Keppni: Enska Úrvalsdeildin
Tími, dagsetning: Föstudagur 14. febrúar 2025 kl: 20.00
Leikvangur: American Express Stadium, Brighton
Dómari: Chris Kavanagh
Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport
Upphitun eftir: Guðna Reyni Þorbjörnsson

Í annað sinn á tæpri viku ferðumst við suður til Brighton þar sem við etjum kappi við samnefnt lið úr þeirri vinsælu borg. Síðasta heimsókn fór nú aldeilis ekki vel, hún endaði með 2-1 tapi og við sögðum bless við Ensku bikarkeppnina þetta tímabilið. Vissulega voru þau úrslit gríðarleg vonbrigði en það þýðir ekki að leggja árar í bát, við erum enn í Sambandsdeildinni þar sem við teljumst sigurstranglegasta liðið og gætum náð okkur í þann bikar í vor ef við högum okkur almennilega. Við erum einnig í bullandi Evrópubaráttu í deildinni heima fyrir og það er einmitt í þeirri keppni sem við eigum næsta leik, aftur gegn Brighton. Nú fer leikurinn fram að kvöldi Valentínusardags sem hittir á föstudag þetta árið. Hvað er betra en að fylgjast með sínu ástkæra félagi á slíkum degi? Eftir 24 umferðir sitjum við í 4.sæti með 43 stig en það er hörð barátta um Evrópusætin. Það er þéttur pakki þarna í kring og hver sigur skiptir gríðarlega miklu máli í þessari Evrópubaráttu. Brighton hafa aðeins dregist úr þessum pakka en þeir sitja í 10.sæti með 34 stig en 2-3 sigurleikir koma þeim aftur inn í baráttuna, það er því nauðsynlegt fyrir okkar menn að vera á tánum í þessum leik ef við ætlum að sækja öll þrjú stigin. Brighton munu eflaust mæta fullir sjálfstrausts í þennan leik eftir sigurinn síðasta laugardag og því er mikilvægt að Maresca hafi nýtt vikuna vel til undirbúnings. Ef við leikum okkur aðeins með tölfræðina í aðdraganda leiksins, þá hafa Brigthon spilað 11 heimaleiki í deildinni og aðeins unnið þrjá þeirra, gert sex jafntefli og tapað tveimur. Útivallarárangur Chelsea til þessa eru 12 spilaðir leikir og þar af þeim hafa sex unnist, þrjú jafntefli og þrjú töp.
Frá því að Brighton komu upp í úrvalsdeildina árið 2017 höfum við keppt 15 úrvalsdeildarleiki við þá. Við höfum unnið níu þeirra, gert fjögur jafntefli og tapað tveimur. Það má því segja að við séum með þokkalegt tak á þeim og síðast þegar þessi lið kepptu í deildinni unnum við 4-2 sigur þar sem Cole Palmer skoraði öll fjögur mörk okkar liðs, og það í fyrri hálfleik! Eftir þungfæran sigurleik gegn West Ham í síðustu umferð í deildinni væri mjög gott að ná svokölluðum „back-to-back“ sigurleikjum, eða tveimur sigurleikjum í röð (í deildinni). Það gerðist síðast í nóvember-desember þegar Chelsea unnu fjóra leiki í röð og Enzo Fernandez spilaði sinn besta fótbolta fyrir okkur. Ég óska eftir því að hann finni aftur það form sem hann var í þá því hann hefur, eins og flestir leikmenn Chelsea, dalað í undanförnum leikjum. Margir leikmanna okkar virðast því miður vera í einhverskonar lægð í augnablikinu og virka oftar en ekki týndir inn á vellinum. Þeir eru nokkrir þarna sem þurfa aðeins að rífa sig upp úr þessu sleni og sýna okkar almennilega frammistöðu. Ég veit að þeir eru allir mjög ungir og enn að gerjast en ef þeir vilja ná langt á sínum ferli þurfa þeir að sýna að þeir séu tilbúnir að taka næsta skref og sýna enn meiri stöðuleika í leik sínum. Ég viðurkenni alveg að ég er ekki alveg hundrað prósent á því hvernig Maresca muni stilla byrjunarliðinu upp fyrir þennan leik, en ég giska á að það verði mögulega einhvernveginn svona:
Jörgensen byrjar í markinu og verður vonandi áfram þar. Reece James byrjar eflaust hægra megin og Cucurella er sjálfkjörinn vinstra megin þegar hann er leikfær. Colwill verður á sínum stað í vörninni en hann var ansi óþekkur í leiknum gegn West Ham og verður að passa sig aðeins betur. Ég held síðan að Tosin byrji við hlið hans í miðverðinum. Á miðjunni verða þeir Enzo og Caicedo og Palmer verður að sjálfsögðu fyrir framan þá. Ég held að Madueke og Neto byrji á köntunum og Nkunku byrjar frammi þar sem Jackson er meiddur. Nkunku fékk mikla gagnrýni eftir síðasta leik og ég held að hann þurfi á því að halda að byrja þennan leik og hann þarf virkilega að stíga upp og sýna góða frammistöðu. Hann er að fá gullið tækifæri til að vinna sér inn sæti í byrjunarliðinu og ég ætlast til að hann skili okkur allavega einu marki úr þessum leik. Að því sögðu ætla ég að spá okkur 1-2 sigri þar sem Nkunku og Enzo skora mörkin.
Ég vil svo notfæra mér stöðu mína og nefna þrjá leikmenn sem ég vil kaupa í sumar. Ég vil fá Liam Delap frá Ipswich. Það er eitthvað við hann sem minnir mig á Drogba og hann er enn ungur og á fullt inni. Ég hef fylgst með honum á þessu tímabili og ég held að hann myndi fúnkera vel í framlínunni hjá okkur. Síðan myndi ég vilja fá Murillo frá Nottingham Forest í vörnina og Antonee Robinson frá Fulham til að veita Cucurella almennilega samkeppni þarna vinstra megin í vörninni. Og í lokin vil ég fá Petrovic aftur í markið fyrir næstu leiktíð!
Áfram Chelsea!
Kommentare