top of page
Search

Sigur á Palace - Fyrirtaks fyrri hálfleikur dugði til! Leikskýrsla og einkunnir.


Gangur leiksins

Chelsea byrjuðu leikinn á Selhurst Park af þessum þvílíka krafti. Þetta var líklega einhverjar bestu 45 mínútur sem nokkurt Chelsea lið hefur leikið í 20 ár. Hápressan kæfði Crystal Palace alveg frá fyrstu mínútu. Það tók okkur ekki nema átta mínútur til að koma boltanum í netið, en Kai Havertz átti allan heiðurinn af því. Hann vann boltann af Eze nokkuð auðveldlega, lagði boltan aftur út á Hudson Odoi sem sendi hann snyrtilega aftur á Havertz, sem hafði tíma til að snudda boltanum snyrtilega í fjærhornið framhjá Guiata, markverði Palace. Það voru varla tvær mínútur liðnar þar til næsta mark var komið, og aftur var Kai Havertz að verki, en í þetta skiptið dróg hann nokkra varnarmenn að sér og bjó til pláss og sendi boltann á Christian Pulisic sem bombaði boltanum upp í nærhornið. Óverjandi skot og táknrænt fyrir stemmninguna.


Crystal Palace sáu ekkert til sólar í þessum fyrri hálfleik. Liðið stillti fyrst upp í 4-4-2 en réð illa við 3-4-3 hjá Chelsea. Uppleggið hjá Thomas Tuchel var að pinga boltanum hratt á milli leikmanna, og þá sérstaklega inn á Ben Chilwell og Callum Hudson-Odoi í bakvarðastöðunum. Þetta teygði svakalega á Palace liðinu og skapaði pláss og glufur. Bæði Patrick Van Aanholt og Eberichi Eze voru í stökustu vandræðum við að verjast Hudson Odoi og Mason Mount. Jorginho og Mateo Kovacic voru gjörsamlega á eldi í þessum fyrri hálfleik. Leikmenn Palace náðu ekki að klukka okkar men á miðjunni. Roy Hodgson neyddist til að breyta uppstillingunni í fyrri hálfleiknum og fór úr 4-4-2 í 4-3-3 með því að færa Eze af kantinum inn á miðjuna og Wilfried Zaha fór úr striker yfir á kantinn. Zaha átti annars erfitt uppdráttar og lét allt fara í skapið á sér. Við þetta jafnaðist leikurinn örlítið en allt kom fyrir ekki, þar sem Chelsea skoraði úr föstu leikatriði. Mason Mount átti fasta spyrnu inn á teiginn, sem rataði beint til Kurt “Air Zouma” sem skoraði með föstum skalla.


Staðan var 3-0 þegar komið var til hálfleiks. Crystal Palace náðu ekki að skapa sér neitt einasta færi, hvað þá skot á markið. Allar tölur á núlli og Chelsea með boltann 67% af leiknum. Það breyttist ekki í seinni hálfleik, en Chelsea slakaði all verulega á bensíngjöfinni. Ekki eins mikið pressað, bara boltinn látinn ganga rösklega á milli manna. Hinsvegar komust Palace þá í nokkrar sóknir, þar sem Jerrfery Schlupp, nýkominn inná, komst í góða stöðu og sendi fasta fyrirgjöf á Christian Benteke sem skoraði með skalla. Fyrsta færið og eina markið sem Palace skoraði. Thomas Tuchel ákvað að skipta Reece James, N’Golo Kante og Hakim Ziyech inná til að hvíla miðjumennina og Hudson Odoi. Chelsea náði nokkrum eftirminnilegum stóknum. Kai Havertz fékk nokkur dauðafæri, þar á meðal eitt sérstakt! Hann fékk langan bolta inn fyrir vörnina. Móttakan hjá honum var hreint út sagt, stórkostleg og minnti all rækilega á Dennis Bergkamp, en því miður varði Guiata. Þetta hefði getað verið mark tímabilsins! Annars náðum við að loka leiknum þar sem Reece James negldi fasta fyrirgjöf á markið og hver annar en Christian Pulisic, einnig þekktur sem Captain America, var í reglulegum áætlunarferðum að fjarstönginni og í þetta skiptið skoraði hann laglega. Leikurinn fjaraði nokkuð út við þetta en yfirburðirnir algerir. Unnum bolta ítrekað á vallarhelmingi Palace og þetta var með þeim betri frammistöðum sem ég man eftir. Vorum með boltann 64% af leiknum, xG var 3.25, 23 skot þar af 10 á rammann. 25 færi sköpuð, þar af 6 dauðafæri. Havertz hefði átt að nýta fleiri – en hann fékk amk 4 þannig. Heilt yfir – geggjuð frammistaða hjá öllum leikmönnum og þjálfara.


xG BardaginnUmræðupunktar

  • Kai Havertz – við erum kannski að átta okkur á því hvernig leikmaður hann er. Hann var mjög skapandi og hættulegur. Eins og áður sagði virkaði hann í þessum leik eins og Dennis Bergkamp. Kannski erum við með okkar eigin Dennis Bergkamp. Mun ég minnast á það við stuðningsmenn Arsenal? Að sjálfsögðu.

  • Tammy Abraham fékk ekki mínútu í þessum leik. Hann á undir högg að sækja hjá Thomas Tuchel. Hann virðist vera á sama stað og Billy Gilmour þegar kemur að mikilvægi. Erfitt er að sjá fyrir sér að hann fái traustið í leikjunum við stóru liðin, nema sóknarmenn meiðist töluvert.

  • Jorginho var hreint út sagt stórkostlegur á miðjunni. Hann er ekki sterkasti eða fljótasti leikmaðurinn, en spilið pingar mjög hratt í gegnum hann. Leikur Chelsea virkar eins og pinball spil þegar hann og Kovacic eru upp á sitt besta. Blitzkrieg leifturárásir úr öllum áttum.

  • Callum Hudson-Odoi hefur mátt þola mótlæti. Hann hefur verið tekinn útaf óverðskuldað í leikjum en þarna vorum við að sjá hversu öflugur hann er. Þarf rosalega lítið upp á að hann verði að einhvejrum heimsklassa leikmanni. Hann olli Palace liðinu sífelldu veseni.

  • Christian Pulisic virðist vera kominn á gott flug. Hann er farinn að skora reglulega. Hann er alltaf hættulegur í teignum og þetta mark þegar hann bombar boltanum í þaknetið var alveg til fyrirmyndar. Reyndar minnti það all hressilega á þegar Kaká bombaði yfir Oliver Kahn í meistaradeildinni fyrir rúmum áratug.

  • Thomas Tuchel pakkaði Roy Hodgson all rækilega saman. Uppleggið var greinilega að hreyfa boltann hratt út á kantana, sérstaklega til bakvarðana til að slíta sundur skipulagið hjá Hodgson. Það segir soldið mikið þegar menn, sem eru nánast bara þekktir fyrir 442 neyðist til að breyta um stíl, þegar hálftími er liðinn af leiknum.

Einkunnir

Byrjunarliðið:

Mendy – 6

Azpilicueta – 7

Zouma – 8

Rudiger – 8

Hudson Odoi – 8,5

Jorginho – 8

Kovacic – 8

Chilwell – 7

Mount – 8,5

Havertz – 9

Pulisic – 9 Maður Leiksins

Varamenn:

Kante – 6

James – 7

Ziyech – spilaði ekki nóg til að fá einkunn


- Hafsteinn Árnason


Comments


bottom of page