmenn eins og Dave, David Luiz og Marcos Alonso spiluðu óaðfinnanlega – þeir verða finna aftur það form.

Það sem ég óttast er að Bournemouth muni halda áfram að gera það sem undanfarnir andstæðingar okkar hafa gert, þ.e. að pressa okkur mjög hátt á vellinum, trufla þannig uppspilið og taka allan takt úr leik Chelsea. Þetta hefur verið raunin alveg frá því Man City gerði þetta í lok september. Það sem verra er, liðin virðast vera búin að kortleggja sendingar mynstrið okkar og því orðið auðveldara að verjast okkur, þetta hefur mér þótt sérstaklega áberandi í leik Marcos Alonso, hann er ekki að fá neinn tíma eða neitt svæði á boltanum. Antonio Conte er mjög skipulagður og fastheldinn þjálfari, ég held að núna sé rétti tíminn til að prófa eitthvað nýtt í okkar leik, hvort sem það er að fikta eitthvað leikkerfinu okkar eða eindaldlega prófa nýjar leiðir eins og meiri hápressu eða öðruvísi uppspil.

Þar sem Tottenham og Man Utd mætast innbyrðis þessa er kjörið tækifæri fyrir okkur að saxa niður það forskot sem þessi lið hafa á okkur og reyna koma okkur nær 2-3 sætinu. Koma svo!

KTBFFH


bottom of page