top of page
Search

Nýtt tímabil framundan eftir ágætan undirbúning

Eftir Hafstein Árnason
Já góðan daginn kæru félagar! Eftir myrkur og mannaskít á síðastliðnu tímabili horfir til betri vegar. Chelsea fóru í vel heppnaðan túr um Bandaríkin þar sem liðið mætti Wrexham, Brighton, Newcastle, Fulham og Borussia Dortmund. Skemmst er frá því að segja að liðið tapaði ekki einum leik á þessu undirbúningstímabili. Það gerðist síðast árið 2011 og óhætt er að segja að fjölmargir leikmenn fengu tækifæri til að láta ljós sitt skína, og þá sérstaklega ungu leikmennirnir.


Þeir leikmenn sem voru meiddir yfir allan túrinn, en eiga samt enn erindi hjá liðinu, voru Armando Broja, Benoit Badiashile, Wesley Fofana, Noni Madueke og faktíst séð, Faustino Anjorin - en hann hefur verið meiddur á ökkla síðan í janúar. Framtíð Anjorin er nokkuð óljós en líklegt er að Broja, Fofana, Badiashile og Madueke haldi sínum sæti í hópnum á komandi leiktíð. Þeir leikmenn sem tóku engan þátt í túrnum en eru samt á launaskrá, en ekki meiddir, eru Romelu Lukaku, Hakim Ziyech, Callum Hudson Odoi og Malang Sarr. Þetta er svokallað bomb squad. Leikmenn sem hafa ekkert erindi lengur í klúbbnum og eru líklega á leiðinni í burtu. Ziyech er ennþá líklegur til liðs í Saudi Arabíu þrátt fyrir að hafa fallið á læknisskoðun fyrr í sumar. Callum Hudson Odoi er sagður fara til Fulham fyrir klink. Malang Sarr og Romelu Lukaku deildu sama umboðsmanni og komu í raun til Chelsea í tvennutilboði. Síðan þá hefur Lukaku losað sig við þann umboðsmann, brennt þá brú til kaldra kola, eins og hann er þekktur fyrir. Malang Sarr á ekkert erindi lengur í liðinu, ekki frekar en Papy Djilobodji átti (við losuðum okkur líka við hann í sumar - og jú, líka Timuye Bakayoko, munið þið eftir honum?!).


Þeir bætast við hópinn af leikmönnum sem hafa verið seldir frá klúbbnum. Og það er aldeilis útsalan. Af einhverjum ótrúlegum ástæðum gat klúbburinn selt Kai Havertz fyrir topp dollar til Arsenal. Gangi honum vel í Norður-Lundúnum á sykurkúrnum. Mason Mount var seldur til Manchester United eftir að samningaviðræðum sigldu í strand. N’Golo Kante, Kalidou Koulibaly og Edouard Mendy fóru til Sádi Arabíu og með þeim fyrrnefndu var miklu álagi létt af launaskrá. Mateo Kovacic var seldur til Manchester City. Ruben Loftus-Cheek og Christian Pulisic fóru til AC Milan fyrir hófsamar upphæðir og Ethan Ampadu til Leeds. Pierre Emerick Aubameyang fór frítt til Marseille og César Azpilicueta fékk heiðursriftun á sínum samningi til að ganga til liðs við Atletico Madríd. Ekki er útilokað að Dave snúi aftur til félagsins í framtíðinni, en hann hefur unnið sér inn gott orð fyrir vel unnin störf hjá Chelsea. Svo fór Baba Rahmann víst til PAOK í Þessalóníku og David Datro Fofana er farinn á láni til Union Berlín í Bundesligunni. Heilt yfir eru þetta um 250 milljónir evra í sölutekjur og sparnaðurinn annað eins. Bomb squad leikmennirnir eiga svo eftir að bæta við þennan lista, þannig að við getum áætlað sirka 300 milljón evra í sölutekjur á þessu ári.


Leikmenn sem hafa komið í staðinn eru til að mynda Christopher Nkunku sem átti prýðilegt undirbúningstímabil. Skoraði og lagði upp nokkur mörk. Virðist geta leikið í nokkrum stöðum sem ætti að henta okkur nokkuð vel. Að vísu meiddist hann í leiknum gegn Dortmund eftir að hafa fengið högg á utanvert hnéð, en við vonum það besta. Annar leikmaður sem hefur fengið töluvert af mínútum og komið mér mjög mikið á óvart er Nicolas Jackson. Hann átti góðan sprett undir lok tímabilsins hjá Villareal, eftir að hafa fallið á læknisskoðun þegar önnur lið eins og West Ham og Bournemouth ætluðu að fá hann janúar síðastliðnum. Það er óhætt að segja að Jackson minnir óneitanlega mikið á Didier Drogba. Berum saman myndir af því þegar Drogba var hjá Marseille og Jackson hjá okkur. Það er svipur með þeim! Nicolas Jackson tekur mikið til sín og er óeigingjarn að taka hlaup fyrir liðsfélaga. Samvinna hans og Nkunku lofar mjög góðu - þetta eru sóknarmenn auk, Mudryk sem ég tel eigi eftir að vinna hug og hjörtu stuðningsmanna Chelsea í ár.

