top of page
Search

Undanúrslit í bikar - Chelsea vs Man City

Keppni: Enski FA Bikarinn

Dag- og tímasetning: Laugardagurinn 17. apríl kl 16:30

Leikvangur: Wembley

Hvar er leikurinn sýndur? Stöð 2 Sport2

Upphitun eftir Jóhann M. Helgason


Vorið er skemmtilegasti tími ársins í hinum stóra heimi knattspyrnunnar. Þá gerast hlutirnir, keppnirnar eru leiddar til lykta og bikararnir fara á loft.


Það vill svo skemmtilega til að okkar ástkæra félag er ennþá að berjast á þremur vígstöðum og á ennþá góða möguleika á vinna tvo bikara. Á morgun kemur í ljós hvort Chelsea komist í úrslitaleik FA Bikarsins, en það yrði þá í tíunda sinn á þessari öld sem það myndi gerast - oftast allra liða.


Það er ekki laust við að manni fallist hendur þegar maður skoðar leikjadagskrá Chelsea næstu vikurnar. Það er leikið gríðarlega þétt og Thomas Tuchel þarf að hafa sig allan við að passa upp á leikjaálagið hjá leikmönnum til að halda mönnum ferskum og til að koma í veg fyrir meiðsli. Við ræddum það í Blákastinu í gærkvöldi að leikurinn við Brighton, sem leikinn er nk. þriðjudag, er ekki síður mikilvægur út af baráttunni um sæti í Meistaradeildinni. Það er því líklegt að Tuchel mun nýta hópinn vel og rótera í liðinu.


Það er mjög krefjandi að spá fyrir um byrjunarliðið - en ég ætla að gera mitt besta. Ég held að Tuchel gefi Kepa Arriazabalaga sæti í byrjunarliðinu. Ég er fullkomlega ósammála þeirri nálgun en spái því engu að síður. Þriggja manna miðvarðarlína mun mögulega samanstanda af þeim Kurt Zouma, Toni Rudiger og Cesar Azpilicueta. Christensen er meiddur og mögulega er of mikið að fyrir Thiago Silva að spila með svona stuttu millibili.


Thomas Tuchel staðfesti á blaðamannafundi að N'Golo Kante væri leikfær og gæti spilað leikinn en að Kovacic væri ennþá frá vegna meiðsla. Ég held því að Kante og Jorginho byrji á miðri miðjunni. Margir vildu sjá Billy Gilmour, og ég vona að Tuchel treysti honum fyrir þessu verkefni en held því miður að hann byrji á bekknum. Vængbakverðir verða svo þeir Marcos Alonso og Reece James.


Að lokum held ég að Tuchel komi svo á óvart í framlínunni. Mount, Havertz og Pulisic hafa byrjað tvo undanfarna leiki og spilað lungað úr báðum þeim leikjum. Ég ætla því að giska á að Werner, Ziyech og Tammy Abraham komi allir inn í liðið. Eflaust hef ég rangt fyrir mér varðandi Tammy og að Giroud verði þarna fremstur en maður veit aldrei. Hraði Tammy gæti nýst gegn hinni háu varnarlínu City og hann hefur skorað grimmt í FA bikarnum.



Man City

Hvað er hægt að segja um City sem hefur ekki verið sagt áður? Þetta er besta lið Englands, með besta hópinn, besta þjálfarann og eiga möguleika á að vinna fernuna - eitthvað sem aldrei hefur verið gert áður.


Hópurinn hjá City er það sterkur að það kæmi mér ekki á óvart ef Guardiola myndi gera 7-8 breytingar frá því í Meistaradeildinni. Ég held a.m.k að leikmenn eins og Sterling (sem er ekki lengur í byrjunarliðinu), Ferran Torres og Gabriel Jesus verði í framlínunni og gamla brýnið Fernandinho á miðjunni. Það er alveg spurning hvort leikmaður eins og De Bruyne fái hvíld, við skulum bara vona það, en ég held nú samt að hann verði á sínum stað í liðinu.


Jón Kristjánsson kom með góðan punkt í Blákastinu í gær þegar hann sagði að Pep væri líklegur til að spila varamarkmanni Man City, Zack Steffen. Svo kæmi það ekki á óvart ef Frakkarnir Laporte og Mendy væru í vörninni.


Fyrir mér er búið að vera aðdáunarvert að fylgjast með því hvernig Pep Guardiola hefur breytt og þróað leikstíl Man City á þessu tímabili. Þeir eru að spila allt öðruvísi en undanfarin 2-3 ár. Oftast nær spila þeir ekki með hreinræktaðan framherja, þeirra markahæsti leikmaður er Gundogan. Spilamennska liðsins er einnig breytt, vængframherjarnir halda núna miklu meiri breidd en áður og oft virkar eins og bakverðirnir spili sem framliggjandi miðjumenn eða "tíur". Þeir eru einnig mun þéttari fyrir varnarlega og hefur Ruben Dias sannað sig sem einn besti miðvörður í heimi - þvílík kaup sem það voru.


Spá

Þessi leikur verður mikil refskák. Tuchel og Pep bera mikla virðingu hvor fyrir öðrum og er vel til vina. Það er ekki uppörvandi tölfræði að Tuchel hefur aldrei unnið Pep Guardiola. Tuchel sjálfur talaði um það að leikurinn myndi innihalda mikla ákefð (e. intensity) því bæði lið vilja halda í boltann og pressa stíft til að ná valdi á boltanum.


En ég vil alls ekki sjá okkur fara í einhvern hnefabardaga við City og pressa þá um allan völl - það er áskrift á stórt tap eins og Maurizio Sarri þekkir. Það þarf að liggja aftarlega, "þjást" aðeins án boltans en ekki hleypa þeim of nálægt markinu. Það má eiginlega segja að þegar miðverðir City eru með flestar sendingar á hvorn annan, þá ertu að gera eitthvað rétt á móti þeim. Sigur Chelsea í fyrra sumar undir stjórn Lampard var frábært dæmi um það hvernig á að vinna Man City. Liggja til baka, en ekki of aftarlega. Nýta svo skyndisóknirnar þegar þær koma - þvinga þá í að gera mistök sem við getum nýtt okkur.


Er ég bjartsýnn? Nei, því miður. :(


Ég held að City séu einu númeri of stórir fyrir okkur núna. En vonandi hef ég rangt fyrir mér og að við vinnum þá í vító, því það er svo gaman.


KTBFFH

- Jóhann Már Helgason

Comments


bottom of page