top of page
Search

Upphitun – Everton kemur í heimsókn


Byrjum þessa upphitun á smá útúrdúr – það var dregið í riðla í meistaradeildinni á fimmtudag og var þetta niðurstaðan:


Alls ekki auðveldasti drátturinn að þessu sinni. At. Madrid eru alltaf mjög sterkir í Evrópu og Rómverjar verða ekkert lamb að leika sér að. Qarabag er auðvitað óskrifað blað en það er ekkert sérlega eftirsóknarvert að fara alla leið til Azerbaijan. Þetta hefði samt getað verið verra og ef okkar menn spila á réttri getu erum við alltaf að fara lenda í öðru af tveimur efstu sætunum. Verður gaman að fá meistaradeildarkvöldin aftur á Stamford Bridge.

Leikurinn

Vinnusigurinn gegn Spurs í síðustu umferð mun klárlega gefa okkar mönnum byr undir báða vængi. Maður hefur á tilfinningunni að nú sé tímabilið að byrja fyrir alvöru. Leikmenn unnu saman sem lið og var greinilegt að hver einasti leikmaður inni á vellinum var að fara eftir skipulaginu sem sett var upp fyrir leikinn. Einnig sáum við breytingu á Antonio Conte a hliðarlínunni, mættur í jakkafötin og sparkandi í hvern einasta bolta með liðinu. Næsti leikur í deildinni er gegn Everton á Stamford Bridge. Mikilvægt er að taka þrjú stig úr þessum leik svo við getum farið þokkalega sáttir inn í landsleikjahléið.

Andstæðingurinn

Liðið sem búið er að vera hvað virkast á leikmannamarkaðnum í sumar. Nýir fjárfestar hafa komið með mikla fjármuni inn í félagið, sem hefur gert Everton að mjög samkeppnishæfu liði á leikmannamarkaðnum og um leið inni á vellinum. Leikmenn á borð við Michael Keane og Jordan Pickord munu án nokkurs vafa styrkja liðið og ekki skemmir fyrir að þetta eru framtíðarleikmenn enska landsliðsins. Davy Klassen kom fra Ajax, leikmaður sem ég er ekki alveg sannfærður um að sé allra peningana virði. Svo er ekkert að hjálpa honum að vera nauða líkur Steven Naismith í útliti. Týndi sonurinn, Wayne Rooney, er kominn til baka og virðist vera 3-4 kg léttari andlega því hann hefur verið mjög ferskur, hann hefur skorað bæði mörk Everton í fyrstu tveimur leikjunum í deildinni. Svo að lokum er það auðvitað saga sumarsins, Gylfi Þór Sigurðsson. Það að Bill Kenwright var til gera Gylfa að langdýrasta leikmanni í sögu Everton sýnir hversu mikilvæg félagaskipti þetta eru fyrir Everton - það á að byggja liðið í kringum kappann. Gylfi byrjaði á bekknum í sínum fyrsta leik á móti Man City, en var svo í byrjunarliðinu gegn Hadjuk Split í Evrópudeildinni þar sem hann skoraði magnað mark af ca. 40 metra færi. Það verður að teljast líklegt að Gylfi byrji leikinn gegn Chelsea.

Everton ætlar sér stóra hluti á næstu árum og er liðið að gæla við meistaradeildarsæti. Metnaðarfullt, en líklega eru þeir ekki nægilega sterkir til að brjótast inn í topp fjóra. Það vantar a.m.k. einn heimsklassa framherja svo liðið fari að slást á þeim vettvangi, þeir hafa ekki fyllt skarð Lukaku nema að takmörkuðu leiti með kaupunum á Sandro og svo Rooney. Persónulega vona ég að þetta Everton lið eigi ágætis tímabil, ég er líklega ekki einn um að vonast til þess að Everton verði ofar í töflunni af liðunum tveimur í Bítlaborginni.

