top of page
Search

Leikskýrsla - Malmö vs. Chelsea



Okkar menn unnu nokkuð öruggan 0-1 sigur á óvenju spræku liði Malmö í Svíþjóð. Það tók langan tíma að brjóta Svíana niður og áttu okkar menn alls 22 skot í leiknum, þar af 11 á markið. Dahlin markvörður Malmö varði nokkrum sinnum vel en hélt nánast engum boltum og mörg skot hrukku af honum og út í teigin en okkar menn áttu í erfiðleikum með að koma honum yfir línuna.


Framlínan okkar var í stuði og Hudson-Odoi, Ziyech og Havertz áttu allir góð færi í leiknum. Það var svo Callum okkar sem lagði upp markið fyrir Ziyech eftir flott þríhyrningsspil við Havertz og sendingin frá Callum var fullkomin á Ziyech sem gat ekki annað en sett boltann í netið. Frábærlega gert hjá þeim þremur og Callum er enn og aftur að nýta tækifærið sitt í byrjunarliðinu og ljóst er að erfitt verður að vinna sætið af honum þegar lykilmenn koma til baka úr meiðslum.


Malmö fengu þó tvö ákjósanleg færi og hefðu með smá heppni getað skorað á undan okkur sem hefði gert leikinn afar snúinn en sem betur fer hélt Mendy búrinu hreinu. Það kom mér á óvart hversu sterku byrjunarliði Tuchel stillti upp, rétt eins og í fyrri leik liðanna, en minna mátti ekki duga gegn sterkum Malmö mönnum á heimavelli. Það kom sérstaklega á óvart að sjá Thiago Silva í byrjunarliðinu en 36 ára maðurinn er náttúrulega ekki mennskur og svo sem fátt sem kemur manni enn á óvart með þann kappa.


Azpilicueta spilaði í vængbakverði í dag og eins og í síðustu leikjum hans hélt hann áfram að leita mikið inn á völlinn og styðja við miðjuna. Mér finnst við sjá þetta meira með Azpi heldur en hina leikmennina sem hafa verið að spila þessar stöður, mögulega hefur það eitthvað að gera við minnkandi hraða sem kemur með hækkandi aldri hjá honum.


Ziyech skoraði langþráð mark og eflaust verður það gott fyrir sjálfstraustið hans að vera kominn á skotskónna eftir erfiða leiki þar sem hann hefur ekki alveg fundið taktinn. Havertz hefði einnig átt að skora í þessum leik þegar hann komst einn í gegn en við verðum að bíða aðeins lengur eftir marki frá þeim þýska.


Christian Pulisic fékk svo loksins mínútur eftir erfið og þrálát meiðsli og var nálægt því að skora í blálokinn þegar hann slapp einn í gegn, það mark hefði fært fjöll fyrir sjálfstraust þess bandaríska en gott að sjá hann loksins spila fótbolta.


Ruben Loftus-Cheek spilaði byrjaði sinn fyrsta leik í Meistaradeildinni síðan 2015. Hann hélt áfram að heilla og hann á hreinlega ekki lélegan leik þessa dagana. Hann er að koma mér og flestum stuðningsmönnum vel á óvart, þó flestir hafa alltaf vitað af hæfileikunum sem hann býr yfir, en fyrir tímabilið virtist hann hreinlega vera búinn að vera sem knattspyrnumaður á topp leveli eftir öll meiðslin. Hann hefur þó heillað Tuchel á æfingasvæðinu sem hefur skilað sér í auknum spilatíma og sá hefur aldeilis nýtt hverja einustu mínútu sem hann hefur fengið á tímabilinu. Hópurinn okkar gæti varla verið breiðari og enn eru lykilmenn sem eiga eftir að koma til baka úr meiðslum á næstu vikum (Lukaku, Werner og Kovacic).


Eftir umferð dagsins sitjum við enn í öðru sæti riðilsins með 9 stig en Juventus er á toppi riðilsins með 12 stig eftir 4-2 sigur á Zenit í Torino í kvöld.


Einkunnir


Mendy: 7 - Róleg vakt hjá Mendy eins og svo oft áður. Þurfti að skokka um á vellinum til að halda á sér hita á tímabili og hélt búrinu hreinu.


Rüdiger: 7,5 - Þægileg vakt hjá þýska handrukkaranum og þurfti ekki að rukka marga í kvöld.


Silva: 7 - Öruggur að vanda og átti margar góðar sendingar. Gula spjaldið í seinni hálfleik dregur hann niður.


Christensen: 8 - Var öruggur í varnaraðgerðum og greinilega þyrstur í annað mark gegn Malmö og átti gott skot í fyrri hálfleik, viljum sjá meira af því frá honum.


Azpilicueta: 7 - Ágætis frammistaða hjá Spánverjanum sem virkaði samt aðeins ryðgaður í fyrri hálfleik. Átti ágætis seinni hálfleik en þurfti lítið að vejast.


Alonso: 6,5 - Faðir tími er farinn að banka í hælana á Alonso sem hefur misst hraða sem hann hafði ekki mikið af fyrir. Missti boltann nokkrum sinnum klaufalega og virtist eiga erfitt með að halda uppi tempói annarra sóknarmanna.


Jorginho: 7 - Skilaði sínu vel og sendi boltann vel frá sér eins og alltaf.


Loftus-Cheek: 8,5 Maður leiksins - Einn af okkar bestu mönnum í kvöld og mögulega okkar hættulegasti sóknarmaður í leiknum. Hann virðist oft ekki þurfa að hafa neitt fyrir hlutunum og allt sem hann gerir lítur út fyrir að vera svo auðvelt og áreynslulaust.


Ziyech: 8 - Átti sveiflukennda frammistöðu í kvöld. Oft á tíðum var hann sprækur og hættulegur andstæðingnum með góðum sprettum og fyrirgjöfum en inn á milli virtist hann missa einbeitingu og klúðraði einföldum sendingum. Sáum Tuchel öskra á hann nokkrum sinnum frá hliðarlínunni en hann skoraði á endanum markið sem skilaði sigrinum.


Hudson-Odoi: 8,5 - Flott frammistaða hjá Englendingnum unga. Virtist oft ósamstíga Alonso í fyrri hálfleik og þeir virtust ekki vera alveg á sömu bylgjulengd. Skipti yfir á hægri vænginn í seinni hálfleik og var mun betri þar. Lagði upp markið á Ziyech með frábæru spili og fyrirgjöf.


Havertz: 7,5 - Duglegur í pressunni og hljóp mikið án bolta en hefði átt að skora í fyrri hálfleik. Færanýtingin hjá Þjóðverjanum þarf að batna. Gerði vel í aðdraganda marksins í spili með Hudson-Odoi.


Varamenn

Barkley: 6,5 - Kom inn á með krafti að vanda og lagði upp nokkur færi strax á sínum fyrstu mínútum.


Pulisic: 6 - Mikilvægar mínútur fyrir Captain America, var nálægt því að skora þegar hann komst einn í gegn. Gott að sjá hraðan sprett hjá honum eftir erfið meiðsli.


Comments


bottom of page