Keppni: Enska úrvalsdeildin
Dag- og tímasetning: 28. Maí kl 15:00
Leikvangur: Stamford bridge
Hvar er leikurinn sýndur? Síminn sport og Ölver
Upphitun eftir: Snorra Clinton
Chelsea
LOKSINS, LOKSINS.............Loksins er komið að því að síðasti leikurinn á þessu martraðatímabili fari af stað. Í ljósi þess að tímabilið er að klárast þá ætla ég mér að taka það bessaleyfi að reifa tímabilið léttilega.
Allt byrjaði þetta nú á eigendaskiptum síðastliðið sumar. Roman okkar var oft ásakaður um að vera leika sér í live action Football manager en hann mátti nú eiga það að hann skilaði okkur titlum í hús. Nýju eigendurnir byrjuðu ballið með því að skipuleggja hörmulegt pre-season sem átti eftir að draga dilk á eftir sér. Slæmur undirbúningur skilaði sér hressilega inn í tímabilið og fórum við ekki nægilega vel að stað undir stjórn Tuchel. Eins og við flest vitum, þá fékk hann sparkið í byrjun september eftir tap í meistaradeildinni á móti Dynamo Zagreb. Við tekur Graham nokkur Potter, ég verð að viðurkenna, að fyrirfram var ég spenntur yfir þeirri ráðningu þar sem hann var að gera góða hluti með Brighton, þó svo að ég hefði alltaf kosið að halda TT. Potter fór ágætlega af stað með jafntefli í fyrsta leik en vann svo fimm í röð í öllum keppnum. Það er svo i lok október sem allt fer í skrúfuna í deildinni þar sem við töpum hverjum leiknum á fætur öðrum og hafa stuðningsmenn liðsins sjaldan verið jafnfegnir, að fá frí frá deildinni þegar kom að HM. Hamfarirnar héldu þó áfram eftir mótið og var Potter látinn fara eftir tap gegn Aston Villa þann 1. apríl.
Á þessum tímapunkt fögnuðu eflaust flest okkar þar sem við sáum fljótlega í fréttum að Luis Enrique, Julian Nagelsmann og Zinedine Zidane væri lausir og þeir tveir fyrrnefndu væru tilbúnir að stökkva strax í stólinn og reyna bjarga því sem hægt er.......en nei við réðum Lampard í staðinn út tímabilið og hefur liðið aldrei verið jafn lélegt.....en hey! Það er bara einn leikur eftir, þannig eftir það getum við farið að snúa okkur að bútasaum, lesa fréttir af Arnari og Vítalíu, ævintýrunum hans Kleina eða rómansbókmenntir um helgar. Bara hvað sem er annað en að horfa þetta lið spila í núverandi mynd. Eins mikið og við Chelsea stuðningsmenn elskum Lampard sem leikmann þá er kallinn - án efa - sá allra lélegasti manager sem sest hefur í stjórastólinn hjá Chelsea.
Það verður samt gríðarlega spennandi að sjá hvað Pochettino gerir með liðið í sumar því heyrst hefur að hann ætli sér að skera hressilega niður í hópnum og jafnvel koma einhverjum nýjum andlitum inn. Leiðin getur bara legið upp á við.
Næsta mál á dagskrá. Okkar menn kíktu í heimsókn norður til Manchester síðastliðið fimmtudagskvöld og öttu kappi við lærisveina hollenska roll-on hausins. Það var margt spennandi við hvernig Lampard stillt upp liðinu, þá helst miðju og framlínu en þótti mér varnarlínan vera alveg afleit hjá honum. Hann hafi kannski ekki úr miklu að moða þar, en ég naga alltaf handarbökin þegar ég sé greyið Azpi í byrjunarliðinu, hans bestu dagar eru svo greinilega að baki. Lewis Hall átti aftur á móti mjög fínan leik en það sama mátti ekki segja um Wesley Fofana. Því miður var þetta hans versti leikur í bláu treyjunni og hafa frammistöður hans síðustu vikur verið arfaslakar. Hann var ekki sá eini sem hefði betur haldið sig heima, en Kai Havertz ætti að afþakka laun fyrir hans framlag þetta árið, þvílík pulsa! Ég er farinn að halda að hann spili flestar mínútur inn á með lokuð augun ekkert annað getur útskýrt hvernig hann klúðrar opnum skalla fyrir framan mitt markið. Mudryk kallinn þarf svo að fara segja sig frá samfélagsmiðlum, það er ekki alveg að virka að reyna vera fyndinn með einhverjar rassaskorumyndir á Instagram og mæta svo á Old Trafford spilandi í stígvélum fullum af hlandi. Einu leikmenn okkar sem skiluðu einhverjum standard voru Enzo og Lewis Hall ásamt Joao Felix sem átti flotta innkomu af bekknum. Ég biðst forláts ef ég hljóma eins og neikvæður Tuðmundur, en því miður er gerendameðvirknin mín tæmd í bili.
