top of page
Search

Newcastle kemur í heimsókn - Hver verður næsti eigandi Chelsea?

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: Sunnudagurinn 13. mars kl. 14:00

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport.

Upphitun eftir: Jóhann Már Helgason


Það hefur verið sagt að vika væri langur tími í pólitík. Mér finnst það eiga ágætlega við hér, á örfáum dögum er Chelsea búið að fara frá því að fagna heimsmeistaratitli félagsliða, yfir í það að vera til sölu, yfir í það að vera frosin eign eiganda síns. Strangt tiltekið þýðir þetta að Chelsea má hvorki taka við neinum greiðslum né greiða neina peninga út. Nema hvað að klúbburinn fékk undanþágu til að halda rekstrinum sínum gangandi á algerum lágmarks forsendum.


Chelsea má spila leiki, borga laun og fær mjög lítin pening (20 þúsund pund) til þess að ferðast í útileiki, einnig megum við selja veitingar á leiki, en aðeins fyrir 500.000 pund, þetta þýðir að ríka fólkið í "boxunum" eða svítunum munu ekki geta keypt neina þjónustu.


Klúbburinn má hins vegar ekki selja neinn varning (prufið bara að fara inn á Chelsea Megastore á netinu), má ekki gera neina nýja samninga eða stofna til neinna nýrra viðskiptasambanda með einum eða neinum hætti. Til þess að bæta gráu ofan á svart ákvað Barcleys bankinn að loka bankareikningum félagsins þangað til að þessi blessaða undanþága væri komin í gegn (sem á víst að gerast núna um helgina).


Svo hafa tveir af okkar stærstu styrktaraðilum ákveðið að slíta tengslum við félagið, að minnsta kosti í bili, hvað sem það nú þýðir. Þetta eru Three og Huyndai.


Hvað næst?

Það gefur auga leið að félagið getur ekki lifað marga daga með lokaða bankareikninga og lokuð kreditkort. En af fréttum að dæma á það að leysast strax á mánudag. Það væri heldur ekki í anda yfirlýsingu breskra yfirvalda þegar frystingin átti sér stað, þar var talað um að passa upp á að félagið myndi ekki lenda í of harkalegum aðgerðum.


Eins og staðan er akkurat þegar þetta er ritað eru tveir fjárfestingahópar sem virðast ætla að kljást um það að verða næstu eigendur Chelsea Football Club. Þetta eru annars vegar hópur sem leiddur er áfram af Todd Bohely, Hansjorg Wyss og Jonathan Goldstein. Allir þessir menn eru sterkefnaðir og saman mynda þeir öfluga heild.


Hinn hópurinn kemur frá Sádí Arabíu og leiddur af Mohamed Alkhereiji sem er Stjórnarformaður Saudi Media Group og er metinn á heila 3 milljarða punda - hann einn á fyrir salti í grautinn og myndi koma með 1-2 aðra jafn sterka aðila með sér.


Það er örlítið skondið að fylgjast með það hvaða fjölmiðamenn þessir hópar skiptast á leka upplýsingum til. Matt Law hjá Telegrap fær greinilega allar upplýsingar um Todd Bohely og félaga á meðan Goal.com blaðamaðurinn Nizar Kinsella fær allt frá Sádunum.

Hvor þessara aðila um verða næstu eigendur Chelsea (eða einhver annar) kemur vonandi í ljós á allra næstu dögum. Búið er að framlengja frestinn til að taka við tilboðum fram til 18. mars nk. Það er Riyad Bank í New York sem sér um ferlið og munu fræðilega séð velja næsta eiganda Chelsea þar sem Roman Abramovich má ekki koma nálægt ferlinu.


Vonandi leysist þetta sem fyrst.


Leikurinn gegn Newcastle

Núna skukum við ræða fótbolta. Í öllu þessu fárviðri hafa tvei einstaklingar staðið sig eins og algerar hetjur og það eru Thomas Tuchel og Emma Hayes, þjálfarar aðalliða félagsins. Það eru þau sem þurfa að standa fyrir framan myndavélarnar og taka við spurningum. Thomas Tuchel er nánast orðin goðsögn hjá stuðningsmönnum Chelsea eftir að hann sagði að svo framarlega sem þeir hefðu búninga og rútu til að skutla sér í leiki myndi liðið "compete and compete hard!" . Það sást vel hvað Tuchel hafði tekist að nýta þessu umræðu sem orku inni á vellinum gegn Norwich, því liðið mætti snælduvitlaust til leiks gegn Norwich og voru komnir í 2-0 eftir 14. mínútna leik.


Það eru nokkur skörð í hópnum, Reece James, Chilwell og Hudson-Odoi eru allir frá vegna meiðsla á meðan Pulisic, Azpi og Alonso voru/eru að glíma við einhverskonar veikindi (ekki covid). Með öðrum orðum, allir sem geta spilað vængbakvörð eru eru annað hvort meiddir eða tæpir.


Mendy verður í markinu, Rudiger kemur aftur inn í liðið og verður vonandi með Christensen og Thiago Silva í öftustu línu. Kante og Kovacic verða svo líklega á miðri miðjunni. Ef allir vængbakverðirnir eru annað hvort meiddir eða veikir verða það líklega Saul og Loftus-Cheek sem manna þær stöður! En ég ætla að giska á að Alonso og Azpi verði búnir að jafna sig og mæti til leiks. Í framlínunni spái ég svo Havertz, Mount og Romelu Lukaku.Newcastle

Eddie Howe, vopnaður peningum frá Sadí Arabíu, er búinn að gera stórkostlega hluti með Newcastle. Þeir eru eitt heitasta lið England og hafa unnið 5 af síðstu 6 leikjum og eru komnir upp í 14. sæti - Það er engin að tala um neina fallbaráttu núna hjá Newcastle.


Það vantar nokkra sterka leikmenn í lið Newcastle. Kieran Trippier er frá og sömuleiðis Callum Wilson. Þá eru Alan St. Maximin, Fabian Schar og Joelinton allir tæpir.


Eddie Howe keypti vel inn í janúar og hafa leikmenn eins og Dan Burn og Matt Targett komið virkilega vel inn í liðið í undanförnum leikjum. Bæði Chris Wood og Bruno Guimarães skoruðu í síðasta leik á meðan Ryan Fraser er búinn að vera stórkostlegur undanfarnar vikur.


Newcastle munu mæta með kassann út og sjálfstraustið í botni, svo mikið er víst.


Spá

Þetta eru tvö lið sem eru á fínu skriði. Þetta verður líka tilfinningaþrunginn leikur fyrir okkar menn þar sem allt þetta sem gengur á utan vallar mun hafa áhrif og vonandi tekst Tuchel að nota þessa umræðu til þess að búa til einingu meðal leikmanna.


Spái 3-1 sigri þar sem Lukaku hrekkur í gang og skorar tvö mörk á meðan Havertz setur eitt.


KTBFFH

- Jóhann Már

Comments


bottom of page