Við fengum einnig hægri bakvörðinn Malo Gusto frá Lyon. Ef Reece James meiðist, þá erum við með býsna gott backup í Gusto. Hann stóð sig mjög vel í öllum leikjum, bæði varnarlega og sóknarlega. Ég á síður von á því að leikur liðsins hrynji ef Reece James meiðist. Dropoff milli þeirra er töluvert minna en frá því sem áður var. Einnig erum við með annað lúxusvandamál vinstra megin, þar sem við höfum á fjórum vinstri bakvörðum að ráða. Það er auðséð að Ben Chilwell eigi þá stöðu, en til vara eru Ian Maatsen, Marc Cucurella og Lewis Hall. Miðað við mínútufjöldann sem Lewis Hall fékk á undirbúningstímabilinu, eru yfirgnæfandi líkur á því að hann fari einhvert á láni. Eftir standa Maatsen og Cucurella. Marc Cucurella átti satt best að segja, frekar brösulegar frammistöður í undirbúningsleikjunum. Það myndi ekki koma á óvart ef hann yrði seldur áður en glugginn lokar, til þess að rýma fyrir Maatsen. Ian Maatsen stóð sig frábærlega vel en spilaði samt aldrei í vinstri bakverði, heldur sem vinstri kantur eða í holunni. Hann hefur bætt sig mjög mikið undir stjórn Vincent Kompany. Það má leiða líkur að því, að staða Cucurella hafi áhrif á hvað verður um Maatsen. Við þurufm þó að sjá Maatsen í bakvarðastöðunni áður en dómur er kveðinn.
Á miðjunni fengum við að sjá róteringar milli leikmanna eins og Cesare Casadei og Andrey Santos. Báðir bráðefnilegir ungir leikmenn og fengu fjölda mínútna til að sanna sig. Orðið á götunni er að Andrey Santos fái hlutverk í liðinu á komandi leiktíð en Casadei fær annað lán til að þróa sinn leik. Eina óvissan í þessu er í raun hin væntu kaup á Moses Caceido frá Brighton. Hans koma mun tryggja að Casadei verði lánaður. Hinsvegar reynist erfitt að ná samkomulagi við Dr. Evil í Brighton, þar sem hann setur litla fingur upp við munn og krefst 100 milljóna punda fyrir Caceido. Við hefðum betur eytt hluta af þeirri upphæð í Manuel Ugarte, sem ákvað að semja við PSG. Þar fór góður biti í hundskjaft.


Aðrir ungir og nýjir leikmenn spreyttu sig í leikjunum eins og Angelo og Diego Morieira. Báðir 18 ára gamlir, en Angelo stóð sig ágætlega en það verður að segjast að Diego Morieira er líklegur í U21 varaliðið. Sama má segja um Alfie Gilchirst, Mason Burstow og Bashir Humphreys. Þeir fengu góð tækifæri en líklega var það ekki nóg til að verðskulda sæti í ofvaxna hópnum okkar. Varamarkverðirnir fengu allir séns til að spreyta sig, og þá má sérstaklega nefna Lucas Bergström, Jamie Cumming og Gabriel Slonina. Þar sem Robert Sánchez er að koma frá Brighton til að berjast við Kepa um markvarðastöðuna og Bettinelli verði þriðji markvörður, þá munu ungu markverðinir allir fara á lán. Það er komið í ljós að Slonina, sem er klárlega lang efnilegastur, að hann semji við belgíska liðið KAS Eupen sem Guðlaugur Victor Pálsson leikur með.


Eins og staðan er núna, þá er leikmannahópurinn ennþá of stór, en samt ákváðu Chelsea að semja við um kaup og kjör á miðverðinum Axel Disasi frá Monaco (vegna meiðsla Wesley Fofana). Disasi var paraður áður með Benoit Badiashile. Það þýðir að Vottur Chalobah er í raun á sölulista. Það er þó ekki búið að staðfesta þessi kaup, en þetta er staðan. Hinsvegar er 45m punda verðmiði á Chalobah að fæla áhugasöm lið frá. Hann hefur verið orðaður í allt sumar við Inter, en þá líklegast bara að láni. Við munum svo að það er hámark á því hversu margir leikmenn geta farið á láni. Chelsea keypti einnig ungan miðjumann, Lesley Ugochukwu, frá Rennes, en líklegt að hann endi í Strasbourg til að þróa sinn leik frekar þar.


