top of page
Search

Pochettino ráðinn og silly season í hámarki

Eftir Hafstein Árnason





Það er óhætt að segja að stuðningsmenn Chelsea, andvarpi nú í annað sinn á tímabilinu, fyrst þegar liðið fór í HM pásuna og svo núna þegar tímabilinu er loksins lokið. Greinarhöfundar CFC.is hafa reifað málin ágætilega í undanförnum pistlum og við í raun litlu að bæta. Í þessum pistli ætlum við að gera upp tímabilið. Fjalla aðeins um nýja stjórann, leikmenn sem voru að láni, unglingana og framtíðarhorfur. Árangri liðsins má í raun bara lýsa sem fullkomnu hrapi. Liðið hrapaði niður töfluna og endaði í 12. sæti sem er lélegasti árangur liðisins í úrvalsdeildinni. Aldrei skorað jafn lítið af mörkum. Skyndiákvörðunin að reka Thomas Tuchel reyndist mjög afdrifarík. Þegar við teljum saman stigin núna í lok tímabils kom u.þ.b. þriðjungur þeirra á meðan Tuchel stjórnaði liðinu í blábyrjun mótsins. Það er ekki hægt annað en að áætla að eitthvað stórt eða persónulegt átti sér stað á bakvið tjöldin milli stjórnar og Tuchel.


Ráðningin á Graham Potter virkaði vel á blaði. Hann tékkaði í flest öll boxin sem liðið gerði kröfur um. Skemmtilegur fótbolti, árangur hjá liðum með lítið fjármagn á bakvið og svo mætti lengi telja. Eitt þó stóð útaf, að stjórna risastórum leikmannahóp. Það skrifast fyrst og fremst á stjórnina og því miður hafði Potter ekki stjórn á þeim aðstæðum, enda ómögulegt að gera ráð fyrir þessu, þar sem þetta gerist í raun aldrei hjá neinum liðum. Á vellinum náði Potter ekki að smíða almennilegt sóknarlið og klefinn hefur líklega verið mjög eitraður. Á þessari töflu sést greinilega hversu gífurlegt hrunið var á gæðum liðsins.




Sóknarleikur liðsins hrapar um tæp 30 mörk á milli leiktímabila og vörnin fær fleiri mörk á sig en frá tímabilinu á undan sem er þó í eðli sínu ekkert sérstaklega slæmt í samanburði við önnur lið í deildinni. Við erum á nánast á pari við Liverpool, Brentford og Aston Villa. Frank Lampard vakti athygli á því á blaðamannafundi fyrir síðasta leikinn að líkamlegt ástand leikmanna væri ábótavant. Þetta sést einnig glöggt þegar rýnt er í hlaupatölur liðsins gegn andstæðingum. Oftar en ekki voru andstæðingar að hlaupa 10 km. meira en Chelsea í leikjum. Þetta ásamt því að hafa nýtt læknateymi, eftir slakt undirbúningstímabil, mögulega lagt sín lóð á þær vogarskálar, að leikmenn meiddust ítrekað yfir tímabilið og í massavís. Afleiðingin af þessu var sífellt rótering á liðsvali og stöðugleikinn enginn.


Ráðningin á Mauricio Pochettino blæs manni byr í brjóst. Ásamt honum kemur þjálfarateymið með honum til starfa. Jesus Perez aðstoðarþjálfari er sá sem ber ábyrgð á því að koma leikmönnum í topp stand fyrir átök næsta tímabils. Munum einnig eftir því, að undir stjórn Pochettino fóru margir leikmenn á mikið hærra level. Í þessu samhengi við ég sérstaklega nefna Rickie Lambert og Dele Alli. Í viðtali sagði einmitt Rickie Lambert hversu erfiðar æfingarnar hjá Pochettino voru. Endalaus hlaup sem leikmönnum þótti ekki gaman að gera, og ef þeir kvörtuðu undan því, þá ákvað sá argentínski að bæta meiru við. Þetta mentalítet skilaði Lambert sæti í enska landsliðinu og sölu til Liverpool. Sama á við um Dele Alli. Upprisa hans undir stjórn Pochettino gerði hann að nánast jafn mikilli stjörnu og Harry Kane hjá Tottenham og jafnvel hjá enska landsliðinu. Eftir brottför þess argentínska frá Spurs, hefur ferill Dele Alli verið á stöðugri niðurleið. Allir muna nú eftir fræga tiltali Mourinho í Tottenham þáttunum á Amazon varðandi hugarfarið. Það er eitthvað sem Pochettino nær að kveikja á.


