top of page
  • Twitter Social Icon
  • Facebook Social Icon
Search

Servette í Sviss

Keppni:  Undankeppni Sambandsdeildarinnar, seinni leikur

Tími, dagsetning:   Fimmtudagur 29. ágúst 2024 kl: 18.30

Leikvangur:   Stade de Genéve, Carouge, Sviss

Dómari:   Marco Di Bello

Hvar er leikurinn sýndur? Chelsea FC appinu.

Upphitun eftir:  Þráinn Brjánsson

Þá er framundan síðari leikurinnn í undankeppni sambandsdeildarinnar gegn svissneska liðinu Servette. Liðin áttust við á Stamford Bridge í síðustu viku og bjuggust margir við að sá leikur yrði auðveldur fyrir okkar menn, en það varð ekki raunin og einhverjir hafa sennilega verið farnir að svitna á efri vörinni í hálfleik. Enzo Maresca hefur væntanlega ræst blásarann í leikhlé og menn komu ákveðnari til leiks í þeim seinni. Christopher Nkunku kom þeim bláklæddu yfir á 50. mínútu úr vítaspyrnu og Noni Madueke innsiglaði svo sigurinn á þeirri 76. Við hæglega getað bætt því þriðja við, en unglingurinn frá Barcelona hann Marc Guiu fékk eitt besta færi síðari ára, en tókst á einhvern undraverðan hátt að klúðra fyrir opnu marki. Þetta kom kannski ekki ekki mikið að sök, þar sem leikurinn var í höndum Chelsea og við förum með tveggja marka forystu inn í síðari leikinn.


Það er kannski ekkert mikið hægt að segja um þennann fyrri leik liðanna en á sunnudaginn mættum við Wolves á útivelli og þar var allt annað uppi á teningnum og tókum við forystu strax á annari mínutu þar sem Nicholas Jackson skoraði með góðum skalla, en Matheus Cunha jafnaði á 27. mínútu og jafnræði var með liðunum þar til Cole okkar Palmer kom okkur í 1-2 en það stóð þó ekki lengi þar sem Jörgen Strand Larsen jafnaði skömmu áður en flautað var til leikhlés. Pedro Neto kom þá inná fyrir gjörsamlega týndan Mudryk sem virðist eiga í existensíalískri tilvistarkreppu og nær engum tengslum við það sem hann á að gera. Það var svo hinn sjóðheiti Noni Madueke sem ákvað að girða sig rækilega og kom Chelsea í 2-3 á 49. mínútu og var svo aftur á ferðinni í sömu erindagjörðum á 58. mínútu og staðan orðin vænleg eða 2-4. Hann fullkomnaði svo þrennuna á þeirri 63. og það var svo aftur og nýkominn Joao Felix sem rak endahnútinn á frábærann leik okkar manna á 80. mín. og 2-6 sigur var kærkominn og fannst mér ég sjá gamla góða Chelsea liðið komið aftur og hlutirnir gengu fullkomlega upp.



Chelsea

Það er frekar snúið mál að vera að skrifa pistil um Chelsea liðið á þessum síðustu dögum áður en félagaskiptaglugginn lokar og “silly season” er í hámarki en talsverðar breytingar hafa orðið og menn komið og farið. Þessi kapall sem Toddmaster og hans menn hafa verið að leggja er með hreinum ólíkindum. Enzo Maresca virðist vera kominn með hnefana á loft og notar afskaplega einkennilegar aðferðir í samskiptum við leikmenn svo ekki sé meira sagt. Nú mega leikmenn eins og Raheem Sterling, Ben Chilwell og Chalobah ekki vera memm lengur. Þeir eru í frystinum og greinilegt að það eru ýmsar sviptingar framundan næstu tvo daga. Það er nákvæmlega ekkert hægt að spá um hvað kemur til með að gerast. Það síðasta sem heyrst hefur er að Sterling fari jafnvel til Manchester United og Jadon Sancho komi í skiptum en þær umræður eru í einhverju uppnámi þegar þetta er skrifað. Ég veit ekki alveg með Sancho, held að þessi drengur sé ekki tilbúinn í hasarinn, þó hæfileikana vanti ekki en það er klárt að fleiri vandamál hafa verið að plaga hann en hver veit?