Ég spái því að byrjunarlið Everton verði svona:


Lið Everton

Þeir munu klárlega sakna Morgan Schneiderlin sem fékk rautt spjald í leiknum gegn Man City. Calvert-Lewin er sprækur leikmaður með góðan hraða sem hefur verið að byrja fyrstu leikina þar sem Sandro hefur verið meiddur. Everton hafa mikinn kraft á miðsvæðinu í Idrissa Gueye sem sló í gegn á síðasta tímabili. Ég á svo von á að Klassen komi inn á miðjuna fyrir Schneiderlin, ef hann er heill. Ef Klassen er meiddur mun Tom Davies væntanlega byrja á miðjunni. Everton eru vanalega mjög þéttir til baka og geta verið mjög „direct“ – sérstaklega þegar þeir spila gegn einum af toppliðiunum. Þeir spila með þéttan varnarmúr og eru öftustu þrír miðverðirnir þeirra allt flottir leikmenn. Það verður hvorki auðvelt brjóta þetta lið niður né halda þeim skefjum. Mér finnst líklegt að Everton hleypi okkur fram á miðju í uppspilinu hjá okkur og liggi þannig með svokallaða „low block“ með það að markmiði að reyna sækja hratt í svæðin fyrir aftan Moses og Alonso. Þeir eru samt sprækir í að halda boltanum, tilkoma Gylfa mun líka hjálpa til á þeim vettvangi.

Chelsea

Ég spái byrjunarliði Chelsea svona:


Lið Chelsea

Þó svo að frammistaðan gegn Spurs hafi verið frabær á flesta vegu, þá var hún einnig mjög varnarsinnuð. Í leiknum á sunnudaginn mun Conte þurfa að nálgast leikinn með sóknarsinnaðra upplegg í huga. Hazard er að fara spila með U-23 ára liði Chelsea til að ná upp leikformi og er því útilokað að hann muni taka einhvern þátt í leiknum gegn Everton. Pedro er augljós kostur til að koma inn með aukinn sóknarþunga, svo framarlega sem hann er klár í slaginn. Það yrði þá á kostnað Rudiger eða Christensen – ég vonast eftir því að Daninn ungi fái traustið, það er bara spurning hvort Conte treysti honum til að spila vinstra meginn í vörninni. Luiz færi aftur í miðja vörnina, stöðuna sem hann spilaði frábærlega á síðustu leiktið.

Bakayoko og Kante ættu að byrja leikinn á miðjunni, þó svo að Fabregas sé að snúa til baka úr leikbanni. Conte vill hafa miðjuna þétta og líkamlega sterka, sérstaklega á móti sterkari liðum deildarinnar. Svo var slúðursaga um að Conte hefði verið mjög ósáttur með Fabregas í Burnley leiknum fyrir að missa hausinn og láta reka sig útaf – mögulega verður hann því í skammarkróknum. Bakayoko heillaði mig gegn Spurs þó svo að hann væri orðinn ansi þreyttur undir lokinn, skiljanlega, enda nýstiginn upp úr meiðslum.

Moses og Alonso (cult hero) verða að sjalfsögðu á sínum stað í vængbakvarðastöðunum. Eins og kom fram hér að ofan þá tel að Pedro komi inn í liðið og Conte fari í sama leikkerfi og vann okkur titilinn á síðustu leiktíð. Morata set ég upp á topp þó svo að hann hafi átt erfitt uppdráttar gegn Spurs, enda rosalegar mannætur í vörn Tottenham. Fyrst að hann gat tekið Alderweireld á sprettinum á sunnudaginn, leikmaður sem er alls ekki hægur, þá ætti hann að geta tekið Ashley Williams og co. á sprettinum

Erfiður leikur

Þetta verður alvöru leikur á móti Everton á sunnudaginn. Það eru komin mikil gæði í lið gestanna svo það skal enginn vanmeta þá. Ef okkar menn mæta með hausinn rétt stilltann frá fyrstu mínútu líkt og gegn Spurs þá ættum vid að landa þremur stigum á sunnudaginn. Það er mikilvægt að heimaleikjaformið sé í toppstandi ef við ætlum okkur að vera í toppbaráttunni í vetur. Leikir eins og gegn Burnley eiga ekki ekki að sjást á Stamford Bridge.

Spái 2-1 sigri, Morata og Pedro með mörkin.

Blue is the Colour!

Kveðja,

Sigurður Torfi Helgason


bottom of page