"Það hafa margir góðir leikmenn leikið fyrir Leverkusen, en Kai er sá besti af þeim öllum."
- Rudi Völler
Síðastliðinn föstudag gengu Chelsea frá kaupunum á hinum gríðarlega efnilega Kai Havertz. Við ætlum að skoða þennan leikmann aðeins betur, hvers vegna ákvað Chelsea að borga hátt í 80 milljónir evra fyrir þennan unga Þjóðverja?
Upphafsárin
Kai Havertz er fæddur 11. júní 1999 í þýsku borginni Aachen - hann er því 21 árs gamall. Það kom mjög fljótlega í ljós að Havertz var stórkostlega efnilegur knattspyrnumaður og var hann farinn að spila upp fyrir sig í aldursflokkum með heimabæjarliðinu Alemannia Mariadorf. Það koma því ekki á óvart þegar Havertz ákvað að skipta um lið árið 2009, þá 10 ára gamall, og spila fyrir Alemannia Aachen, sem var stórliðið í hans heimaborg. Havertz staldraði hins vegar stutt við hjá Alemannia því aðeins ári síðar var hann fengin til liðs við Bayer Leverkusen. Havertz og pabbi hans keyrðu klukkutíma fram og til baka á hverjum einasta virka degi svo Kai gæti æft með þessu þýska stórliði og verður það að teljast mikill agi hjá 11 ára gömlum dreng að nenna því. En það hefur einmitt alltaf verið einn af stóru styrkleikum Havertz, hann er með báða fætur á jörðinni og hefur aldrei verið ginnkeyptur fyrir einhverju stjörnulífi þrátt fyrir að hafa verið frægur fótboltamaður í Þýskalandi frá 18 ára aldri.
Lífið í Leverkusen var engin dans á rósum til að byrja með. Havertz tók mikinn vaxtakipp á árunum 2013 - 2015 og þurfti að læra á líkama sinn upp á nýtt og aðlaga leik sinn eftir því. Hann var oft meiddur á þessum árum en tókst að lokum að finna þetta jafnvægi í líkamanum sínum - meiðslin voru á bak og burt og tími til að horfa fram á veginn. Þjálfarar Leverkusen sáu að þarna var að verða til sjaldgæf tegund af knattspyrnumanni; sókndjarfur miðjumaður, örfættur, teknískur og með nef fyrir mörkum, sem í þokkabót er ca. 190 cm á hæð! Eins og fyrr segir, mjög sjaldgæf tegund af knattspyrnumanni.
Havertz sló loks í gegn í unglingaakademíu Leverkusen árið 2016, þegar hann skoraði 18 mörk fyrir u-17 ára liðið. Það var svo í október 2016 að Havertz lék sinn fyrsta leik fyrir aðallið Leverkusen er hann kom inn á í leik gegn Werder Bremen í þýsku bikarkeppninni - Stjarnan Havertz var að fæðast.
,,Hann gæti dóminerað þýska landsliðið næsta áratuginn, hann er það góður."
- Raphael Honigstein blaðamaður The Athletic
Unglingur í Leverkusen
Tímabilið 2016/17 fór Havertz strax að spila mikilvægt hlutverk í Leverkusen þó að hann væri ekki alltaf í byrjunarliðinu, enda aðeins 17 ára gamall. Hann spilaði í heildina 28 leiki á tímabilinu og skoraði 4 mörk. Minnistæðast var þegar hann lék sinn fyrsta leik í byrjunarliðinu í Meistaradeildinni. Það var leikur í 16. liða úrslitum gegn Atletico Madrid. Leverkusen tapaði þessum leik 4-2 en Havertz þótti standa sig mjög vel. Hann missti svo að síðari leik liðanna sökum þess að hann fékk ekki leyfi frá skólanum sínum því hann var í miðjum prófum!
Það má svo segja að Havertz hafi endanlega sprungið út tímabilið 2018/19. Það ár lék hann alla 34 leikina með Leverkusen og skoraði 17 mörk, yfirleitt með því að leika á vængnum eða sem fremstur á miðjunni. Hann náði mjög vel saman við þýska landsliðsmanninn Julian Brandt og mynduðu þeir tveir saman bannvæna tvennu í skemmtilegu Leverkusen liði. Þetta ár endaði Leverkusen í 4. sæti þýsku Bundesligunar sem var góður árangur. Havertz lék einnig sína fyrstu landsleiki á þessu tímabili og var þarna orðinn einn efnilegasti leikmaður Evrópu og hvert stórliðið á fætur öðru farið að bera víurnar í hann.
