top of page
Search

Síðasti útileikur tímabilsins á Old Trafford

Keppni: Enska Úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: Fimmtudagurinn 25. Maí 2023 kl. 19:00

Leikvangur: Old Trafford

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport

Upphitun eftir: Markús Pálma Pálmason & Hafstein Árnason

Jæja. Eftir helvíti dapran leik gegn C-liði Manchester City um liðna helgi er tímabilið að klárast, alvöru tilfinningarússíbani hjá Chelsea stuðningsmönnum, og að mínu mati, eitt erfiðasta tímabil sem ég hef þurft að horfa á. Það skiptir varla máli hvernig maður horfir á þetta eða hvaða vinkil maður notar. Það hefur nánast allt, frá byrjun til enda, verið algjört „catastrophy“. Okkar menn hafa heldur betur skitið upp á bak yfir allt tímabilið, og í raun frá því að Tuchel var rekinn. Sama hvað gerist í þessum tveimur lokaleikjum, að þá erum við að fara enda okkar versta tímabil í ensku úrvalsdeildinni. Chelsea hefur aldrei endað með jafn fá stig í deildinni og í ár. Það segir helvíti mikið eftir öll kaup sumarsins og í janúar. Það sem gerir þetta í raun töluvert verra, er að síðustu tveir leikirnir eru gegn liðum í efstu fjórum sætunum (Manchester United & Newcastle). Við höfum alltaf haft mikinn áhuga á tölfræði og að skoða hana er það sem að gefur manni oft góða sýn á því hvernig okkur hefur gengið og hvað það er sem hægt er að bæta.


Það eru aðeins þrjú lið í deildinni sem hafa fengið á sig færri mörk en Chelsea. Það eru Manchester City, Newcastle og Manchester United. Við höfum hins vegar skorað færri mörk en öll lið deildarinnar, nema þrjú. Það eru Everton, Southampton og Wolves. Það þarf ekki menntaðan stærðfræðing, vel þekktan viðskiptafræðing, eða jafnvel vanhæfan fótboltasnilling, til þess að sjá að það er eitthvað verulega að í sóknarleiknum okkar. Persónulega köllum við eftir því að Lampard, með nánast engri áhættu, breyti eins miklu og hann getur í sóknarleiknum okkar, og fari inn í þessa síðustu tvo leiki með það í huga að koma með alvöru „sýningu“ eða „statement“ fyrir stuðningsmenn, þannig þeir fái alla vega einhverja von í hugann fyrir næsta tímabil. Sigur, tap, jafntefli. Skiptir engu helvítis máli. Bara drullast til að sýna okkur að þeir kunni að spila fótbolta og að menn séu þess virði fyrir alla peningana sem var eytt í þá.


Bras, og ekkert annað. Ömurlegir allt tímabilið. Skorum ekkert, töpum öllu sem við eigum ekki að tapa, og sama hversu lágt við liggjum, þá finnum við einhvern veginn alltaf nýjan botn. Við viljum að Lewis Hall fái aftur sæti í byrjunarliðinu, ásamt því að NEGLA Mudryk og Madueke beint inn. Leikmenn sem eru líkast til á förum frá liðinu eiga í raun ekkert erindi inn í liðið í dag, þó ekki nema það væri kveðjurleikur gegn Newcastle á sunnudaginn næstkomandi, og þá einungis fyrir þá leikmenn sem hafa sýnt liðinu mikla hollustu samanber Cesar Azpilicueta, N'Golo Kante (við trúum samt á að hann endurnýji), Christian Pulisic, Ruben Loftus-Cheek og jafnvel Thiago Silva, ef það reynist satt að hann vilji klára ferilinn með Fluminense.
Oft er sagt, "when it rains, it pours". Ólukkan með meiðslin heldur áfram að leika liðið grátt. Benoit Badiashile verður frá í fjóra mánuði vegna meiðsla í nára. Það þýðir að hann missir af byrjun næsta tímabils og verður sennilega ekki kominn í almennilegt stand fyrr en það tekur að hausta. Það kom einnig í ljós í dag, að fyrrverandi kærasta Mason Mount, stúlka að nafni Orla Melissa Sloan játaði fyrir breskum rétti, að hafa eltihrellt Mase um fjögurra mánaða skeið, eftir að þau slitu samvistum. Við hjá ritstjórn CFC höfðum rætt það á milli okkar, að einhver sambandsslit höfðu bersýnileg áhrif á árangur Mason Mount á vellinum. Þarna er ef til vill koming skýring á því, hversu hræðilega dapur hann hefur verið síðustu misseri. Gæðadroppið hafi verið það mikið að fyrrum ritstjórnarmeðlimur CFC og Blákastsins, Nonni Coach, hafi eftirminnilega hent Mase undir rútuna, einmitt í einu Blákastinu. Ef til vill hefur gagnrýnin verið of hörð?! Þessi stúlka játaði einnig að hafa áreitt Billy Gilmour og Ben Chilwell. Guð blessi hana. Mason Mount er samt þó sagður vera á útleið, þrátt fyrir að Pochettino sé sagður hafa mikinn áhuga á að hafa hann ennþá. Það segir kannski mikið að liðin sem eru á eftir honum, eru Liverpool, Manchester United og Arsenal. Við trúum þó að þetta reddist. Það hlýtur að gerast, þótt það sé langt á milli samningsaðila í dag.


Romelu Lukaku heldur áfram að blaðra í fjölmiðlum hvað honum langi að vera mikið í Inter, og alls ekki hjá Chelsea, sem er dálítið sérstakt í ljósi þess, að hann nær ekki að skáka gömlu kempunni Edin Dzeko úr byrjunarliðinu, og Marotta sé ekkert sérstaklega hrifinn af því að endurnýja lánið. Lukaku er því sérfræðingur að brenna brýr að baki, og ef brúin til stuðningsmanna Chelsea var brunnin til kaldra kola, þá er hann klárlega kominn með zippo kveikjarann og bensínbrúsann á loft, til þess að kveikja í þeim viðarkolum. Það væri alveg eftir því að við myndum sitja uppi með hann, og klára þannig þessa ólukku árins, sem móðir hans hefur líklega komið í gang með einhverju Voodoo bralli.


En aftur að leiknum gegn Manchester United. Við skulum vona að liðið nái nú að stríða þeim á Trafford og kannski taka öll stigin. Byrjunarliðið verður sennilega 3-4-3. Kepa í búrinu. Loftus-Cheek og Hall í vængbakvörðum. Koulibaly, Thiago Silva og Fofana í miðvörðurm. Enzo og Kovacic á miðjunni. Mudryk, Madueke og Sterling frammi.

Leikurinn á Old Trafford fer 1-2 okkur í vil. Alveg hreint ótrúlegur, ófyrirséður og ófyrirleitinn sigur, sem setur United í mikið klandur í meistaradeildarbaráttunni gegn Liverpool. United kemst yfir með marki frá Rashford, en Mudryk þrumar boltanum upp í vinkilinn og jafnar metin. Thiago Silva skorar svo eftir hornspyrnu. Við vorum að lesa The Secret og við sjáum þetta bara fyrir okkur.


Áfram Chelsea!Comments


bottom of page