top of page
  • Twitter Social Icon
  • Facebook Social Icon
Search

Leikmannalaug Chelsea 2020/21

Chelsea á aðeins eftir að leika einn leik á tímabilinu, gegn FC Bayern í Meistaradeild Evrópu. Þar er á brattann að sækja eins og allir muna. Ef að líkum lætur verður það síðasti leikurinn á þessu laaaaanga tímabili.


En þá getum við líka farið að hugsa aðeins um framtíðina og velt því fyrir okkur hvernig leikmannahópur Chelsea mun líta út á næstu leiktíð. Þetta tímabilið höfum við séð marga unga leikmenn stíga sín fyrstu skref (James, Mount, Tammy, Tomori og Gilmour) og er augljóst að nokkir af þessum leikmönnum munu spila lykilhlutverk hjá Chelsea um ókomin ár. Það er hins vegar alveg á hreinu að Frank Lampard ætlar sér að breyta miklu fyrir næsta tímabil og eru Timo Werner og Hakim Ziyech aðeins fyrstu púslin.


Hér fyrir neðan er hugsanleg leikmannalaug Chelsea ásamt "Komnir & farnir" töflu - það eru nokkrar forsendur fyrir þessum töflum:

  • Þetta er ekki mitt persónulega draumalið, heldur byggist meira á fréttum/slúðri um það hvaða leikmenn eru líklegastir til að ganga til liðs við Chelsea eins og staðan er í dag.

  • Sumir leikmenn geta auðvitað spila fleiri en eina stöðu, þess vegna eru sumir grálitaðir og inni sviga þegar þeir koma oftar en einu sinni fyrir í leikmannalauginni. Ég var samt ekkert að missa mig í þeim pælingum, ég veit vel að Ziyech og Mount geta spilað fleiri stöður en þarna koma fram.

  • Ég bið fólk að taka byrjunarliðið ekki of alvarlega. Eflaust margir sem súpa kveljur yfir því að sjá Kovacic fyrir aftan Mount í goggunarröðinni o.s.frv. Þetta er bara til gamans gert og sitt sýnist hverjum.

  • Það flóknasta við þessa spádóma er að spá fyrir um hvaða leikmenn munu fara og hvert söluverðið þeirra er. Þess vegna notaðist ég yfirleitt við verðmat heimasíðunnar Transfermarkt eða þá tölu sem nefnd hefur verið í fjölmiðlum að Chelsea vilji fá fyrir ákveðna leikmenn.

  • Varðandi söluna á Alvaro Morata að þá fór hann vissulega frá Chelsea í janúar 2019 en hann hefur verið á lánssamningi hingað til. Formleg kaup gengu í gegn 1. júlí 2020.

  • Allar tölur í töflunni eru í milljónum punda.



Vörn / markvarsla

Ég spái því að Lampard fái Andre Onana í markið. Hann fæst tiltölulega ódýrt m.v. aðra markmenn eins og t.d. Oblak og svo hafa Burnley menn sett 50 milljón punda verðmiða á Nick Pope. Onana er með loforð frá yfirstjórn Ajax um að fá að fara frá liðinu fyrir um 40 milljónir punda skv. fréttamiðlum. Margt og mikið hefur verið sagt (og skrifað) um Kepa Arrizabalaga, eitt er víst að Onana þyrfti að vera ansi slakur til þess gera ekki betur en Kepa.


Eins og sést er ég frekar grimmur þegar kemur að miðvörðunum okkar. Ég er einfaldlega búinn að missa alla trú á bæði Christensen og Rudiger. Vissulega flottir varnarmenn á sínum degi og gætu klárlega blómstrað annarsstaðar í öðrum deildum (sérstaklega Christensen). En þeir eru báðir á góðum aldri og það væri hægt að selja þá fyrir fína upphæð á þessum tímapunkti. Ég vil í staðinn leggja alla áherslu á að fá annað hvort Kalidou Koulibaly eða José Giménez. Ég tel næsta öruggt að Koulibaly sé ekki fáanlegur þannig ég vil reyna við Giménez. Chelsea hefur verið orðað við hann að undanförnu. Ég held að alvöru nagli frá Úrugvæ myndi gera helling fyrir vörnina okkar og hann myndi mynda flott miðvarðarpar með annað hvort Zouma eða Tomori. Helsti ókostur Giménez að hann hefur verið töluvert meiddur í gegnum tíðina. Ethan Ampadu gæti svo komið inn sem fjórði miðvörður og hver veit nema hann myndi svo bara spila sig inn í liðið.