Ef hann nær ekki að kveikja í hugarfari leikmanna, þá er hann fljótur að losa sig við þá. Í tilfelli Tottenham var Younes Kaboul, Emmanuel Adebayor og fleirum vísað á dyr. Hann er líka sagður vilja búa til góðan liðsanda, og sá til þess sérstaklega að Daniel Levy lét útbúa grillsvæði á æfingasvæði Tottenham. Þar sem leikmenn gátu tekið saman einn móralskan, og sett eitthvað gott kjöt á grillið. Okkur skilst að þessi kúltúr kemur beint frá Argentínu. Í ljósi ástandsins á Chelsea þessa dagana getum við átt von á því að leikmönnum sem vilja ekki vera þarna, verði fljótt vísað á dyr og úrlausnar krafist í þeirra málum. Uppbyggingarferlið mun þá hefjast. Undirritaður hefur ekki miklar áhyggjur af stjörnustælum vissra leikmanna. Sá argentínski hefur a.m.k. reynslu af því að stjórna klefa með stórum stjörnum og náði víst nokkuð góðu sambandi við Neymar, Messi og Mbappe hjá PSG. Það er því ekki annað hægt en að líta á björtu hliðarnar. Varðandi leikmannamál er Pochettino sagður hafa komið því áleiðis til stjórnar að hann vilji fá markvörð, miðjumann og framherja, óháð því hvort Romelu Lukaku verði áfram eða ekki.


Nú þegar líður á seinni hluta júnímánuðar fara leikmannamálin farin að skýrast. Ákveðið var að senda lánsmennina Denis Zakaria og Joao Felix aftur til sinna klúbba. Samningur N'Golo Kante rann sitt skeið og hefur hann samið við Saudí-Arabíska liðið Al Ittihad. Það er því viss ánægja að N'Golo Kante, einn allra besti leikmaður Chelsea - og sennilega bestu kaup í sögu klúbbsins, verði ekki lengur í evrópufótboltanum. Þurfum ekki að mæta honum á velli.





Áhugi Sádanna hefur einnig náð til leikmanna eins og Edouard Mendy, Kalidou Koulibaly, Hakim Ziyech og Callum-Hudson Odoi. Það var búist við því að Mendy og Ziyech myndu yfirgefa klúbbinn, en það er líklegt að uppúr þessu náum við 40-60m punda sölu í heildina, sem verður að telja ansi gott. Þessir leikmenn eiga það sameiginlegt að vera múslimar sem Sádarnir hljóta sannarlega horfa til. Hudson-Odoi, eitt sinn bjartasta von Chelsea, hefur átt brattann að sækja undanfarin misseri. Eftir að hann sleit hásin hefur hann ekki verið sami leikmaðurinn. Hann fékk nánast engin tækifæri á láni hjá Bayer Leverkusen síðari hluta síðasta tímabils. Ekki er þó víst hvort CHO vilji fara til Sádí, eitthvað segir manni að klúbburinn sé að ýta honum þangað.

Brottför Koulibaly er nokkuð óvænt, þar sem hann er einn launahæsti leikmaður liðsins, en það er nokkuð líklegt að hann fái svipaðan launapakka í eyðimörkinni. Brotthvarf hans verður að teljast sem leið klúbbsins, til að sannfæra Levi Colwill til að skrifa undir nýjan samning við félagið. Hvað Koulibaly varðar, þá verður að segjast að hann stóðst ekki væntingar, og í ljósi viðkvæmrar samningsstöðu við Colwill og FFP reglna er þetta líklega rétt ákvörðun.


Annar þungur launabaggi er Lukaku. Boehly og félagar víst buðu hann til Saudi Arabíu sem fór ekki vel í okkar mann í Mílanó. Það er talið að hann ætli að ferðast strax til London eftir landsleikjahléið með lögfræðinginn sinn og koma þessu endanlega fyrir með Inter. Ítalarnir eru þó í hrikalegum fjárhagslegum kröggum, eiginlega meira en Barcelona. Síðustu fregnir herma að Chelsea ætli að athuga með að skipta á Lukaku og Nicolo Barella. Andre Onana hefur einnig verið nefndur en sagt er að Manchester United séu skrefinu framar að klófesta hann. Inter eru þegar farnir að huga að Guglielmo Vicario, markverði Empoli til að fylla skarð Onana. Næsta vika kemur til skera úr um hvað verður um Lukaku og hvaða leikmaður komi í staðinn, eða hvort við sitjum uppi með hann.


