top of page
Search

Real Madrid vs Chelsea - Upphitun fyrir undanúrslit Meistaradeildar Evrópu

Keppni: Meistaradeild Evrópu

Dag- og tímasetning: Þriðjudaginn 27. apríl kl 19:00

Leikvangur: Alfredo Di Stefano Stadium

Hvar er leikurinn sýndur? Stöð 2 sport 2 (opin dagskrá)

Upphitun eftir: Þór JensenEftir afar mikilvægan og nokkuð sannfærandi sigur gegn West Ham um helgina er komið að því. Stóra stundin er runnin upp. Hvítir gegn bláum, Spánn gegn Englandi, risar gegn risum, Los Blancos gegn The Blues, Real Madrid gegn Chelsea.


Óvinsælasti maður fótboltaheimsins í augnablikinu og forseti Real Madrid, Florentino Perez var eins og öllum er nú kunnugt um höfuðpaurinn í European Super League martröðinni. Eftir úrsögn 9 af 12 liðum sem upphaflega ætluðu að taka þátt í deildinni heldur Perez því fram að liðin geti einfaldlega ekki gengið frá borði, eftir að hafa skrifað undir samning við ESL, svo ljóst er að framundan eru einhverjar lagadeilur á milli klúbbanna sem ætti að kynda enn frekar undir bálið á þriðjudaginn. Við ætlum ekki að eyða fleiri orðum um þessa svokölluðu Ofurdeild heldur einbeita okkur að fótboltanum, en Jóhann Már Helgason gerði keppninni góð skil í grein sem má finna hér .


Real Madrid

Madridingar er langsigursælasta lið Meistaradeildar Evrópu með 13 slíka titla í bikarhillunni. Liðin tvö hafa aðeins mæst þrisvar sinnum í sögunni, ótrúlegt en satt, síðast árið 1998. Leikirnir hafa endað með tveimur sigrum Lundúnarmanna og einu jafntefli. Í liði Real Madrid eru tveir fyrrum leikmenn Chelsea, annar hataður en hinn elskaður, þeir Thibaut Courtois og Eden Hazard. Sá síðarnefndi sneri til baka úr meiðslum í síðasta deildarleik Madridarmanna þegar hann kom inn á í 0-0 jafntefli gegn Real Betis. Þetta var þriðja 0-0 jafnteflið í síðustu 4 leikjum liðsins, en þeir eru afar traustvekjandi varnarlega, en gengur oft á tíðum erfiðlega að koma boltanum yfir línuna, svipað og okkar mönnum.


Spánarmeistararnir hafa ekki tapað leik síðan 3. janúar s.l. - 17 leikir í röð án taps í öllum keppnum og ekkert lið hefur skorað oftar en einu sinni gegn þeim í þessari taplausa leikjahrinu. Þeim hefur gengið vel á „nýja“ heimavelli sínum, æfingavellinum Alfredo Di Stefano Stadium, sem þeir nota tímabundið vegna viðgerða á Santiago Bernabeu. Þar höfðu þeir unnið síðustu 5 leiki fyrir jafnteflið gegn Betis um helgina.


Það má með sanni segja að þjálfari Real Madrid, goðsögnin Zinidine Zidane, sé með svarta beltið í Meistaradeildinni, en hann þjálfaði Real Madrid þegar þeim tókst að vinna keppnina þrisvar sinnum í röð í fyrsta sinn í sögunni, 2016, 17' og 18'.


Real menn slógu út Atalanta í 16 liða úrslitum, samtals 4-1 og Liverpool í 8 liða úrslitum, samtals 3-1, til að komast í undanúrslitin. Í fyrri leik þeirra gegn Liverpool pökkuðu þeir þeim rauðklæddu saman þar sem Vinicius Junior átti stórleik. Hann spilaði aðeins 30 mínútur gegn Real Betis um helgina svo að ég tel ansi líklegt að hann verði í byrjunarliðinu á þriðjudag. Þá eru Carvajal og Varane komnir til baka úr meiðslum og munu án efa byrja leikinn og styrkja þeir vörn Real Madrid gífurlega.


Valverde er í einangrun vegna Covid smits og Sergio Ramos, Lucas Vazquez og Ferland Mendy, systkinabarn Eduard Mendy, eru allir meiddir. Casemiro og Modric verða örugglega í byrjunarliðinu en Toni Kroos er að koma til baka úr meiðslum og líklegt þykir að hann byrji leikinn gegn Chelsea.


Þeir Vinicius Junior, Asensio og Benzema verða þá líklega fremstu þrír. Fimm skiptingarnar sem eru leyfðar í Meistaradeildinni munu eflaust nýtast okkur betur en þeim, þar sem þeirra hópur er ekki nærri því jafn breiður og okkar. Líklega munum við sjá okkar mann, Eden Hazard, fá einhverjar mínútur, en vonandi fyrir okkar hönd mun hann hafa hægt um sig. Þá munu Isco, Marcelo og Rodrygo mögulega koma inn af bekknum, en sjáum hvað setur.


Byrjunarlið Madridarmanna verður líklega ca. svona:
Chelsea

Aðeins Mateo Kocacic er á meiðslalistanum hjá Chelsea, en það er stórt skarð höggvið í okkar liði. Það væri frábært að geta notað Króatann knáa gegn sínum gömlu félögum og nýta reynslu hans í Meistaradeildinni, en nóg um það. Jorginho og Kanté munu án nokkurs vafa byrja þennan leik en þeir hafa verið að spila frábærlega saman undanfarið. Chilwell og Reece James byrja líklega í vængbakvarðastöðunum og ég spái því að Rüdiger, Silva og Azpiliqueta myndi hafsenta þríeykið.


Stærsta spurningin í byrjunarliðsmálum hjá okkar mönnum er að vanda hverjir byrja sem fremstu þrír. Það eru þrír hlutir öryggir í þessu lífi, skattar, dauði og að Mason Mount byrji þennan leik. Það verða svo Werner, Pulisic, Havertz og Ziyech sem að munu berjast um hinar tvær stöðurnar, ég hallast að Havertz og Pulisic. Havertz hefur hvílt vel undanfarið og ætti að vera með ferska fætur. Turbo Timo braut markastífluna gegn West Ham en stíflaði hana reyndar aftur með ótrúlegu klúðri seinna í leiknum og ég spái því að Pulisic fái byrjunarliðssætið á hans kostnað. Byrjunarlið Chelsea verður þá eitthvað í þessa áttina:Spá

Þetta veður leikur tveggja varnarliða og ég tel ólíklegt að við munum sjá mörg opin færi í þessum leik. Ég tel að eitt mark munu skilja liðin að fyrir seinni leikinn, og að það verði okkar mark. Ziyech kemur inn af bekknum á 75. mínútu og skorar eftir sendingu frá Kanté, sem bætir það upp að hafa ekki sent boltann á Ziyech þar sem hann hefði komist einn í gegn á móti West Ham, við litla hrifningu Ziyech.


Lokastaða: 0-1 fyrir Chelsea.


KTBFFH

- Þór Jensen

Comments


bottom of page