top of page
Search

Nýtt upphaf, nýtt tímabil, nýtt lið! Chelsea mætir á Goodison Park

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: 6. ágúst 2022

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn sport

Upphitun eftir: Hafstein Árnason





Eftir mjög viðburðarríkt sumar er komið að því. Nýtt tímabil hefst í ensku úrvalsdeildinni strax í kvöld, en á morgun eigum við útileik við Everton á Goodison Park. Það er óhætt að segja að sumarið hefur verið hlaðið dramatík. Eigendaskiptin gengu í gegn eftir mikið bras og skyndiáhlaups Vopnafjarðar-Jim Ratcliffe. Allt kom fyrir ekki og bandaríski hópurinn, frontaður af Todd Boehly, einnig þekktum sem „Big balls Boehly“ og „The Toddfather“, beið ekki boðana og vatt sér strax í kaupa Raphinha frá Leeds. Úr varð, einhver mesti farsi í heimi fótboltans. Ponzi-svikamylluliðið Barcelona, tókst á einhvern ótrúlegan hátt, að kaupa hann og Joules Kounde eftirminnilega, þrátt fyrir að eiga í rauninni ekki bót fyrir boruna á sér. Þegar þetta er ritað, eru Barca ekki ennþá búinir að skrá alla leikmennina sína hjá La Liga. Líklega hafa Joan Laporta og félagar að horft til Gaudí eða Picasso þegar að kom að þessari listsköpun í bókbaldsbrellum og skuespili.


Þrátt fyrir þetta, hafa sterkir leikmenn komið til Chelsea. Raheem Sterling, Kalidou Koulibaly og Marc Cucurella voru keyptir, ásamt ungum leikmönnum á borð við Carney Chukwuemeka, Gabriel Slonina, og Omari Hutchinson. Talað var um að kaupa sex leikmenn í aðalliðið, þannig að búast má við fleiri leikmönnum. Wesley Fofana virðist vera næsta markmið hjá stjórninni, en svo hafa leikmenn eins og Pierre Emerick Aubameyang og Frenkie De Jong verið orðaðir við liðið. Það er mjög erfitt að átta sig á stöðunni, en líkur eru á að þessar þrjár stöður, miðvörður, miðjumaður og framherji sé það sem vantar uppá. Þeir leikmenn sem eru helst orðaðir frá klúbbnum eru Marcos Alonso, Malang Sarr, Hakim Ziyech og Timo Werner. Auk þess má búast fastlega við því að Billy Gilmour, Ethan Ampadu og Harvey litli Vale fari burt á láni, en aðrir leikmenn fengu ekki fast númer voru til að mynda Ross Barkley, Kenedy, Matt Miazga og Michy Batshuayi. Það er verið að hreinsa launaskrána all hressilega og miðað við reynslu Boehly hjá LA Dodgers, þá er yfirleitt gert upp við óþarfa leikmenn, þannig að þeim er vísað á dyr, fljótt og örugglega. Ekkert hálfkák.


Undirbúningstímabilið í Bandaríkjunum gekk brösulega, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Alltof margir óþurftar leikmenn fengu of margar mínútúr og úrslitin í raun eftir því. Það sem er algjörlega skýrt, er að Thomas Tuchel mun halda sig við 3 manna vörnina, eftir að 4 manna varnarlínupælingin gekk alls ekki upp. Það kannski kann að skýra afhverju Frenkie De Jong er orðaður við liðið. Það sem er þó ánægjulegt að greina frá, er að Conor Gallagher og Armando Broja eru komnir í hópinn eftir fínt gengi á síðasta tímabili hjá Crystal Palace og Southampton. Ein helsta vonarstjarna klúbbsins, Levi Colwill, sem var á láni hjá Huddersfield, á síðasta tímabili, fer til Brighton á láni sem hluti af Cucurella viðskiptunum. Við hvetjum alla Chelsea stuðningsmenn til að fylgjast vel með Levi Colwill á komandi tímabili. Sá leikmaður er sagður vera á pari við Reece James, þegar hann var í láni hjá Wigan – jafnvel aðeins betri!


En að leiknum sjálfum. Everton hefur einnig gengið brösulega á undirbúningstímabilinu. Í heildina mætti segja að Everton hafi ekki bætt sig neitt sérstaklega. Eru búnir að missa Richarlison, Gylfa Sig, Cenk Tosun og Fabian Delph, en hafa einungis fengið Dwight McNeil og James Tarkowski frá Burnley, Nathan Patterson frá Rangers, ásamt Ruben Vinagre frá Sporting að láni. Everton hafa semsagt, ekki eytt miklu á markaðnum, sem er vísbending um að fjárhagsstaðan hjá þeim sé ekki ýkja beysin. Frank Lampard hefur verið að spila 3-4-3 að undanförnu og mætti því búast fastlega við því að það verði svo á morgun. Líklegt byrjunarlið hjá Everton verður: Pickford í marki, Godfrey, Mina og Tarkowski í vörn, Patterson og Mykolenko í vængbakvörðum, Doucouré og Iwobi á miðjunni, Anthony Gordon og Demerai Gray á köntum og Dele litli Alli á topp. Domnic Calvert Lewin er meiddur og Salomon Rondon er í leikbanni.







Við búumst við því að Thomas Tuchel stilli í 3-4-3. Mendy verður í markinu, Azpilicueta, Thiago Silva og Koulibaly verða í vörninni. Ben Chilwell og Reece James verða vængbakverðir, N‘Golo Kante og Kovacic á miðjunni. Raheem Sterling og Mason Mount verða undir Kai Havertz. Þetta ætti að vera fróðlegur leikur. Allir leikmenn eru klárar nema Timo Werner sem er meiddur. Miðað við allt brasið á undirbúningstímabilinu býst ég við að liðið spili varfærnislega fyrstu leikina til að slípa liðið til og koma nýjum leikmönnum í ryþma. Segjum að leikurinn endi 0-1 fyrir Chelsea, óvænt mark frá Conor Gallagher af bekknum.




Comments


bottom of page