top of page
Search

Undirbúningstímabil og leikmannaslúður - styttist í fyrsta leik!Evrópumeistarar Chelsea eru byrjaðir að undirbúa sig fyrir komandi átök. Hluti af leikmannahópnum kom saman 12. júlí, þar voru alls 28 leikmenn samankomnir og ljóst að mikill meirihluti þeirra leikmanna munu ekki vera áfram hjá félaginu. Leikmenn eins og Drinkwater, Musonda, Zappacosta, Baba Rahmann og Miazga voru allir mættir, enn og aftur, á undirbúningstímabilinu bíðandi eftir næsta lánssamningi eða tilboði frá öðru félagi.


Leikmenn munu hægt að bítandi týnast saman eftir EM og Copa America en það er alveg ljóst að þeir sem fóru lengst í mótunum (Mount, James, Jorginho, Emerson og T.Silva) munu fá a.m.k. þriggja vikna sumarfrí - þannig þeir mæta ekki til æfinga fyrr en í kringum mánaðarmótin júlí/ágúst.


Hvaða leikmenn eru farnir ?

Chelsea eru það lið sem hafa verið að selja sem flesta leikmenn. Eins og við var að búast gekk Fikayo Tomori til liðs við AC Milan á 29,2 milljónir evra. Núna um liðna helgi bárust svo fregnir af því að hinn 21 árs gamli Marc Guehi hefði verið seldur til Crystal Palace á um 23 milljónir evra. Olivier Giroud er horfinn á braut til AC Milan fyrir 2 milljónir evra og svo var Victor Moses loks seldur á 5 milljónir evra.


Þetta eru tæpar 60 milljónir evra (tölur frá Transfermarkt). Það merkilega við þetta er að Giroud er eini leikmaðurinn sem átti sæti í leikmannahópi Chelsea undir Tuchel. Þess ber þó að geta að Chelsea settu inn klásúlu í kaupsamninginn við Crystal Palace um að geta jafnað önnur boð sem berast í Guehi.


Að lokum er vert að minnast á að Billy Gilmour er farinn á lán til Norwich City.


Hvaða leikmenn eru orðaðir við Chelsea?

Stóra markmið Chelsea virðist vera að kaupa framherja! Langefstur á þeim óskalista er Erling Haaland en það ætlar að reynast þrautin þyngri að kaupa þann norska. Dortmund er klúbbur sem kann alveg að segja nei þegar svo ber undir sbr. Jadon Sancho í fyrra.


Aðrir sem nefndir hafa verið eru Lukaku, Kane og svo nýlega Lewandowski. Því miður er það ekki líklegt, eins og staðan er núna, að nokkur af þessum leikmönnum verði komnir til Chelsea þegar leikmannaglugginn lokar í september. Nýjasta nafnið til að vera orðað við Chelsea var svo Danny Ings. Frekar myndi ég bara vilja halda Tammy Abraham heldur en að sækja meiðslapésann Ings. Nægur er samt tíminn, mikið eftir að leikmannaglugganum svo maður veit aldrei.


Þar sem Billy Gilmour er farinn á lán er tæknilega séð laust pláss fyrir einn miðjumann í hópnum. Okkur dreymir um heimkomu Declan Rice en 80 milljón punda verðmiði West Ham er þar mikil fyrirstaða. Orðrómur um hinn franska Aurélien Tchouaméni hefur farið vaxandi. Sá er leikmaður Monaco og var í liði ársins í Ligue 1 á síðustu leiktíð. Hann er mjög spennandi miðjumaður, aðeins 21 árs og hvet ég fólk til þess að kynna sér hann betur.Hvaða lánsmenn geta komið inn í liðið?

Þurfum við að kaupa leikmenn? Lið sem er með einn stærsta lánsher í heimsfótboltanum. Mér finnst amk vert að kanna hvort einhverjir séu reiðubúnir að stíga inn í aðalliðið.