Varðandi bakvarðarmálin, þar erum við í frábærum málum hægra megin með þá Azpilicueta og James. Mér líst virkilega vel á þær fréttir að Chelsea ætli að blanda sér í baráttuna um Sergio Reguilón og vil sjá hann koma inn í hópinn á kostnað Emerson. Allt þetta tal um Ben Chilwell og hans 70 milljón punda verðmiða getur þá farið út um gluggann.


Miðjan

Það virðist vera eitt verst geymda leyndarmálið í heimsfótboltanum í dag að Kai Havertz muni ganga til liðs við Chelsea. Ef að þessum félagaskiptum verður er Frank Lampard kominn með einn mest spennandi leikmann heims í hendurnar. Það er afar fágætt að leikmenn sem eru 190 cm á hæð séu sókndjafir miðjumenn með hreyfingar sem minna einna helst á goðsagnir eins og Zinedine Zidane eða Johan Cruyff. Ég er alla vega spenntur!ll


Með komu Havertz er Chelsea með hafsjó af miðjumönnum og því nokkuð augljóst að Super Frank þarf að selja a.m.k. tvo leikmenn. Ég held að fórnarlömbin verði Ross Barkley og Jorginho. Ross Barkley hefur aldrei náð að festa sig 100% í byrjunarliði Chelsea þó hann hafi vissulega átt sína spretti. Hann er enskur landsliðsmaður sem þýðir að nokkur félög munu hafa mikinn áhuga á honum. Það eru svo auðvitað mjög skiptar skoðanir á Jorginho. Fyrir mitt leyti held ég að best sé að selja hann núna á meðan að það fæst ennþá gott verð fyrir hann. Lampard virðist vilja spila 4-3-3 með varnarsinnaðan miðjumann sem situr fyrir framan vörnina, stöðuna sem Kanté spilaði áður en hann meiddist. Jorginho er með öðruvísi eiginleika í þessa stöðu og er, hreint út sagt, ansi veikburða til að spila stöðuna eins og Kante. Ég held að Jorginho sé dottin út úr plönum Lampard þegar allir eru heilir.


Talandi um varnarsinnaða miðjumenn. Ég held að það sé mjög mikilvægt að taka Ethan Ampadu aftur inn í hópinn svo Chelsea hafi annan hreinræktaðan varnarsinnaðan miðjumann, einhvern til að leysa Kanté af hólmi þegar sá franski þarf að hvílast.


Sóknin

Þessi sóknarlína sem Chelsea er að fara stilla upp á næsta tímabili er ein sú mest spennandi í Evrópu! Pulisic, Ziyech og Werner. Abraham, Giroud og CHO á bekknum. Eitt er víst að það verður höfuðverkur fyrir Lampard að halda öllum ánægðum. En núna sjáum við úr hverju Tammy og Hudson-Odoi eru gerðir. Chelsea er risaklúbbur, í slíkum klúbbum er samkeppni og menn verða bara að gjöra svo vel að standa sig.


Í raun mætti færa rök fyrir því að Chelsea vantaði einn vængmann í viðbót, svona til að fylla leikmannalaugina betur, en ég tel það vera óþarfi þar sem leikmenn eins og Werner og Mount geta auðveldlega leyst af á vængnum. Ef Chelsea myndi versla sér vængmann myndi ég vilja sjá hinn spennandi Saïd Benrahma koma á Stamford Bridge. Kappinn sá leikur með Brentford og er búinn að vera á eldi í allan vetur.


Þegar þetta er skrifað er líklegast að Willian skrifi undir hjá Arsenal á þriggja ára samningi. Pedro er auðvitað farinn og mun semja við Roma og allir vita að dagar Michy Batshuahyi hjá Chelsea eru taldir. Vissulega fer þarna mikil reynsla út um dyrnar en að sama skapi tel ég næsta víst að þeir sem komi staðinn eru (margfallt)betur til þess fallnir að taka Chelsea upp á næsta stig.

Niðurstaða

Ef Marinu Granovskaia, Petr Cech og Frank Lampard tekst að púsla saman þessari leikmannalaug (eða svipaðri) er ég handviss um að Chelsea geti farið að slást aftur um enska meistaratitilinn. Það er samt ekki bara nóg að vera með réttu leikmennina, Lampard þarf sjálfur að læra að sínum mistökum og þroskast sem þjálfari.


Eitt getum við þó verið sammála um, það eru spennandi tímar framundan á Stamford Bridge!


KTBFFH

Jóhann M. Helgason

Комментарии


  • Grey Google+ Icon
  • Grey Twitter Icon
  • Grey LinkedIn Icon
  • Grey Facebook Icon

© 2023 by Talking Business.  Proudly created with Wix.com

bottom of page