top of page
Search

Rennes vs. Chelsea: Leikskýrsla og þáttur af BlákastinuÞessi leikskýrsla kemur seinna inn en vanalega sökum þess að við tókum upp þátt af Blákastinu beint eftir leik. Fjörugar umræður að vanda og hvet ég alla til þess að hlusta, annað hvort í spilaranum hér að neðan, eða þá í öllum helstu hlaðvarpsveitum.


Gangur leiksins

Chelsea byrjaði leikinn af krafti og Werner fékk dauðafæri strax á upphafsmínútunum sem hann hefði átt að nýta betur. Það kom þó ekki að sök því eftir rúmar 20 mínútur komust okkar menn yfir með marki frá Hudson-Odoi eftir frábæran undirbúning Mount, sem vann boltann af harðfylgni á eigin vallarhelmingi og gaf frábæran sendingu inn fyrir á CHO sem kláraði virkilega vel. Leikurinn einkenndist af mikill baráttu lungan úr leiknum en liðin áttu þó sín færi, en báðir markverðirnir stóðu sína vakt vel. Leikmenn Rennes voru aggresívir og skipulagðir í sínum leik en náðu þó aldrei almennilega yfirhöndinni í leiknum og eins og áður sagði þá greip Mendy vel inn í þegar einhver hætta skapaðist. Á 85. mínútu fékk Rennes hins vegar eina af fjölmörgum hornspyrnum sínum og upp úr henni jöfnuðu þeir metin með góðu skallamarki, þar sem eitthvað minna fór fyrir dekkningu hjá okkar mönnum. Það leit út fyrir að liðin myndu skipast á jafnan hlut en maður að nafni Oliver Giroud var hins vegar ekki á því að kaupa þá málamiðlun og skoraði sigurmark Chelsea þegar komið var fram yfir venjulegan leiktíma - gott skallamark af mikilli harðfylgni eftir að Werner hafði klúðrað upplögðu marktækifæri.


Einkunnir (0-10)

Mendy – 7. Solid frammistaða hjá Heimaklettinum. Varði nokkrum sinnum vel og gat lítið gert í markinu sem hann fékk á sig. Minnti sína gömlu félaga rækilega á hvað þeir misstu.


Azpilcueta - 6,5. Eftir að hafa vermt varamannabekkinn í síðustu leikjum þá fékk fyrirliðinn sjénsinn og komst vel frá sínu í leiknum. Hvort þessi frammistaða hafi verið nóg til að ýta R. James út verður að koma í ljós - líklega ekki.


Silva - 7. Lítið um bras á þessum bæ.


Zouma - 7. Hann og Silva eru að ná vel saman í vörninni og hann spilar eins og hann sé með sjálfstraustið í botni. Hefði þó viljað sjá betri dekkningu í marki Rennes - þessi maður á ekki ekki að tapa skallaeinvígi.


Chilwell - 5,5. Eftir að hafa verið virkilega flottur upp á síðkastið þá virkaði Chilwell hálf “sloppy” í þessum leik, sbr. tæpar/lélegar sendingar í nokkur skipti.

Jorginho - 6. Var í hlutverki Kante í þessum leik og það er meira en að segja það að feta í þau fótspor. Komst þó vel frá sínum og sendingarnar góðar að venju.

Kovacic - 6. Var orkumikill og ákafur en við stuðningsmenn vitum að hann getur betur.


Mount - 8. Tryggði sér nánast tvo heila með frábærum undirbúningi í fyrsta markinu. Þar fyrir utan átti hann góðan leik. Maður leiksins að mínu mati.


Hudson-Odoi - 7. Kláraði færið sitt mjög vel í fyrsta markinu og vann vel í leiknum. Þá var hann skynsamari á boltann en oft áður. Frammistaða sem gefur góð fyrirheit um framhaldið.


Werner - 5,5. Hefur klárlega átt betri daga. Fékk fín færi sem hann átti að nýta betur. Þarf hann á smá hvíld að halda?


Tammy - 6,5. Duglegur og gerði nokkrum sinnum vel í varnarvinnunni en fram á við var lítið að frétta.


Varamenn

Giroud - 7. Hr. Áreiðanlegur kom inn á þegar rúmar 20 mínútur voru eftir og náði svo sannarlega að setja mark sitt á leikinn með dásamlegu sigurmarki. Fyrir utan markið var hann reyndar ekkert spes.


Kante - 7. Mikilvægi hans á miðjunni kom bersýnilega í ljós eftir að hann kom inn á. Kom með aukið kraft og jafnvægi inn á miðjuna.


Havertz - 5,5. Það fór ekki mikið fyrir Þjóðverjanum knáa eftir að hann kom inn á.


Ziyech - 7,5. Spilaði ekki nema korter en á þeim mínútum var hann virkilega ógnandi og skapaði tvo góð færi með úrvals sendingum. Átti sendinguna á Werner í aðdragandanum að sigurmarkinu.


R. James – spilaði of stutt til að fá einkunn.


Niðurstaða

Virkilega sætur baráttusigur en þó ekki jafn sannfærandi og maður hafði vonast eftir. Sigurinn þýðir að við erum komnir áfram í 16-liða úrslit keppninnar og það gefur liðinu ákveðið andrými upp á deildina að gera. Nú er bara að klára tvo síðustu leikina í riðlinum með bravör og gulltryggja efsta sætið!


Comments


bottom of page