top of page
Search

Síðasti leikurinn á Goodison

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Tími, dagsetning:  Sunnudagur 22. desember 2024 kl. 14:00

Leikvangur:  Goodison Park, Liverpool 

Dómari:  Chris Kavanagh

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport

Upphitun eftir: Guðna Reyni Þorbjörnsson



Hó, hó, hó! Það er orðið staðfest! Það hefur svosem alltaf verið vitað, en nú er hægt að færa góð rök fyrir því bara með því að benda á stigatöfluna. Jólin eru blá í London. Við erum það lið frá höfuðborginni sem situr hæst í töflunni þegar jólin ganga í garð, og ef við vinnum Everton verður nú staðan einfaldlega sú, lesendur góðir, að við komum okkur fyrir í fyrsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar! Hverjum hefði eiginlega grunað það fyrir nokkrum vikum? Að vísu yrði það hugsanlega tímabundið, þar sem Púlarar eiga leik við Spursara seinna sama dag og það er náttúrlega engin leið að átta sig á því hvernig sá leikur mun fara, enda ekki nokkur leið að giska á úrslit leikja hjá Tottenham Hotspur. Við unnum Shamrock Rovers núna á fimmtudaginn nokkuð þægilega með 5-1 sigri í lokaumferðinni í Sambandsdeildinni og tryggðum okkur toppsætið með fullt hús stiga. Það var mjög skemmtilegt að sjá hinn unga og spræka Marc Guiu skora þrennu í leiknum. Hann hefur heldur betur verið að koma til í síðustu leikjum og endaði hann sem markahæsti leikmaður Sambandsdeildarinnar með 6 mörk. Það er að segja „riðlakeppninni“ eða hvað sem þetta kallast í dag. En í Marc Guiu eigum við mjög efnilegan framherja sem við þurfum að halda vel utan um í framtíðinni og vonandi mun leikur hans halda áfram að þróast í rétta átt. Dewsbury-Hall og Marc Cucurella skoruðu hin mörkin í leiknum sem var hin ágætasta skemmtun.


Síðasti deildarleikur okkar gegn Brentford var virkilega erfiður en leikmenn Chelsea sýndu mikla elju í að kreista fram sigur í þeim leik. Leikmenn renndu sér í tæklingar og börðust fyrir stigunum þremur. Ég held meira að segja að Sanchez hafi lesið upphitunarpistil Björgvins fyrir leikinn því hann stóð sig alveg vel og sýndi góðar vörslur í leiknum. Tosin nýtti einnig tækifæri sitt vel og sýndi góðan leik. Mér finnst hann alveg hafa unnið sér sæti í byrjunarliðinu við hliðina á Colwill á meðan Fofana er að berjast við meiðsli, enda líst mér betur á Tosin heldur en Disasi og Badiashile. Endurfæddur Enzo á miðjunni er búinn að vera frábær í síðustu leikjum og vonandi heldur leikur hans áfram að þróast í þessa átt. Hann er virkilega búinn að stíga upp eftir að hann kom sér aftur í byrjunarlið "A" liðins og það er greinilegt að hann ætlar sér ekki að tapa sæti sínu þar. Nicolas Jackson náði inn mikilvægu marki með frábærri afgreiðslu og maður sá hversu létt honum var þegar hann fagnaði því. Hann er gráðugur í mörk og þannig eiga framherjar einmitt að vera.




En snúum okkur nú að leiknum um komandi helgi. Til þess að fá að prófa fyrsta sætið þurfum við að vinna Everton á Goodison Park og það er hægara sagt en gert. Í síðustu 10 ferðum okkur þangað höfum við aðeins unnið tvisvar, gert eitt jafntefli og tapað sjö sinnum. Þetta er leiðindavöllur sem hefur reynst okkur erfiður undanfarin ár, en sem betur fer eru Everton menn stórhuga og ætla að skipta um heimavöll á næsta tímabili og vonandi munu þeir láta aðeins af þessari þrjósku sinni gagnvart okkur og sýna meiri gestrisni þar.Við verðum án nokkurra leikmanna og meiðslalistinn hjá okkur inniheldur að sjálfssögðu Reece James ásamt þeim Fofana og Badiashile. Marc Cucurella tekur út leikbann vegna rauða spjaldsins eftir leik gegn Brentford og Romeo Lavia er á mörkunum að ná þessum leik, menn eru þó bjartsýnir á það en það er þó spurning hversu margar mínútur hann mun spila. Mudryk vinur okkar er einnig fjarverandi vegna persónulegra mála eins og flestir vita en vonandi mun mál hans koma betur í ljós á næstu dögum.


Eins og staðan er þegar þessi pistill er skrifaður ætla ég að tippa á að byrjunarliðið muni líta einhvernveginn svona út: Sanchez verður í markinu. Malo Gusto verður hægra megin og Renato Veiga vinstra megin. Þeir Colwill og Tosin verða síðan í vörninni. Á miðjunni verða Caceido, Enzo og Palmer, og á köntunum verða þeir Sancho og Pedro Neto. Nicolas Jackson verður síðan frammi.


Ef ég ætti að vanda mig myndi ég spá okkur 0-1 sigri og Caceido með markið í miklum baráttuleik, en vonandi verður leikurinn skemmtilegri og markameiri en það.


Áfram Chelsea!

Comments


bottom of page