Aðrir leikmenn sem eru nánast bókaðir í burtu eru Mateo Kovacic til Manchester City, Mason Mount til Manchester United og Kai Havertz til Arsenal. Að mínu mati er Kovacic málið nánast fullklárað og hans vitjunartími er liðinn hjá Chelsea. Mason Mount er sagður búinn að gera upp sinn hug, en eitthvað segir mér að hann verði með okkur á undirbúningstímabilinu í júlí. Það hangir mjög mikið á kaupum Sádanna og hvort Arsenal ætli að splæsa 50-60m punda í Kai Havertz. Þessi verðmiði á Kai fældi til dæmis Real Madrid frá, en fyrir einhverja sérstakar ástæður hefur Mikel Arteta miklar mætur á Kai Havertz. Sagt er að samningar milli Kai og Arsenal séu klárir og það munar örlitlu á milli hjá klúbbunum. Það verður að segjast að þetta bjargar miklu fyrir bókhaldið hjá klúbbnum og er líklegt til að halda okkur innan ramma FFP. Munum að sölutekjur er allar bókaðar á bókhaldsári, en kaupin dreifast á samningstíma. Eitthvað tap verður þó bókað á leikmennina sem eru seldir. Í stóra samhenginu skiptir það ekki öllu máli, en byrðin í launabókhaldinu léttist umtalsvert, sérstaklega ef Lukaku, Koulibaly og Havertz fara. Einnig er Pierre Emerick Aubameyang einn af launahærri leikmönnum liðsins, og sagt er að hann sé að fara til Sádi Arabíu líka, en orðrómurinn hefur hljóðnað heldur með hann. Búist er þó við því að hann fari á endanum - í versta falli gert upp við hann og honum vísað á dyr. Í þessari samantekt eru ca. átta leikmenn á útleið. Miðað við ofantalda leikmenn og vænta sölu á Mason Mount er klárt að heildar sölutekjur fara sennilega yfir 100 milljónir punda. Klúbburinn þarf samt að hreinsa meira til, enda eru Azpilicueta, Pulisic og Loftus-Cheek sagðir á útleið, en engin konkret tilboð liggja á borðinu. Þar fyrir utan var Dujon Sterling, leikmaður sem var á láni á síðasta tímabili, látinn fara frítt til Glasgow Rangers. Einn leikmaður virðist vera alls ekki á förum, en það er Conor Gallagher. Hann er sagður henta vel leikstíl Pochettino með sinni góðu hlaupagetu.


Leikmenn sem eru á leiðinni til okkar eru auðvitað Malo Gusto og svo Christopher Nkunku sem getur reynst algjör reyfarakaup. Hann var keyptur fyrir 56m punda og skrifaði undir 6 ára samning. Það gera tæpar 9m á ári bókhaldinu. Miðað við hvernig markaðurinn er núna, þá verður að segjast að Nkunku sé einn mest spennandi leikmaðurinn í boði og prísinn ekki svo ýkja mikill. Vonum að hann standist væntingar á vellinum.




Markmannamál

Varðandi markmenn, þá hafa Andre Onana, Mike Maignan og David Raya verið orðaðir við klúbbinn. Þó er ekki útilokað að Kepa verði aðalmarkvörður liðsins. Onana er orðaður sterklega við Man Utd eins og áður sagði, og sagt er að Maignan hafnaði Chelsea. David Raya virðist vera á leiðinni til Tottenham, en það yrði ekki í fyrsta skipti sem við myndum stela leikmanni frá þeim. Undirritaður er þó mest hrifinn af Emi Martínez hjá Aston Villa, en það er ekkert að frétta með hann. Í rauninni er ekkert að frétta með markvarðamálin.


