top of page
Search

Leeds vs Chelsea - Bielsa vs Tuchel: Upphitun og þáttur af Blákastinu

Keppni: Enska Úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: Laugardagurinn 13. mars kl 12:30

Leikvangur: Elland Road

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport og Ölver Sportbar

Upphitun eftir: Jóhann M. Helgason

Ég vil byrja þessa upphitun á að minna á nýjan þátt af Blákastinu, hann er núna aðgengilegur í öllum helstu hlaðvarpsveitum auk þess sem hægt er að hlusta á hann í spilaranum neðst í færslunni.


Það er ekki amalegt að vera stuðningsmaður Chelsea þessa dagana, liðið leikur á alls oddi og var frammistaðan gegn Everton ein sú allra besta á tímabilinu hingað til. Tuchel er að vinna frábært starf, er að nýta hópinn vel og skila inn flottum sigrum.


Næst á dagskrá er leikurinn gegn Leeds, það er skemmtileg prófraun og einvígi milli tveggja mjög taktískra þjálfara. Ég held að Tuchel nálgist þennan leik með annað augað á leiknum gegn Atletico Madrid sem er aðeins fjórum dögum síðar. Það eru tveir leikmenn fjarverandi vegna meiðsla, þeir Thiago Silva og Tammy Abraham. Mendy verður á sínum stað í markinu og þar fyrir framan hann geri ég ráð fyrir að Christsensen, Rudiger og Azpiliceta verða á sínum stað. Það er spurning hvort Zouma haldi sæti sínu og gefi þá Azpi hvíld, það kæmi ekkert á óvart. Vængbakverðirnir eru svolítil ráðgáta, ég ætla að giska á að Chilwell fái traustið ásamt Hudson-Odoi en bragðarefurinn Tuchel gæti allt eins sett Alonso og Reece James – maður veit aldrei.


Bæði Mason Mount og Jorginho eru í banni gegn Atl Madrid þannig þeir byrja þennan leik báðir, það er næsta öruggt. Líklega mun Kante vera með Jorginho á miðjunni og Mount mun njóta aðstoðar Havertz og svo vona ég innilega að Christan Pulisic fái að byrja þennan leik. Pulisic hefur verið skugginn af sjálfum sér á þessu tímabili en hann hefur heldur ekki fengið mikið traust frá Tuchel. Ef Captain America finnur sitt form er hann einn besti leikmaður liðsins og við þurfum svo sannarlega á honum að halda – ég vil sjá hann fá tækifæri til að nýta hraðann sinn gegn hárri varnarlínu Leeds. Timo Werner hefur fengið mikinn spiltíma að undanförnu án þess að heilla of mikið.


Eins fær maður hreinlega vatn í munninn við tilhugsunina um þá Mason Mount og Kai Havertz saman að spila sinn besta bolta – þeir munu geta hrellt flestar varnir Evrópu.


Leeds United

Það þekkja flest allir þessa sögu um Marcelo Bielsa og Leeds United. Bielsa er núna á sínu þriðja tímabili með Leeds og eftir að hafa komið þeim upp um deild í fyrra að þá er hann búinn að festa liðið í sessi í ensku Úrvalsdeildinni. Leeds siglir lygnan sjó í 11. sæti deildarinnar með 35 stig úr 27 leikjum – ekki amalegt hjá nýliðum í deildinni.


Það sem er ennþá merkilegra við framgang Leeds er að Bielsa hefur sett traust sitt á þá leikmenn sem komu liðinu upp um deild í fyrra, leikmenn eins og Stuart Dallas, Kalvin Phillips, Patrick Bamford, Ezgjan Alioski, Liam Cooper og Jack Harrison eru allt leikmenn sem hafa tekið skrefið upp á við og sannað sig sem alvöru spilarar í ensku Úrvalsdeildinni. Þeir keyptu einnig hinn frábæra Raphinha frá Rennes í Frakklandi sem hefur slegið í gegn og er leikmaður sem okkar menn verða að passa upp á í leiknum á morgun.


Það sem gerir þetta Leeds lið auðvitað merkilegt er þessi goðsagnakenndi leikstíll sem Bielsa lætur liðið spila. Það gildir einu þó þeir séu 1-0 yfir gegn man City í uppbótartíma, þeir pressa alltaf andstæðinginn og leggjast aldrei í skotgrafirnar. Þetta sést best á tölfræði liðanna, Leeds er það lið sem pressar mest af öllum liðum í deildinni og er einnig með flestar heppnaðar pressur – sem er í raun magnað afrek hjá nýliðum. Þeir skora mikið af mörkum en fá líka slatta á sig – þannig þessi leikur á morgun gæti orðið fjörugur.



Spá

Þessi leikur mun líklega spilast svipað og Liverpool leikurinn þar sem Leeds mun pressa okkur um allan völl. Okkar menn verða því að þora að halda boltanum aftast og spila sig í gegnum pressuna og finna þannig okkar fremstu menn í hættulegum hlaupum. Ég veit að margir vilja sjá Timo Werner í þannig leik en ég vil núna gefa Pulisic sénsinn og nýta hraða hans gegn þessari Leeds vörn. Tuchel hafði orð á því að vallaraðstæður á Elland Road væru í mjög slæmu ásigkomulagi, þannig mögulega mun það hafa áhrif á leikstíl Chelsea.


Ég spái 1-3 sigri okkar manna þar sem Mount, Havertz og Werner (kemur af bekknum) setja allir eitt mark.



KTBFFH

- Jóhann Már


bottom of page