Framherji er víst efst á óskalistanum og Victor Osimhen er það nafn sem helst hefur komið upp, en fréttir af hans málum eru ennþá svo ruglingslegar, að það hálfa væri helmingi meira en nóg. Arabarnir sem eru einnig á eftir honum eru víst að sjóða saman einhvern risasamning, en áhugi Osimhen á því að spila eyðimerkurbolta er víst afskaplega takmarkaður. Næsti pistill sem verður skrifaður mun þó klárlega innihalda færri spurningar en þessi pistill og vonandi einhver góð svör. Ýmsar aðrar breytingar hafa vakið athygli eins og hrærigrauturinn í kringum söluna á Gallagher til Athletico og áttum við að fá Omorodion til Chelsea en allt fór í háaloft og Joao Felix gekk inn í dílinn og er mættur til okkar í annað sinn, og ekki eru allir á eitt sáttir við þá ákvörðun . Allnokkrir fleiri eru komnir, en allt of langt mál yrði að fara yfir þann aragrúa af mönnum og vona ég bara að framherjaskorturinn verði leystur í síðasta lagi fyrir helgi. Þá geta menn farið að einbeita sér að því að spila fótbolta.


Servette

Þetta lið á að ég held ekki marga stuðningsmenn hér á landi en þetta er lið með langa hefð og var stofnað árið 1890 að vísu sem Rugby lið en knattspyrnuliðið var stofnað árið 1900 þannig að liðið byggir á langri og merkilegri hefð. Þjálfari liðsins er Svisslendingurinn Thomas Häberli. Liðið endaði í þriðja sæti í svissnesku súperdeildinni á síðasta tímabili og er eitt af sigursælustu liðum þar í landi. Servette unnu síðast svissnesku deildina 1999 en síðan hafa fjárhagsleg vandræði verið að plaga þá og voru dæmdir niður í þriðju deild tímabilið 2004-2005 en hafa smá saman verið að rétta úr kútnum. All nokkrir góðir knattspyrnumenn hafa leikið með liðinu í gegnum tíðina og má þar nefna Christian Karembeu, Karl-Heinz-Rumenigge og Gaél Clichy. Svissneska deildin hefur staðið svolítið utan við radarinn en liðið sýndi þó að þeir eru sýnd veiði en ekki gefin og full þörf fyrir okkar menn að vera á tánum þrátt fyrir tveggja marka forystu.


Liðsuppstilling og spá

Það er óhætt að segja að úr nógu er að velja varðandi mannskap fyrir leikinn gegn Servette og það verður örugglega vettlingur fyrir Maresca að púsla saman liði. Ég tel víst að nýjir menn og reynsluminni fái tækifæri á fimmtudaginn. Nú ríður á að nota þessi tvö mörk sem við eigum í pokanum og spila skynsamlega, en þó ákveðið á Svisslendingana. Ætli Maresca haldi sig ekki bara við 4-3-3, Jörgensen verður í markinu og sömu fjórir öftustu sem byrjuðu fyrri leikinn geri það aftur, eða þeir Ramon Veiga, Badashile, Adarabioyo og Disasi, en Reece James er það brothættur ennþá að hann hvílir efalaust. Þar fyrir framan verða Dewsbury-Hall, Caicedo og Neto. Ég er ekki viss með fremstu þrjá en samt held ég að Mudryk fái að byrja þó það væri ekki nema til þess að reyna að ná áttum og Nico Jackson og Nkunku verða honum til leiðsagnar. Það verður þá hægt að kalla til Palmer og Enzo inn af bekknum ef í óefni stefnir. Ég er ekkert viss um að þetta verði neitt auðvelt og ástæða til að bera fulla virðingu fyrir Svisslendingunum, þar sem þeir hafa engu að tapa og leggja efalaust allt í sölurnar. Það væri þó hið besta mál að ganga frá þessu verkefni með stæl og hver veit nema við fáum þá bara Víking í næstu umferð og fáum okkar menn á klakann. En ég vona að endingu að leikmannamál leysist farsællega og við getum farið nokkuð bjartsýn inn í komandi vetur 


Góða skemmtun og áfram Chelsea !!!


P.s. við minnum enn og aftur aðdáendur Chelsea á Íslandi að skrá í Chelsea klúbbinn á Íslandi. Hóflegt árgjald, um 8.000 kr., gefur ykkur aðgang til að kaupa miða á Chelsea leiki í vetur á sanngjörnum verðum. Allar upplýsingar um leiki, punktastöður per leik, skráningar o.fl. á www.chelsea.is

Comments


bottom of page