Miðjumannamál

Miðjumannskaup hafa verið í deiglunni. Við vorum næstum því búnir að klófesta Manuel Ugarte en PSG buðu betur, því miður. Tölfræði hans var mjög lofandi. Chelsea hafa boðið 60m evra í Aurelien Tchouameni hjá Real Madrid, sem var hafnað, en 80m evra tilboð er líklega á leiðinni. Aðrir miðjumenn, að frátöldum Nico Barella, virðast ekki vera á radarnum m.v. slúðurmiðla. Moises Caceido er einnig orðaður við klúbbinn en ekkert konkret tilboð hefur verið lagt fram.


Framherjamál

Það verður að segjast að það hefði verið fullkomið að fá Harry Kane, en algjörlega ómögulegt að ganga frá því. Markaðurinn fyrir alvöru 9'ur er hræðilegur í augnablikinu. Victor Osimhen er einnig mögulegur, en Aurelio De Laurentis þarf ekki að selja hann í sumar og verðið sem hann vill fá að minnsta kosti eru 150 milljónir evra. Bókhaldið heimilar ekki slíkar æfingar, eftir allt sem er á undan gengið. Sama virðist vera uppá teningnum með Dusan Vlahovic hjá Juventus. Það sem virðist vera ganga upp eru kaup á senegalska framherja Villareal, Nicolas Jackson. Hann er 21 árs og skoraði 12 mörk í 35 leikjum í La Liga. Tímabilið á undan skoraði hann ekkert í 9 leikjum. Vissulega ungur, en væntanlega einhver analýsukaup á Wyscout. 29m evra fyrir þennan leikmann. Get ekki sagt að hann kveiki í Stamford Bridge með þessar tölur, en dæmið er lýsandi um stöðuna á leikmannamarkaðinum.


Hann bætist þó í hóp ungra og efnilegra leikmanna sem klúbburinn hefur keypt í undanförnum gluggum. Við erum með Gabriel Slonina, einn efnilegasta markvörð heims. Hann þarf að fá mínútur á láni hjá öðrum klúbbi, ekki ósvipað því þegar Chelsea lánaði Courtois til Atletico Madríd hér um árið. Við fengum Noni Madueke og Carney Chukwuemeka í janúar - þeir eru báðir leikmenn U21 liðs Englands, ásamt Harvey litla Vale, sem var á láni frá okkur. Það er þó tveir leikmenn sem standa sérstaklega uppúr af þessum ungu. Það eru Andrey Santos, 19 ára brasilískur strákur sem er þegar búinn að spila slatta af leikjum fyrir Vasco Da Gama og skora einhver mörk (af miðjunni!), ásamt því að ná einum landsleik fyrir brasilíska A-landsliðið. Það virðist vera allt klárt með atvinnuleyfið á Englandi. Það er búist við því að hann spili með Chelsea á næsta tímabili.


Hinn ungi leikmaðurinn er hinn ítalski Cesare Casadei. Sá var byrjaður að banka á dyrnar hjá aðalliði Inter áður en Chelsea keyptu hann fyrir 20m evra. Hann fór á láni til Reading eftir áramót og skoraði 1 mark í 15 leikjum. Núna í sumar dróg hann ítalska U20 ára liðið alla leið í úrslitaleik EM U20. Ekki nóg með það var hann markahæstur leikmaður mótsins með einhver 7 mörk af miðjunni og heldur var hann kosinn leikmaður mótsins. Það er þó líklegt að hann fari aftur að láni til að sanka að sér reynslu. Það er óhætt að segja að þeir séu mjög efnilegir þessir leikmenn. Kendry Paez, 16 ára "wonderkid" er einnig á leiðinni, en alltof snemmt að segja eitthvað til um þann snáða, en langtímastrategía Boehly og félaga gæti reynst hagkvæmasta leiðin þegar upp er staðið.


Það er ein og hálf vika þar til bókahaldstímabilinu lýkur fyrir þetta rekstrarár. Það er búist fastlega við því að miklar sviptingar munu eiga sér stað í sölumálum. Við höfum loksins sagt skilið við Timoye Bakayoko (já hann var á launaskrá). Einnig er óljóst hvað verður um Ethan Ampadu, Malang Sarr, Tino Anjorin, Baba Rahmann o.fl. "fringe" leikmenn. Hópurinn verður að mestu leyti klár í undirbúningstímabilið og bandaríkjatúrinn sem er framundan. Alltaf spennandi tímar hjá Chelsea.


KTBFFHH

Comments


bottom of page