top of page
Search

Greyið Potter - Man City í heimsókn

Keppni : Enska úrvalsdeildin

Tími - dagsetning: Fimmtudagur 5. janúar kl: 20.00

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur: Síminn sport

Upphitun eftir: Hafstein Árnason

Hvar höfum við verið?


Þessi HM pása sem kom núna á síðasta ári var kærkomin hvíld frá því sem gekk á. Liðið tapaði hverjum leiknum á fætur öðrum og frammistöðurnar voru heldur slakar. Stjórinn hefur verið í vandræðum við að finna út rétta liðsuppstillingu, og sitt besta lið. Greyið Potter, óvanur allri athyglinni, stýrandi stórliði, kom með lélegar útskýringar og afsakanir. „We huffed and puffed“, er frasi sem hefur farið fyrir brjóstið á ansi mörgum stuðningsmanninum, þ.á.m. hjá okkur í ritstjórn CFC.


Þetta HM hlé var því kærkomið að því leytinu til, að það gerði Potter kleift að vinna með leikmönnum sem ekki fóru á HM og slípa hlutina eitthvað til. Miðað við leikina núna eftir hlé, virðist hann vera kominn á þá niðurstöðu að spila með 4-manna varnarlínu. Þetta virtist byrja ágætlega í leiknum á móti Bournemouth, enda Reece James kominn til baka. Það stóð þó stutt. Okkar allra besti leikmaður meiddist strax í snemma í seinni hálfleik. Um leið og við missum hann út, þá hrynur allt leikplan. Fyrirliði Chelsea, Cesar Azpilicueta, virkar ekki lengur sem hægri bakvörður, hvað þá þegar menn ætla spila með háa varnarlínu. Það sást bersýnilega í leiknum gegn Nottingham Forest. Þeir félagarnir í Skírsskógi voru mjög passífir í fyrri hálfleik, en í þeim seinni, urðu þeir ákveðnari og náðu fleiri skyndisóknum. Í þeim aðstæðum leit Azpilicueta út eins og íslenskur spretthlaupari á alþjóðlegu móti, eða eins og undirritaður í píptesti. Þetta hentar Azpiliceta alls ekki. Hvað erum við að gera?


Þegar betur er að gáð, þá virkar varnarlínan okkar í ójafnvægi. Hvað á ég við? Við erum með leikmenn eins og Azpilicueta og Chalobah, sem virka ágætir í þriggja manna varnarlínu sem miðverðir. Votturinn virkar ekki sérstaklega vel í 4-manna línu og Azpi ekki sem hægri bakvörður í dag, eins og áður sagði. Kalidou Koulibaly hefur hreinlega ollið vonbrigðum í 3-manna línu sem miðvörður þar. Enda ekkert vanur því, hvorki með Napoli né Senegal. Eins og staðan er núna, þá er líklega best að spila honum og Thiago Silva saman í 4 manna línu, á meðan Fofana er ennþá meiddur. Hinsvegar líst mér ekkert sérstaklega á, að spila Thiago Silva „week in, week out“ í þannig kerfi. Hann verður að rótera við einhvern traustan. Hann er jú, að verða 38 ára og meiðist líklega á endanum, ef álagið er of mikið. Hægri bakvarðarstaðan okkar er bölvað bras. Reece James er líklega sá besti í heimi í þessari stöðu. Hver vill vera backup fyrir svoleiðis? Fyrir mér er það augljóst, að Potter ætti að gefa Lewis Hall traustið. Hann stóð sig hvað best, fyrir HM pásuna, en hefur ekki fengið að sjá grasið síðan þá. Hvað erum við að gera?


Það er talað um að klúbburinn sé að skoða hægri bakvörðinn í króatíska landsliðinu, Josip Juranovic og svo Denzel Dumfries. Mér þykir harla ólíklegt að þeir komi. Það blasir við – að þessi staða, er helvítis vesen. Í vinstri bakvarðarstöðunni erum við ágætlega settir með Cucurella og Chilwell. Þykir þó frammistaða Cucurella hafa verið ekkert spes – a.m.k. ekki hingað til. Á miðjunni hefur þetta verið hálf laust í böndunum. Kovacic oft tæpur og Jorginho hefur oft sýnt betri frammistöður en á þessu tímabili. Þetta virðist verða hans síðasta tímabil og hafa fjölmiðlar orðað hann við Napoli og Newcastle. Denis Zakaria, lánsmaður frá Juventus, hefur þó fengið nokkur tækifæri uppá síðkastið en virðist nokkuð mistækur. N‘Golo Kante hefur varla spilað leik á þessu tímabili, og hefur verið tæpur síðan liggur við eftir liðið okkar vann meistaradeildina. Sturluð staðreynd. Liðið hefur aðeins einu sinni náð að spila N‘Golo Kante, Ben Chilwell og Reece James saman á síðustu 13 mánuðum! Þegar þeir voru allir með – þá var liðið óstöðvandi, svona nánast hér um bil. Þegar Potter breytir í 4-2-3-1 kerfið, þá fær Mason Mount að spila í holunni, staða sem er líklega hans besta staða. Kai Havertz gæti líka spilað þarna. Ef liðið spilar 3-4-3, eins og gjarnan gerist, þá er Mount settur í aðra kantstöðuna. Þá er eitt pláss laust. Um það pláss eru fjórir leikmenn að berjast um öllu jöfnu. Sterling, Pulisic, Ziyech og Conor Gallagher – ef hann er settur þangað. Vandinn er sá að enginn fær traustið til lengri tíma, nema Mase og Kai – og þeir hafa ekki verið að skila topp frammistöðum til lengri tíma á þessu tímabili, fyrir utan einn og einn leik. Við horfum svo uppá Pulisic og Hakim Ziyech eiga svo alveg stórkostlegar frammistöður á HM. Pulisic er rétt byrjaður að fá traustið í sinni stöðu í nýlegum leikjum. Fram að þessu hefur honum verið hrókerað til og frá í vængbakvarðastöðum og faðir hans hefur látið gamminn geysa á samfélagsmiðlum. Svo uppá topp erum við með annað hvort misjafnan Kai eða Pierre Emerick Aubameyang. Greyið hann að koma hingað í einhverja erindisleysu fyrir tilstuðlan Thomas Tuchel. Hvað erum við að gera?

