Keppni: Enska úrvalsdeildin
Tími, dagsetning: Laugardagur 14. september 2024 kl: 19.00
Leikvangur: Vitality Stadium, Bournemouth
Dómari: Anthony Taylor
Hvar er leikurinn sýndur? Síminn sport
Upphitun eftir: Elsu Ófeigsdóttur
Chelsea
Í fjórðu umferð ensku úrvalsdeildarinnar heimsækja þeir Bláu AFC Bournemouth á Vitality leikvanginn. Úrslita Chelsea leikjanna hafa verið ansi fjölbreytt, tap gegn City var kannski viðbúið í fyrsta leik, næsti leikur var stórsigur á Wolves og svo súrt jafntefli á Brúnni gegn Palace í síðasta leik.
Bæði Chelsea og Crystal Palace skiptust á að vera með boltann án þess að skapa sér nokkuð fyrstu 20 mínúturnar af leiknum. Þá skipti Chelsea um gír og fór að sækja af meiri krafti en þar bar kannski einna mest á Madueke. Eftir misheppnað skot að marki Palace fékk hann sendingu frá Enzo (Fernandez) á eigin vallarhelmingi og brunaði með boltann upp völlinn á 25. mínútu. Madueke gaf á Palmer, sem sendi boltann fyrir þar sem Jackson setti boltann í autt markið með lausri utanfótarsnertingu. Sannkallað samvinnumark hjá okkar mönnum og ekki ástæða til annars en bjartsýni. Þeir bláu höfðu svo nokkuð góða stjórn á restinni af fyrri hálfleik en komu knettinum ekki aftur í netið þrátt fyrir nokkrar tilraunir. Aukaspyrnan sem Palmer tók undir lok hálfleiksins og hornspyrnurnar tvær í kjölfarið standa upp úr í minningunni um fyrri hálfleikinn.
Eze skoraði fallegt jöfnunarmark á 53. mínútu og virtist markið efla Palace menn til dáða þó ekkert hafi komið út úr því. Heilt yfir stjórnaði Chelsea leiknum að mestu leyti. Palace menn áttu nokkrar skyndisóknir og einn góðan 10 mínútna kafla í seinni hálfleik sem dugði þeim til jafnteflis. Það er súrt í ljósi þess hve mörg færi við fengum til að gera út um leikinn. Því til stuðnings er Chelsea með 2.37 í markavæntistuðul (xG) í lok leiksins en skora bara eitt mark í raun. Sendingarhlutfall til samherja er þó 90% svo hópurinn virðist vera að ná góðu samspili. Varnarleikurinn er engan veginn nógu góður. Það væri óskandi að sjá framfarir í honum sem fyrst.
Palmer heldur áfram að koma sterkur inn, þeir Madueke virðast ná vel saman sem er frábært. Fréttir bárust þó af því í landsleikjahléinu að Palmer væri að glíma við vöðvaþreytu og hefði dregið sig úr landsliðinu af þeim sökum. Þá hefur hann einnig verið skilinn eftir utan hóps í Sambandsdeild Evrópu og vonandi dugir þetta til að drengurinn geti hvílst og beitt sér að fullu í leikjum úrvalsdeildarinnar. Leikmenn liðsins hafa komið ágætlega út úr landsleikjahléinu, það er meiðslalausir. Þeir leikmenn sem eru utan hóps vegna meiðsla eru Gusto, James, Kellyman og Jorgensen.
Af nýju leikmönnunum hefur Neto komið mér þægilega á óvart en mér finnst hann hafa fallið einstaklega vel inn í leikmannahópinn og leikskipulagið. Það er ekki að sjá að þar sé á ferð leikmaður sem kom til klúbbsins fyrir mánuði síðan. Það er líka gaman að sjá meira samspil í liðinu. Margir eru spenntir að sjá Sancho spila fyrstu mínúturnar sínar og þeim gæti orðið að ósk sinni. Einhverjir knattspyrnuspekingar telja jafnvel að hann verði í byrjunarliðinu en ég er þeim ósammála og spái því að hann byrji á bekknum. Sömu spekingar telja allar líkur á að Disasi verði látinn leysa af í hægri bakverði en eftir að hafa skoðað leikmannahópinn ætla ég að tilnefna hinn 18 ára gamla Josh Acheampong í þá stöðu.
Mín byrjunarliðsspá gegn AFC Bournemouth:
Sanchéz; Acheampong, Colwill, Fofana, Cucurella; Enzo, Caicedo; Madueke, Palmer, Neto; Jackson
Andstæðingurinn
AFC Bournemouth byrjaði sína deildarkeppni á tveimur 1-1 jafnteflum gegn Notthingham Forest og Newcastle. Þeir mættu Everton í síðasta leik á Goodison Park og var það fyrsti leikur Kepa í marki AFC Bournemouth eftir að hann var lánaður þangað. Hann verður ekki í markinu á laugardag þar sem ákvæði í lánssamningnum kemur í veg fyrir að hann geti spilað gegn Chelsea. Aftur að síðasta leik AFC Bournemouth. Everton komst í 2-0 og virtist eiga sigurinn vísan allt þar til á 87. mínútu þegar Semenyo minnkaði muninn í 2-1. AFC Bournemouth efldust til muna við þetta mark, gerðu sér lítið fyrir og bættu Lewis Cook og Luis Sinisterra tveimur mörkum við í uppbótartíma. AFC Bournemouth vann þar með leikinn og svo að segja stal öllum þremur stigunum og situr liðið í áttunda sæti deildarinnar með fimm stig.
Hópur AFC Bournemouth hefur tekið breytingum frá seinasta tímabili. Helst ber að nefna að Solanke var seldur til Tottenham í ágúst sl. á góðan prís og til að styrkja hópinn voru nokkrir leikmenn keyptir, þar á meðal lánsmaður frá síðasta tímabili Luis Sinisterra. Klúbburinn sló svo eigið met í kaupverði fyrir leikmann þegar brasilíski sóknarmaðurinn Evanilson var keyptur á 31 milljón punda. Þá var einnig keyptur 19 ára Hollendingur að nafni Dean Huijsen í vörnina. Hann hefur byrjað síðustu tvo leiki og má búast við að sjá hann í byrjunarliðinu á laugardag.
AFC Bournemouth eru taplausir eftir fyrstu þrjár umferðir úrvalsdeildarinnar. Sögulega séð hefur þeim hingað til mistekist að komast taplausir í gegnum fyrstu fjórar umferðirnar, en nú er tækifæri fyrir þá að breyta því. Þetta er baráttulið og það gæti tekið tíma að brjóta þá niður. Mér finnst allar líkur á því að lið sem hefur skorað í öllum þremur leikjum sínum skori á heimavelli gegn andstæðingi sem ekki hefur haldið hreinu á útivelli í tæpt ár en Chelsea hélt síðast hreinu á útivelli gegn Fulham 2. október 2023. Þannig að mín spá um lokastöðu leiksins er
AFC Bournemouth 1 – 3 Chelsea FC
Antoine Semenyo skorar fyrir AFC Bournemouth. Fyrir Chelsea skorar Palmer eitt og Madueke tvö.
KTBFFH
Við minnum svo lesendur á að skrá sig í Chelsea klúbbinn á Íslandi. Það er besta leiðin til að verða sér útum miða á leiki með Chelsea FC, bæði heima og að heiman. Árgjaldið er um 8.000 kr. sem rennur að mestu til Chelsea FC. Fyrir það fáum við forkaupsrétt á miðum á leiki. Nánari upplýsingar á www.chelsea.is
Comments