Keppni: Premier League
Tími, dagsetning: Miðvikudagur 4. desember 2024 kl: 19.30
Leikvangur: St. Mary´s Stadium, Southampton, Hampshire
Dómari: Tony Harrington
Hvar sýndur: Síminn sport
Upphitun eftir: Þráinn Brjánsson
Þá er aðventan hafin og það er góður tími fyrir knattspyrnuáhugafólk þar sem þétt dagskrá leikja í enska boltanum bætist við almennan jólaundirbúning. Það var vel við hæfi að fyrsta sunnudag í aðventu, buðu okkar menn upp á frábæran leik gegn Aston Villa og unnu glæstan sigur eða 3-0. Þeir fá ekki marga daga til undirbúnings fyrir næsta leik sem fram fer miðvikudaginn 4. desember, en þá mætum við í heimsókn á völl heilagrar Maríu, og mætum Southampton sem sitja í neðsta sæti deildarinnar fyrir umferðina Þeir hafa aðeins náð að næla í 5 stig með einum sigri á Everton og svo jafntefli gegn Ipswich og Brighton. Það er orðið nokkuð síðan undirritaður hefur skrifað pistil og óhætt er að segja að lundin er mun léttari við skrifin núna en oft áður, og þar munar auðvitað einna mest um það að liðið okkar er á blússandi siglingu. Nú er maður farinn að gera sér vonir um að hlutirnir séu loksins að smella almennilega saman. Það er óneitanlega mun skemmtilegra að skrifa pistla án þess að vera grátbólginn af harmi yfir gengi liðsins og nú er loksins orðið gaman að horfa á leiki aftur.
Breytingin á liðinu er hreint með ólíkindum og verð ég að segja að það er gríðarlega gaman að sjá hvað Maresca hefur hitt nákvæmlega á réttu lausnirnar og er klárlega að ná því út úr leikmönnum sem síðustu stjórum mistókst hrapallega. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að verkefninu er hreint ekki lokið hjá Maresca og menn skyldu vera varkárir í væntingum, þó vel gangi en sannarlega er bjart framundan og full ástæða til bjartsýni. Ef við hlaupum aðeins yfir leikinn gegn Aston Villa þá var þetta raunar afskaplega þægilegur sigur og hefði klárlega getað orðið stærri og verð að segja að hver einasti leikmaður stóð fyrir sínu. Það er frábært að sjá að loksins virðist Maresca vera búinn að átta sig á að spila þessum leikmönnum rétt. Það var strax á 7. mínútu sem Nicolas Jackson skoraði fyrsta markið eftir undirbúning Cucurella sem er orðinn eins og kóngur í vörninni og hleypur sem aldrei fyrr og er að venju gríðarlega vinnusamur. Miðjan er afskaplega “solid” og Caicedo, Lavia og Enzo ráða þar lögum og lofum, og Maresca er að gera tilraunir með að færa Caicedo aðeins aftar og er það sannarlega að skila sér þar sem hann blómstrar og eflist með hverjum leik og er klárlega einn besti miðjumaður deildarinnar en ég var orðinn frekar þreyttur á honum blessuðum þar sem hann var afskaplega seinn í gang en skal fúslega háma í mig alla þá sokka sem hann kærir sig um að troða uppí mig.
En aftur að Villa leiknum og eftir mark Jackson þá réðum við leiknum og brutum flestar sóknir Villa á bak aftur og á 36. mínútu bætti Enzo öðru marki við eftir stoðsendingu frá Cole Palmer og þægileg tveggja marka forysta í hálfleik. En Cole nokkur Palmer hafði ekki sagt sitt síðasta og setti í eitt úr efstu hillunni þegar hann smurði honum nett í skeytin eftir sendingu frá Madueke. Frábær leikur og Unay Emery varð enn hvítari á hliðarlínunni og virðist í miklu basli með sína menn þessa dagana. En auðvitað var þetta ekki eintómur rjómi og rækjur, en það er ljóst að Wesley Fofana spilar ekki meira á þessu ári en hann meiddist aftan í læri og er ekki væntanlegur aftur fyrr en á fyrstu vikum nýs árs, og getur þá spilað olsen olsen við Reece James sem mun heldur ekki koma við sögu fyrr en í janúar í fyrsta lagi. Eitt sem ég get þó ekki hætt að hafa áhyggjur af en ég fæ ennþá þessa ónotatilfinningu þegar Sanchez fær boltann og skil ekki hvernig hann fer að því að klúðra hlutunum eins oft og hann gerir. Mín skoðun er sú að við verðum að fá annann markvörð í janúar, þó hann hafi náð góðum vörslum á krítískum augnablikum, þá réttlætir það ekki öll klúðrin hjá honum. Þetta er jú bara mín skoðun og Maresca sér efalaust eitthvað annað í honum en ég og hefur líklega meira vit á þessu. En Southampton eru næstir og ekkert annað en sigur kemur til greina en samt læðist enn að manni einhver leiðindatilfinning þar sem okkar menn hafa allt of oft gert upp á bak gegn “litlu” liðunum og auk þess má nefna að Liverpool átti í miklum vandræðum með Southampton og marði 3-2 sigur í haust þannig að það er eins gott að vera á tánum.