Tímabilið í fyrra var einnig gott fyrir Havertz. Hann þurfti breyta hlutverki sínu í Leverkusen liðinu því Julian Brandt var seldur til Dortmund og fékk því Havertz auknar skyldur í sóknaruppbyggingu liðsins aftar á vellinum. Þetta þýddi að Havertz skilaði fleiri stoðsendingum en áður og endaði tímabilið með 18 mörk og 9 stoðsendingar úr 45 leikjum í öllum keppnum. Ekki amalegt.
,,Hann er stórkostlegur leikmaður, hann minnir mig á ungan Ballack"
- Dietmar Hamann
Hvernig leikmaður er Kai Havertz?
Það sem er áhugaverðast við Kai Havertz er hversu fjölhæfur leikmaður hann er. Á tíma sínum með Leverkusen hefur Havertz spilað margar mismunandi stöður, á miðri miðjunni, í holunni fyrir aftan framherja, á hægri væng og sem fremsti maður. Alltaf tekst honum að skara fram úr og skila sínu - sjá hér frábæra mynd um það hvernig hann stendur sig í hverri stöðu fyrir sig:
Eitt er víst með Havertz, það eru mörk í honum! Á undanförnum tveimur tímabilum hefur Kai leikið 87 leiki í öllum keppnum og skorað 38 mörk. Þetta er frábær tölfræði fyrir miðjumann sem er ennþá að stíga sín fyrstu skref. Mörkin sem Havertz er að skora eru flest inni í teig eftir stutt spil ofarlega á vellinum. En þetta eru einmitt þær aðstæður sem Chelsea var að ströggla við að vinna úr á síðasta tímabili, þ.e. að brjóta niður varnarmúra þessara liða sem teljast í lakari kantinum. Sjá hér mynd að neðan um það hvernig tegund af mörkum Havertz er að skora.
Annað sem kom mér virkilega á óvart með Kai Havertz er hversu fljótur hann er. Í leik gegn FC Bayern á síðasta tímabili var okkar maður mældur á 35,13 km hraða sem var mesti hraði sem nokkur miðjumaður náði í þýsku Bundesligunni og fjórði fljótasti leikmaður deildarinnar skv. mælingum. Til samanburðar var hraðasti leikmaður Chelsea árið 2019 mældur á 34,51 km hraða og var það Willian.
Hvaða stöðu mun Kai Havertz spila?
Ég held að Havertz verði fyrst og fremst notaður á miðri miðjunni eða í "holunni". Frank Lampard virðist vilja spila 4-3-3 með tvær sókndjarfar "áttur" og einn djúpan miðjumann (Kanté). Hann verður örugglega líka notaður í holunni þegar Lampard stillir upp í kerfið 4-2-3-1. Þótt Havertz hafi reynslu af því að spila bæði frammi og á hægri vængnum að þá sé ég hann ekki mikið fyrir mér í þeim stöðum hjá Chelsea.
Væntingar
Fyrir réttu ári síðan var Christan Pulisic að stíga sín fyrstu skref fyrir Chelsea. Kai Havertz er ári yngri en Pulisic þannig þeir eru svipaðir hvað þetta varðar. Eins og við munum tók það Pulisic nokkrar vikur að finna sitt form og læra almennilega á deildina. Undir lok tímabilsins var "Captain America" orðinn einn allra besti maður liðsins. Það kæmi mér ekki á óvart að það sama ætti við um Havertz, það þarf að gefa honum smá tíma og ekki gleyma því að hann er bara 21 árs. Ég vil engu að síður sjá hann setja amk 10 mörk á tímabilinu og eiga annað eins af stoðsendingum.
Eitt er víst, Chelsea er komið með leikmann í hendurnar sem gæti talist til bestu leikmanna heims eftir nokkur ár og jafnvel fetað í fótspor leikmanna eins og Lampard, Hazard, Zola, Terry og Drogba - orðið goðsögn á Stamford Bridge.
Spennan magnast!
KTBFFH
- Jóhann Már Helgason
Comments