Conor Gallagher - Hann var frábær á láni hjá WBA í fyrra, lék heila 30 leiki í úrvalsdeildinni og var einn af fáum leikmönnum í liði WBA sem sýndu alvöru gæði. Árið þar áður var Gallagher á láni hjá Charlton og svo Swansea í Championship deildinni. Þetta eru þrjú lið á tveimur tímabilum og alltaf hefur Gallagher þótt vera einn besti maðurinn í öllum þessum liðum. Tuchel er víst hrifinn af Gallagher og ætlar að gefa honum séns á þessu undirbúningstímabili - ég er amk spenntur fyrir honum. Það væri gaman að sjá Gallagher geta sömu fótspor og Mason Mount.


Ruben Loftus Cheek - Átti frekar misheppnaða lánsdvöl hjá Fulham þar sem RLC átti að vera aðalmaðurinn en endaði með að vera inn og út úr liðinu. Fulham féllu og framtíð RLC í lausu lofti. Það er svo sorglegt að hugsa til þess að við sjáum kannski aldrei aftur þann Loftus-Cheek sem við sáum fyrir hin hræðilegu meiðsli. En Loftus-Cheek er mættur til æfinga og vill sanna sig fyrir Tuchel. Sjáum hvað setur.


Armando Broja - Er nýbúinn að skrifa undir 5 ára samning við Chelsea eftir frábæra lánsdvöl hjá Vitesse Arnhem þar sem hann skoraði 11 mörk í 30 leikjum, aðeins 18 ára gamall. Broja er mjög sjaldgæf tegund af framherja, er mjög stór (191 cm) en einnig mjög teknískur og fljótur. Tuchel hefur heillast að honum og það er vaxandi orðrómur um að hann verði partur af aðalliðshópnum á næstu leiktíð.


Ethan Ampadu - Átti frekar slakkt tímabil með Sheffield United en spilaði þó 29 leiki með liði sem var það lang slakasta í ensku Úrvalsdeildinni í fyrra. Amapdu gæti pott þétt staðið sig vel sem miðvörður í þriggja miðvarða kerfi Tuchel en spurningin er bara hvort hann sé búinn að gera nóg. Ef hann fer aftur á lán, þá þarf hann að fara sýna alvöru frammistöður.


Ross Barkley - Mér finnst ég verða að leyfa honum að vera með í þessari upptalningu. Barkley fór til Aston Villa til þess að koma sér aftur í enka landsliðið og spila alla leiki. Hann byrjaði vel, en eins og oft vill verða lenti Ross á einhverskonar djamm-vegg og var dottinn út úr liðinu. Eitthvað segir mér Tuchel hafi ekki mikinn húmor fyrir leikmanni eins og Barkley.


Leikmenn eins og Bakayoko og Zappacosta verða vonandi loks seldir og stóri draugurinn okkar, Danny Drinkwater, mun fara aftur á lán.Hvaða leiki mun Chelsea spila?

Chelsea eru þegar búnir að spila einn leik við Peterborough, en sá leikur fór fram bakvið luktar dyr. Leikurinn endaði 6-1 þar sem Peterborough komust yfir með marki úr vítaspyrnu en Pulisic, Abraham, Broja og þrenna frá Hakim Ziyech gerðu það að verkum að Chelsea vann öruggan sigur 6-1 sigur. Það eru engar upptökur frá þessum leik og meira að segja Roman Abramovich átti erfitt með að horfa á leikinn á snekkjunni sinni.


Skv. klúbbnum sjálfum eru þetta opinberir æfingaleikir liðsins. Sumir vel tengdir Twitter notendur hafa sagt að til standi að leika annan æfingaleik fyrir luktum dyrum.


v AFC Bournemouth (27.07)

v Arsenal (01.08)

v Tottenham Hotspurs (04.08)


Fyrsti opinberi leikur liðsins er svo 11. ágúst gegn Villarreal um Ofurbikarinn. Sá leikur verður leikinn á Windsor Park á Norður Írlandi svo það er stutt ferðalag í þann leik. Þremur dögum síðar mæta okkar menn svo Crystal Palace í opnunarleik ensku Úrvalsdeildarinnar.


Biðin styttist...


KTBFFH

- Jóhann Már

Comments


bottom of page