Chelsea
Það er gaman að vera Chelsea aðdáandi þessar vikurnar og með hverjum leik eykst sjálfstraustið og holningin á liðinu er frábær. Ég veit ekki hvaða aðferðum sálfræðiteymið hjá klúbbnum beitir en þær virka greinilega. Það má merkja miklar framfarir hjá nánast öllum leikmönnum með undantekningum þó en Mudryk virðist enn vera hálfáttavilltur ennþá en sýnir batamerki og er það vel. Meiðslalistinn hefur sjaldan verið styttri en Fofana kom sér þar fyrir um helgina og maður bara vonar að það sé ekki of alvarlegt en Reece James er þar fastagestur og einhvernveginn held ég að hann sé búinn með sitt besta en það kemur í ljós. Ég veit ekki alveg hvað Maresca er að pæla varðandi Nkunku en hann virðist ekki eiga né getað unnið sér sæti í byrjunarliði þrátt fyrir að vera markahæsti maður liðsins. Það koma upp pælingar að Nkunku sé óánægður og sé að hugsa sér til hreyfings en Maresca þvertekur fyrir það og segir taktískar ástæður fyrir þessu og verðum við að treysta á að hann meti þessa hluti rétt. Að öðru leyti eru allir heilir og í bullandi stuði og verður gaman að sjá liðið spreyta sig á vellinum hennar Mæju á miðvikudaginn. Ég ætla ekkert að fara í djúpa leikkerfagreiningu og vil bara sjá frammistöðu í takt við undanfarnar vikur. Ég hef fulla trú að þetta verði góður leikur en stilli þó væntingum í hóf. En tilfinningin er góð.
Southampton
Eins og áður hefur komið fram sitja Southampton í neðsta sæti deildarinnar með aðeins fimm stig og hafa sannarlega ekki verið að gera neinar rósir en þeir hafa ná einum sigri eða gegn Everton sem er í 15. sæti með 11 stig og gerðu svo jafntefli við Ipswich og Brighton. Það vakti þó athygli að Liverpool átti í stökustu vandræðum með þá í haust og rétt marði sigur 3-2. En það má búast við að Russell Martin og Dýrðlingarnir munu leggja allt í sölurnar á miðvikudaginn. Ég ætla bara rétt að vona að við séum búnir að hrista af okkur þessa leiðinda áru að tapa alltaf fyrir minni spámönnum.
Byrjunarlið og spá:
Nú er það spurning hvað Maresca gerir í stöðunni? ætlar hann að keyra á þá með sínu allra sterkasta liði eða fá aðrir sénsinn gegn Dýrðlingunum frá Southampton?. Hann heldur sig þó efalaust við 4-2-3-1 og ég veðja á að Sanchez verði í rammanum og maður verður þá að krossa fingur. Í vörninni verða þeir Cucurella, Colwill, Gusto og Badiashile sem kemur inn fyrir Fofana en ég verð þó enn að setja spurningamerki við hann þar sem ég á enn eftir að sannfærast. Fyrir framan þá verða þeir Enzo og Caicedo og þríeykið þar fyrir framan skipa þeir Palmer, Madueke og Félix og ég set Jackson fremstan þar sem ég held að Nkunku fái ekki sénsinn að þessu sinni en kemur vafalaust inná á þeirri sextugustu sirka. Þetta verður áhugaverður leikur og vona ég að þeir keyrir fast á þá og klári þetta helst í fyrri hálfleik og ætla ég að spá þessu 0 - 4 og Palmer setur tvö og Nkunku og Madueke setja sitthvort. Svo vona ég bara að þið njótið aðventunnar og úrslitin verði ánægjuleg og okkur í hag
Gleðilega hátíð!!!
P.s. við minnum enn og aftur fólk á að skrá sig í Chelsea klúbbinn á Íslandi. Þannig getið þið fengið miða á leiki með Chelsea með aðstoð klúbbsins, og gott ef ekki, forkaupsrétt. Allar upplýsingar á www.chelsea.is
Comments