top of page
Search

Man Utd vs. Chelsea - Risaslagur í Manchester

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: 24. október kl. 16:30

Leikvangur: Old Trafford

Hvar er leikurinn sýndur? Símanum Sport

Upphitun eftir: Jóhann M. Helgason



Chelsea

Chelsea mætir Manchester United í 6. umferð ensku Úrvalsdeildarinnar. Bæði þessi lið hafa strögglað í byrjun tímabilsins þannig það er mikið undir. Síðustu tveir leikir Chelsea hafa endað með jafntefli, fyrst var það hörmungarleikurinn gegn Southampton þar sem okkar menn köstuðu frá sér unnum leik, og svo nú í miðri viku gegn Sevilla. Leikurinn gegn Sevilla fer seint í sögubækurnar fyrir skemmtanagildi, en það gladdi þó undirritaðan að loksins sýndi Chelsea ákveðinn þéttleika varnarlega. Það virðist gefa liðinu heilan helling að vera með hinn stæðilega Edouard Mendy í markinu auk þess sem Thiago Silva leit vel út gegn Sevilla. Við hefðum aldrei misst Southampton leikinn niður í jafntefli ef þessir tveir leikmenn hefðu verið inni á vellinum í þeim leik.


Ef Chelsea tapar gegn Man Utd er allt í komin pressa á Frank Lampard - svo einfalt er það nú bara. Liðið væri þá með 8 stig eftir sex leiki og aðeins búið að vinna tvo leiki. Ef liðið ber hins vegar sigur úr býtum þá getum við talað um að Chelsea sé að blanda sér í toppbaráttuna, því deildin er að spilast alveg stórfurðulega. Svona er nú stutt á milli í þessu. Hvað sem því veldur þá hefur Frank Lampard einfaldlega ekki efni á að tapa þessum leik.


Lampard sagði það á blaðamannafundi í dag (föstudag) að einu meiðli Chelsea væru Billy Gilmour og svo smávægileg meiðsli hjá Kepa - hann sagði þó að Hakim Ziyech væri ekki nægilega "fit" til þess að byrja. Að sama tilefni tók Lampard það fram að Petr Cech væri ekki í leikmannahóp Chelsea (LOL). Þannig Super Frank getur nánast valið sitt allra sterkasta lið.


Lampard hefur lítið verið að rótera í liðinu frá því eftir landsleikjahléið og ég ætla að spá því að hann verði með svipað lið og í undanförnum tveimur leikjum. Mendy verður í búrinu og Thiago Silva og Zouma í miðvörðunum. Azpilicueta og Ben Chilwell byrja svo í bakvarðarstöðunum. Ég held að Kovacic og Kanté verði svo saman á miðjunni og Havertz þar fyrir framan. Pulisic verður svo áfram hægra megin, Mount vinstra megin og Timo Werner uppi á topp. Mögulega gæti Lampard hent í leikkerfið 3-4-3 og notað þá James og Chilwell í vængbakvörðum, en það er eitthvað sem segir mér að Lampard haldi áfram í leikkerfinu 4-2-3-1.



Ég ætla að segja það alveg hreint út að ég er ekki sammála þessari nálgun Lampard. Mount spilar engan veginn á sínum styrkleikum þarna á vængnum og á bara að vera á miðjunni. Fyrir mér á Pulisic alltaf að vera vinstra megin. Hægra megin á Hudson-Odoi að fá tækifærið eftir að hafa spila vel fyrir landsleikjahléið, sérstaklega á meðan Ziyech er að koma sér í form. Svo er líka möguleiki að spila Giroud eða Tammy frammi og Werner vinstra megin. En, hvað veit ég? Lampard er stjórinn og stendur og fellur með sínum ákvörðunum. Hann vill líklega hafa Mount inni í liðinu vegna þess að hann er gríðarlega dugleur í pressunni sem Lampard vill spila og það er ekki við Mount að sakast að honum sé spilað úr stöðu, hann gerir alltaf sitt besta.


Man Utd

Það var farið að hitna ansi hressilega undir Ole Gunnar Solskjær fyrir landsleikjahléið þegar þeir töpuðu sannfærandi 1-6 gegn Spurs. En síðan þá hafa þeir unnið Newcastle 4-1 og unnu svo frábæran 2-1 sigur gegn PSG á útivelli í Meistaradeildinni. Þannig Man Utd munu mæta okkur með ágætis sjálfstraust, jafnvel þó þeir séu bara með 6 stig eftir 4 leiki í deildinni.


Fyrir mér er Bruno Fernandes þeirra langbesti og hættulegasti leikmaður. Hann er potturinn og pannan í öllum þeirra sóknarleik, það má ekki gefa honum neinn tíma á boltanum. Mannvinurinn Marcus Rashford skoraði sigurmarkið gegn PSG í vikunni og hægt og bítandi að komast í sitt best form. Rashford hefur verið ansi duglegur að skora gegn Chelsea, okkar menn verða að passa sig gríðarlega vel á honum.


Man Utd vann þrjá af fjórum leikjum gegn Chelsea á síðasta tímabili, svo segja má að Solskjær hafi haft mikla yfirburði yfir Lampard. Oftast nær stillti Solskjær upp í leikkerfinu 5-3-2 gegn Chelsea og virtist það svínvirka að liggja bara til baka og nota hraða Rashford og Martial gegn okkar takmörkuðu vörn. Það er nefnilega þannig að Man Utd líður ekkert sérstaklega vel með boltann, þeir ná oftast sínum bestu úrslitum þegar þeir fá að liggja til baka og beita skyndisóknum þar sem Bruno matar framherjanna hröðu.


Vörnin hjá Man Utd er hins vegar ekkert stórkostleg. Harry Maguire er búinn að vera slakur og Lindelof er ekkert sérstakur leikmaður. Ef leikmenn eins og Pulisic, Werner, og Havertz eru á sínum besta degi getum við skorað fullt af mörkum á þetta Man Utd lið.


Spá

Ég vil alls ekki sjá þennan leik þróast þannig að okkar menn séu að verjast hátt uppi á vellinum að rúlla boltanum á milli sín fyrir framan 10 manna varnarmúr Man Utd manna. Þá erum við að spila leikinn upp í hendurnar á Man Utd og við munum á endanum fá á okkur skyndisóknir sem við höfum verið slakir í að verjast í tíð Super Frank. Ég vil sjá svipað upplegg og gegn Sevilla, ég vil sjá okkar menn vera varkára en um leið nýta sér betur þessi sóknartækifæri þegar þau gefast.


Spái 2-1 sigri Chelsea í hörkuleik þar sem Pulisic kemur okkur á bragðið og Kurt Zouma skorar sigurmarkið eftir hornspyrnu.


KTBFFH

- Jóhann Már


Comments


bottom of page