Chelsea vann góðan og sanngjarnan sigur á Everton í gærkvöldi. Leikar enduðu 2-0, sem gefur ekki endilega rétta mynd af leiknum, því yfirburðir okkar manna voru mjög miklir. Fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós á 31' mín þegar Hudson-Odoi átti góða sendingu á Marcos Alonso sem átti síðan frábæra fyrirgjöf á Kai Havertz, Þjóðverjinn náði stýrði boltanum beinustu leið í Ben Godfrey, varnarmann Everton, og beint í netið. Mjög gott mark og gott flæði í sóknarleiknum.
Yfirburðir Chelsea voru miklir í leiknum og fengu gestirnir varla færi. Það var því fullkomlega sanngjarnt þegar Jorginho jók forystuna í 2-0 á 65' mínútu eftir að Kai Havertz stakk sér inn fyrir vörn Everton og Jordan Pickford tók hann niður. Chelsea áttu nokkur góð færi það sem eftir lifði leik, sér í lagi Timo Werner sem hefði á góðum degi getað skorað þrennu. Allt í allt var þetta virkilega vel spilaður leikur og sigurinn verðskuldaður.
xG bardaginn
Umræðupunktar
Eins og sést hér að ofan setti bragðarefurinn Thomas Tuchel met í gærkvöldi, hann er fyrsti stjórinn í sögu ensku Úrvalsdeildarinnar til þess að að halda hreinu í fyrstu fimm heimaleikjum sínum.
Kai Havertz átti sinn besta leik fyrir Chelsea, amk í ensku Úrvalsdeildinni - mikið var gaman að sjá hann í þessum leik.
Vá hvað ég er spenntur að sjá Havertz spila þarna frammi með Mount, þá fyrst gæti sóknarleikurinn sprungið út hjá okkur!
Jorginho er öruggur á punktinum - þetta var hans sjötta mark í deildinni - hann er markahæsti leikmaður liðsins, sem út af fyrir sig segir til um hversu slakir framherjar okkar hafa verið.
Andstæðingar okkar virðast hreinlega ekki finna leiðir að markinu gegn okkur - enn og aftur magnaður varnarleikur.
Einkunnur leikmanna
Edourard Mendy - 7: Greip vel inn í leikinn þegar þess þurfti og varði fínt skot frá Gomes. Það segir til um andlegan styrk Mendy að hann er að standa sig mjög vel á sínu fyrsta tímabili í krefjandi deild með toppliði.
Kurt Zouma - 7: Óvænt í byrjunarliðinu á kostnað Rudiger og komst vel frá sínu. Er ekki eins öruggur á boltann og Rudi en vinnur það upp með líkamlegum styrk og hraða.
Andreas Christensen - 8: Enn ein frábæra frammistaðan hjá Danska Prinsinum sem er búinn að sokka hvern stuðningsmann Chelsea á fætur öðrum - þar með talið mig sjálfan.
Cesar Azpilicueta - 7: Mjög örugg frammistaða hjá Azpi. Eftir leik hrósaði Tuchel fyrirliðanum í hástert og sagði hann framúrskarandi atvinnumann sem væri sannur leiðtogi innan vallar sem utan.
Reece James - 7,5: Frábær leikur hjá enska bakverðinum. Hann var í sínu "beast mode" stuði og kjötaði hvern Everton manninn á fætur öðrum ásamt því að vera hættulegur fram á við.
Marcos Alonso - 7,5: Þessi leikur hentaði Alonso fullkomlega, gat einbeitt sér að því að sækja og þurfti ekki að hafa miklar áhyggjur af sóknum gestanna. Átti risa þátt í fyrsta markinu og hefði svo getað skorað annað mark sjálfur í fyrri hálfleik.
Jorginho - 7,5: Markahæsti maður liðsins stóð sig með prýði í þessum leik, er að spila sinn besta bolta í langan tíma og augljóst að Tuchel treystir á Ítalann knáa.
Mateo Kovacic - 7,5: Sendingin hjá Kovacic á Havertz í aðdraganda vítaspyrnunnar var ekkert minna en stórkostleg. Tapaði boltanum 2-3 á en bætti það jafnan upp með frábærri pressu á miðjunni.
Hudson-Odoi - 7,5: Flott frammistaða hjá CHO, var að spila sínu bestu stöðu, vinstra megin á vellinum. Er stór partur af plönum Tuchel.
Kai Havertz - 8,5: Loksins stimplaði Havertz sig inn í ensku Úrvalsdeildina. Átti þátt í báðum mörkunum og var sífellt ógnandi á "milli línanna" og virkilega góður að finna sér svæði á vellinum. Hann var líka harður af sér og lét ekki hirða af sér boltann eins og oft áður. Vinsamlegast halda þessu áfram! Maður leiksins.
Timo Werner - 6: Turbo Timo kom sér í færin og barðist ágætlega. En hann verður að fara nýta þessi færi og skora mörk.
Varamenn
Mason Mount - 7: Kom með kraft og dugnað í sóknina og lagði upp dauðafæri á Werner.
Kante - Spilaði of stutt til að fá einkunn.
Pulisic - Spilaði of stutt til að fá einkunn.
KTBFFH
- Jóhann Már
Comments