Aðrir leikmenn sem eru falir fyrir rétt verð eru til að mynda Raheem Sterling og Conor Gallagher. Vandamálið með Conor er að hann virðist ekki passa í hlutverk djúpa miðjumannsins í 4-2-3-1 kerfi Pochettino. Caceido málið mun einnig hafa bein áhrif á hann. Ef Pochettino ætlar að breyta í 4-3-3, sem telst sennilega ólíklegt, þá hefur Gallagher hlutverk. En ef marka má þetta undirbúningstímabil, þá er sá argentínski búinn að negla niður leikstíl og leikkerfi, sem er kærkomin breyting frá tímum Lampard og Graham Potter. Þeir vissu aldrei sitt besta kerfi, né besta byrjunarlið. Raheem Sterling hefur ekki sýnt neinar gloríur á undirbúningstímabilinu og fær hann frá undirrituðum lægstu einkunn ásamt Marc Cucurella. Ef það tekst að selja þessa þrjá leikmenn, þá erum við að tala um kannski aðrar 100 milljónir punda sem nær ef til vill að fullnægja Dr. Evil í Brighton.


Það plús bomb squad sölur munu örugglega slá einhver heildarsölumet. Lukaku er samt erfiður viðureignar en við skulum þakka fyrir að Massimiliano Allegri, þjálfari Juventus, er eini maðurinn í þessari veröld sem horfir á Lukaku jákvæðum augum. Juventus réðu Christiano Giuntoli frá Napoli (þessi sem fann Kvicha Kvaratskelia og Kim fyrir þá bláklæddu) til að sjá um leikmannakaup. Hann er settur í það hlutverk reyna fá Romelu Lukaku til Juventus. Það atriði eyðilagði alla möguleika Inter. Þeir móðguðust sárlega að Lukaku skyldi í raun hlusta á Juventus, sína erki-óvini. Tryggð er ekki til í bókum Lukaku. Hann er dæmisagan um sporðdrekann. Það er víst algjörlega nauðsynlegt að koma honum burt frá Chelsea með öllum tiltækum ráðum. Til þess að láta það ganga upp eru Juventus að biðja um Lukaku og 30-40m evra fyrir Dusan Vlahovic. Sá serbneski passar engan veginn inn í leikstíl Allegri hjá Juventus. Þessvegna eru þeir tilbúnir að láta hann frá sér, fyrir Lukaku, sem hentar töluvert betur fyrir Allegri, í varnarsinnaðan skyndisóknarbolta, þrátt fyrir að vera 10 árum eldri.
Hvað græðir Chelsea á Dusan Vlahovic? Þeir sem þekkja til ítalska boltans muna eftir Vlahovic hjá Fiorentina, og þá sérstaklega þegar Vincenzo Italiano tók við. Italiano spilar sóknarþenkjandi pressubolta (fróðleikur um það hér), ekki svo ólíkt De Zerbi hjá Brighton eða Pochettino hjá Chelsea og Tottenham. Vlahovic myndi klárlega passa betur hjá Chelsea en hjá Juventus, en hvað þýðir það fyrir Nicolas Jackson? Þetta er klárlega betri staða samt en að hafa Lukaku og Jackson í liðinu. Munum líka, að síðast þegar við vorum með serba og leikmann frá Vestur Afríku í framherja stöðum, þá voru það Didier Drogba og Mateja Kezman undir stjórn Mourinho. Ég tel að Chelsea ættu að ná lausn við Juventus og losa okkur um Lukaku í eitt skipti fyrir öll. Það græða allir á þeim vistaskiptum. Eini gallinn við Vlahovic er meiðslasagan hans, en gaurinn kann að slútta færum. Það er það sem stendur til bóta eftir hörmuleg tímabil.Leikir, mörk og stoðsendingar hjá Dusan Vlahovic undir mismunandi þjálfurum. Heimild: Transfermarkt


Eitt slúður sem er kannski vert að minnast á. Kylian Mbappe er á sölulista hjá PSG. Það er nokkuð augljóst að hann sækist eftir Real Madrid eftir þetta tímabil. Hinsvegar hafa borist fréttir af því að Todd Boehly sé að kanna möguleika á fá hann til Chelsea. Erum þó þegar vel mannaðir á vinstri kantinum með Mudryk, Nkunku, Jackson, Sterling, Maatsen o.fl. til að fara í þá stöðu. Í mínum huga er alveg tilgangslaust að fá leikmann til okkar til eins árs, þegar hugurinn stefnir annað. En allt getur gerst! Talað er um það að Luis Enrique muni hætta hjá PSG ef þetta verður að veruleika. Ágúst mánuður á því eftir að verða fjörugur hvað þessi mál varðar.


Framundan er leikur við Liverpool og undirritaður er vægast sagt spenntur fyrir því sem er á sjóndeildarhringnum. Pochettino virðist líka píska leikmannahópinn til, þannig að líkamlegt form á að vera til fyrirmyndar. Við göngum brattir og hnarreistir til leiks! KTBFHH!1 comentário


Benedikt Gudmundsson
Benedikt Gudmundsson
05 de ago. de 2023

Flott samantekt.

Curtir
bottom of page