top of page
Search

Man City vs Chelsea og nýr þáttur af Blákastinu

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: Laugardagurinn 15. Janúar kl 12:30

Leikvangur: Empty-had Stadium

Hvar er leikurinn sýndur? : Síminn sport, Sky Sports

Upphitun eftir: Snorra Clinton



Chelsea

Jæja gott fólk. Nú eru Fantasý böðullinn og hans drengir að mæta til leiks í 4 sinn á 10 dögum eða svo. Þó svo að við notum oft leikjaálag sem afsakanir fyrir slökum frammistöðum, töpum og meiðslum þá skulum við átta okkur á því að sem stuðningsmenn Chelsea erum við ekki að blekkja neinn því við ELSKUM að fá fótbolta og nóg af honum. Ekki skemmir fyrir að fá tvo leiki á móti Spurs þar sem þeir einfaldlega sáu ekki til sólar þó svo að dómarinn hafi skilið meira eftir sig á vellinum en leikmenn Tottenham.


Á milli leikjanna á móti Tottenham mættum við Chesterfield í FA bikarnum, sá leikur var heldur betur veisla en þar fengu nokkrir minni spámenn að spreyta sig. Meistari Bettinelli fékk sína frumsýningu ef mér skjátlast ekki, hann bauð nú kannski ekki upp á flugeldasýningu með lazer show-i á milli stanganna og fékk á sig eitt mark. Ég hef þó á tilfinningunni að mörkin hefðu ekki verið fleiri þó að blaðra í bandi hefði mannað búrið, Chelsea er bara alltaf stór biti fyrir téð E-deildarlið. Það hefði ekki skipt neinu hverjir hefðu verið í starting XI, þessi var alltaf skyldusigur og það besta við þennan leik var Lewis Hall. Um er að ræða 17 ára strák pjakk sem átti frábæran leik. Þó að andstæðingurinn hafi ekki verið merkilegur þá var samt heldur betur uppi á Lewis Hall typpið og er hann enn eitt dæmið um hvað akademían okkar er að vinna frábært starf. Ég ætla nú ekki að eyða fleiri orðum í þessa leiki en þeim er gerð ágætis skil í nýjasta þætti Blákastsins sem ég hvet alla til að leggja eyru á og hægt er að hlusta á hér beint fyrir neðan.



Nú er það aftur á móti mál málanna, City vs Chelsea, Muhammed Ali vs Mike Tyson, Lebron vs Jordan, John Wick vs Terminator, Friends vs Sex and the city, Notebook vs Thelma & Louise. Það er alvöru rimma kl 12:30 á laugardaginn kemur þegar blái herinn heimsækir City menn á Emptyhad leikvanginum!


Tuchel vann þrjú einvígi í röð á síðasta tímabili á móti Pep og þarf af leik leikjanna í evrópskum fótbolta, leikur sem ALLIR Chelsea menn gleyma aldrei og allir City aðdáendur geta ekki gleymt nógu fljótt. City menn náðu þó að skáka okkur í fyrri viðureign liðanna á Stamford Bridge með 0-1 sigri. Þó svo að þeir hafi ekki gert mikið í þeim leik, þá er málið einfaldlega þannig að okkar ástkæra Chelsea gerði ennþá minna. Á morgun er þó nýr dagur en samt er liðið okkar enn smá halt eftir covid og meiðsla vandræði. Það hefur nú ekki farið framhjá neinum að við verðum vitaskuld án tveggja lykilmanna, Chilwell og James. Tuchel staðfesti einnig í dag að Christensen væri með covid og að Vottur Chalobah væri enn að glíma við meiðsli. Frábæru fréttirnar eru þó þær að við höfum endurheimt Faðir Vor og litla bros-nagginn hann N'Golo Kanté. Við getum því mætt með sterkan hóp í þennan leik og gert City mönnum erfiðara fyrir í kapphlaupinu um titilinn.


Byrjunarliðið

Þar sem einhver meiðsli eru að hrjá hópinn okkar, þá gerir það aðeins auðveldara fyrir að spá um þetta blessaða byrjunarlið. Það er nú ekkert leyndarmál að hann Kepa okkar verði í búrinu þar sem Mendy er í AFCON að skemmta sér í covid partýi. Öftustu þrír verða þeir bræður Rudiger og Azpi með Faðir Vor sér til stuðnings. Ég ætla að leyfa mér að skjóta á Lloreal módelið hann Alonso og CHO í vængbakvarðar stöðunum. Á miðjunni verða svo þeir herramenn Kanté og Jorginho. Fremstu þrír er svo alltaf spurningarmerki finnst mér, tel ég þó að Gullkálfurinn hann Mason Mount verði alltaf fyrsta pick hjá Tuchel. Honum til halds og trausts verða þeir Pulisic og Timo Werner.



Manchester City

Það virðist ekki skipta neinu máli hvaða lið mæti City þessa daga eða hvort þeir séu að spila verr en andstæðingurinn, þeir einfaldlega vinna alla sína leiki. Þeir töpuðu síðast í október í deildinni óvænt á móti Palace. Eins og staðan er núna eru þeir með 10 stiga forskot á Chelsea og með sigri getum við endanlega hvatt þennan titil í ár. City hefur sloppið alveg ótrúlega við meiðsli og covid það sem af er tímabils en þó mæta þeir ekki með fullskipaðann hóp í þessa viðureign. Íslandsvinurinn hann Foden er með veiruna ásamt Zinchenko. Stones er frá vegna meiðsla og svo auðvitað er Mahrez staddur á AFCON. Svo má heldur ekki gleyma honum Benjamin Mendy en hann er fjarri góðu gamni í steininum fyrir glæpsamleg athæfi. Þó svo að þessa menn vanti í hóp City eru þeir einfaldlega það gott þið að sama hver dettur út það er til maður í manns stað. Ef City fara með sigur á hólmi á segja að titillinn sé kominn í höfn hjá þeim. Aftur á móti ef þeir tapa þá getum við vel sætt okkur við 7 stiga mun í stað 13 og myndi það setja aftur örlitla spennu í þessu kapphlaupi.


Spá

Ég hef fulla trú að við fáum markaleik, Tuchel er að leggja þennan leik upp til að vinna hann og Pep vill binda endanlegar fyrir vonir Chelsea á titlinum. Það verður harka og stíft sótt á báða enda og spái ég fyrir að leikar endi með 2-3 sigri okkar Chelsea mann. Sterling og Jesus munu sinna markaskorun City á meðan Mount, Pulisic og Ziyech (af bekknum) sigla þessu heim fyrir okkur.

Commentaires


bottom of page