top of page
Search

Hakim Ziyech - Töframaður í fótbolta



Inngangur Um miðjan febrúar á þessu ári tilkynnti Chelsea um kaup félagsins á Hakim nokkrum Ziyech frá Ajax í Holllandi. Stuttu síðar samdi Chelsea við leikmanninn sjálfan og fimm ára samningur í höfn. Ziyech gekk svo endanlega í raðir félagsins í júlí síðastliðnum. Það gladdi óneitanlega margan Chelsea-manninn að klúbburinn skyldi næla í jafn eftirsóttan og hæfileikaríkan leikmann og Ziyech og það fyrir upphæð sem var ekki út úr korti, eða um 37 milljónir punda. Undirritaður hefur haft miklar mætur á Ziyech undanfarin ár og dáðst að spilamennsku hans með Ajax í Meistaradeildinni líkt og fjölmargir aðrir. Það verður því alvöru pressa á að kappinn standi sig með Chelsea. Við Chelsea-aðdáendur bíðum reyndar ennþá eftir að sjá Ziyech leika listir sínar á vellinum en hann hefur verið meiddur það sem af er tímabilinu.


Erfið æskuár Ziyech er fæddur í Dronten í Hollandi þann 19. mars árið 1993 sem gerir hann 27 ára gamlan. Hann er yngstur átta systkina og því mikið fjör á heimilinu á uppvaxtarárum kappans. Þau ár voru þó enginn dans á rósum því þegar Ziyech var aðeins 10 ára gamall lést faðir hans, sem reyndist Ziyech eðlilega mjög erfitt. Honum flosnaði upp úr skóla og átti erfitt með skap en fótboltinn reyndist honum þó snemma mikilvægt haldreipi í lífinu, en ásamt því að djöflast reglulega með systkinum sínum í fótbolta á strætum Dronten þá gekk hann snemma til liðs við knattspyrnuakademíu heimabæjarins.


Ferillinn Þegar Ziyech var 14 ára gamall færði hann sig um set og gekk til liðs við Heerenveen. Þar náði Ziyech að þróa sína hæfileika með aðstoð góðra manna - ekki síst Aziz Doufikar sem var fyrsti Marakóinn til að leika í hollensku deildinni á sínum tíma - hann varð hálfgerð föðurímynd fyrir Ziyech og hjálpaði honum að fóta sig í hinum harða heimi fótboltans. Hjá Heerenveen fékk Ziyech sitt fyrsta alvöru tækifæri, nánar tiltekið árið 2012. Hann var fljótur að láta til sín taka á vellinum og hæfielikarnir fóru ekki fram hjá neinum sem á horfði. Eftir tvö fín tímabil hjá Heerenveen var komið að næstu stoppistöð, en árið 2014 samdi Ziyech við Twente til þriggja ára. Þar byrjaði stjarna Ziyech fyrst að skína fyrir alvöru. Hann fékk treyju númer 10 og eftir aðeins eitt tímabil hjá klúbbnum fékk hann fyrirliðabandið. En það var þó frammistaðan á vellinum sem skipti mestu máli, en á tveimur tímabilum sínum hjá Twente skilaði hann tæplega 30 mörkum og álíka mörgum stoðsendingum. Það kom þó að því að vandræðin bönkuðu upp á hjá okkar manni sem endaði með að hann var sviptur fyrirliðabandinu og í framhaldinu fór hann fram á félagaskipti. Næsti áfangastaður var Ajax í höfuðborginni Amsterdam, en hann þangað fór hann sumarið 2016 fyrir um 10 milljónir punda. Hann var fljótur að láta til sín taka hjá þessu sigursæla félagi og komst fljótt í uppáhald stuðningsmanna fyrir listir sínar á vellinum. Á þremur tímabilum sínum hjá Ajax skoraði Ziyech 79 mörk og gaf 87 stoðsendingar í samtals 217 leikjum - ekki ónýt tölfræði það. Það var þó á stærsta sviðinu (Meistaradeildinni) sem Ziyech naut sín hvað best þar sem hann bauð oft upp á frábærar frammistöður á móti bestu liðum álfunnar. Þá átti hann stóran þátt í frábæru gengi Ajax í Meistaradeildinni tímabilið 2018-2019 þegar liðið fór alla leið í undanúrslit keppninnar, þar sem það datt út á ótrúlegan hátt gegn Tottenham. Í ágúst 2019 skrifaði Ziyech undir nýjan þriggja ára samning við Ajax, en hann var þá farinn að vekja athygli stærstu liða Evrópu.

Ziyech er eins og áður sagði fæddur og uppalinn í Hollandi, en þar sem móðir hans er frá Marokkó gat hann valið að spila fyrir landslið Marokkó eða Hollands. Framan af spilaði hann fyrir ungmennalandslið Hollands og var valinn í A-landsliðið vorið 2015 en þurfti að draga sig úr hópnum vegna meiðsla. Fjórum mánuðum síðar ákvað Ziyech svo að venda kvæðum sínum í kross og tilkynnti að framvegis myndi hann spila undir merkjum Marokkó, en fyrir þá hefur hann leikið 34 leiki og skorað 14 mörk.



Hæfileikabúnt Hæfileikar Hakim Ziyech eru óumdeildir. Hann er einstaklega fjölhæfur og skapandi leikmaður, með magnaðan vinstrifót (getur líka notað hægri), frábæra spyrnu- og sendingargetu og þar að auki með auga fyrir mörkum. Þá hefur hann tekið miklum framförum þegar kemur að vinnuframlagi á vellinum, en til samanburðar hljóp hann að meðaltali 7 km í hverju leik hjá Twente en 12 km að meðaltali hjá Ajax. Hvað varðar veikleika Ziyech þá blasa þeir ekki við eins og er, en það sem veldur manni einna helst áhyggjum er munurinn á hollensku og ensku deildinni, þ.e. nær þessi skapheiti leikmaður að njóta sín innan um stóra, sterka, hraða og oft á tíðum grófa varnarmenn á Englandi? Það verður tíminn einn að leiða í ljós en fyrst að hann gat blómstrað í sterkustu deild í heimi þá ætti enska deildinn ekki að verða óyfirstíganleg fyrirstaða.


Eins og áður sagði er Ziyech búinn að vera að glíma við meiðsli það sem af er tímabilinu, eftir að hafa meiðst í æfingaleik gegn Brighton. Það styttist þó óðum í að kappinn verði heill og þá er vonandi að hann sýni listir sínar á vellinum sem aldrei fyrr - ég bíð allavega mjög spenntur!

- Árni Steinar Stefánsson


PS. Hér er svo brot af því besta frá Hakim Ziyech




bottom of page