Þrátt fyrir allt sem er undan komið lít ég til framtíðar með mikilli tilhlökkun og trú þar sem við vitum öll hvað þetta lið getur áorkað með réttum aðilum á bakvið stýrið. Þetta getur allavega ekki versnað 😊
Næsta verkefni er Newcastle á sunnudaginn kemur á Stamford bridge. Vonandi mæta drengirnir vel hólkaðir til leiks og leggi allt í sölurnar til að skila góðri frammistöðu á lokadegi tímabilsins og það á heimavelli. Það sem ég myndi elska að kveðja ömurlegt tímabil með þremur punktum, því æðri máttavöld vita að við eigum skilið smá gleði til að taka með okkur inn í sumarið. Ég hugsa að Sigmundi Davíð hafi liðið betur í Wintris viðtalinu hér um árið, heldur okkur sé búið að líða flestar helgar í vetur.
Jæja förum nú að spá í hvernig Lampsi muni stilla upp liðinu. Allir sem eru með IQ yfir stofuhita vita að meislalistinn er enn á ný orðinn langur. Mount, James, Kanté, Chilwell, Badiashile, Cucurella, Sterling og Broja eru ALLIR fjarri góðu gamni og því ekki er búist við að Lampard fái mikinn valkvíða þegar hann skellir í fyrstu XI. Fyrir leikinn erum við í 12. sæti og gætum endað í því 14. Ég sé ekki mikinn mun þarna á milli og því ekkert til að keppa um annað en smá stolt. Mig grunar að Mendy sé á sölulistanum fyrir sumarið og því væri gaman að sjá hann á milli stanganna í kveðjuleik. Lampard er búinn að vera frekar hrifinn af fjögurra manna varnarlínu og sé ég ekkert sem gefur til kynna að það sé að fara breytast. Ég skýt á að Hall verði vinstramegin með Koulibaly og Silva í miðjunni, Fofana er búinn að vera skelfilegur undir hans stjórn og hann þarf að leggja sig. Þar sem ég er með bráða ofnæmi fyrir Vottinum og tel að Azpi valdi ekki sinni stöðu lengur þá væri ég til í að láta RLC hægra megin, ekki hans besta staða en hann hefur sýnt að han veldur því alveg. Á miðjunni erum við alltaf að fara sjá Enzo og sinnepsköttinn hann Connor Gallagher, það kæmi mér heldur ekki á óvart ef Kovacic fengi að vera með á sunnudaginn. Svo kæmi mér ekki á óvart ef Felix kæmi inn fyrir Kai og með honum eru áfram Mudryk og Madueke.
Newcastle:
Fyrir tveimur árum voru Newcastle ca. 15 metrum frá því að vera tannlausir Skotar því þeir eru svo norðarlega og hafa verið hundleiðinlegt og lélegt lið. Undir nýjum eigendum og Eddie Howe hefur liðið gert frábær og skynsöm kaup og verið hreint út frábærir síðan í janúar í fyrra. Ég sagði það síðastliðið sumar að þeir myndi tryggja sér meistaradeildarsæti í ár og viti menn, þeir eru búnir að tryggja það. Það er samt komið smá hikst í norðanmenn og hafa þeir t.a.m. einungis unnið tvo leiki af síðustu fimm. Ofan í það skiptir þessi leikur þá engu máli og það kæmi mér ekki óvart, ef einhverjir kjúklingar myndi byrja leikinn fyrir þá. Hvernig sem fer þá mega Todd Bubblý og félagar taka sér þennan klúbb til fyrirmyndar hvað varðar rekstur og innkaup, en vonandi er þetta tímabil grimm kennslukona og kemur okkar mönnum á réttan kjöl hvað það varðar.
Spá:
Áður en ég hleð í spánna þá langar mig að þakka ykkur öllum bláliðum fyrir samfylgdina og lesturinn á röflinu mínu undanfarin ár. Ég hef ákveðið að taka mér hlé frá pistlum að sinni og því fannst mér við hæfi að minn síðasti pistill (kannski bara í bili) væri til að loka tímabilinu. Það er búið að vera sannur heiður á því að taka þátt í þessu verkefni síðustu ár og hlakkar mig til að fylgjast með okkar frábæru pennum vinna áfram þetta góða starf 💙 💙
Að máli málanna. Liðið hefur ekki haldið hreinu undir Lampard og er ég sannfærður að hér verður engin breyting á. Ég ætla samt að leyfa mér í ljósi aðstæðna fara bjartsýnn inn í þennan leik. Ég skýt á að leikurinn endi í 2-2 jafntefli. Ég spái að við fáum jöfnunarmark frá Felix í fyrri hálfleik. Newcastle mun taka aftur forystuna þegar líða fer á seinni en Noni Madueke jafnar þegar ca. 10 mínútur eru eftir og þar við situr.
Takk fyrir mig og KTBFFH!
留言