Balanseringin á liðinu er því þannig að við erum með of fáa leikmenn í vörninni til að berjast um vissar stöður, og of marga leikmenn í framherjastöðurnar. Er mórallinn góður? Það er erfitt að segja til um það. Er Graham Potter vanur svona mótlæti? Sennilega ekki. Ég öfunda hann þó ekki fyrir að vera í þessari stöðu, en hann hefur sannarlega knappan tíma til að kippa hlutum í lið. Stuðningsmenn Chelsea eru ekki vanir því að vera í endurbyggingarfasa. Við höfum verið dekraðir af skammtímasjónarmiðum með góðum og slæmum árangri í gegnum tíðina. Potter er með fimm ára samning. Verður hann út tímabilið? Ég ætla rétt að vona það, þar sem ég trúi því ekki að annar og nýr stjóri lagi ástandið hvissbæng. Slík ákvörðun myndi líklega valda meiri glundroða. Hvað erum við að gera? Hvað ætti að gera?Stjórnin er því að versla í janúarglugganum. Enzo Fernández er samningsbundinn Benfica, eftir að komið þangað fyrir 14 milljón evra frá River Plate s.l. sumar. Ef Rui Costa, yfirmaður knattspyrnumála Benfica samþykkir tilboðið, þá fær River Plate eitthvað rúmar 34 milljónir evra fyrir sinn snúð af heildar kaupverði sem er 120 milljón evra. Til samanburðar var klúbburinn að reyna fá Rafael Leao frá AC Milan fyrir svipaðar fjárhæðir, en hefðu þurft að punga út 150 milljónum evra til að virkja klásúluna hans. Á meðan eru yngri og efnilegir leikmenn keyptir til framtíðar. Við skulum þó vona að Enzo komi af krafti inn í liðið, því ekki veitir af!


Auk þess fengum David Fofana frá Molde – en Potter er sagður ekki ætla nota hann neitt strax. Andrey Santos, 18 ára strákur, sem virðist vera með mikinn skrokk, kemur frá Vasco Da Gama í Brasilíu. Hann hefur fengið meðmæli frá Juninho Pernambucano (aukaspyrnusérfræðingurinn sem lék með Lyon um árabil). Að hans sögn mun Santos fara strax í aðalliðið hjá Chelsea. Sjáum til hvað gerist. Undirritaður er mjög hrifinn af því sem stjórnin er að gera með þessa ungu leikmenn, en skammtímavandræðin hjá aðalliðinu eru alveg hreint út sagt æpandi. Hvort kraftur í Enzo Fernández muni leysa það á eftir að koma í ljós en núna er leikur gegn Manchester City á heimavelli.


Manchester City náðu ekki góðum úrslitum í síðasta leik gegn Everton. Þetta verður því dæmigerður „bounce back“ leikur hjá þeim myndi ég halda. Norska skrímslið mun sennilega skora. Cancelo og Foden hvíldu í síðasta leik og verða því án efa klárir í byrjunarliðinu hjá City. Einhvernveginn efast ég um að Potter ætli að stilla eins upp og í síðustu tveimur leikjum. City refsa grimmilega, sérstaklega ef Haaland getur hlaupið í svæði. Ég reikna því með að Potter stilli upp í 3-4-3 og freistist til að loka vel á lærisveina Pep Guardiola. Byrjunarliðið verður því Kepa í markinu. Koulibaly, Thiago Silva og Chalobah í miðvörðum. Azpilicueta og Cucurella í vængbakvörðum. Kovacic og Jorginho verða á miðjunni. Raheem Sterling og Mason Mount verða svo rétt bakvið Kai Havertz.Úrslitin verða sennilega 2-0 tap gegn Manchester City. Norska skrímslið með a.m.k. eitt mark, ef ekki tvö. Að ná jafntefli væri mjög ásættanleg niðurstaða, og sigur væri gegn öllum væntingum. Við getum ekki vænst til þess að Pep ofpeppist líkt og í úrslitaleik meistaradeildarinnar. Búið ykkur undir það versta. Þetta á eftir að verða erfitt! Sérstaklega fyrir greyið Potter


KTBFHH

Hafsteinn ÁrnasonComments


bottom of page